VW Golf GTi 337 Edition “Once upon a time there was a little car that went really fast”.

Með þessum orðum kynnir Volkswagen of America sérstaka útgáfu af Golf GTi sem fer fljótlega á markað þar vestra en bíllinn var kynntur á New York Auto Show í mars sl.

Bíllinn er byggður á 25 ára afmælisútgáfu af Golf GTi sem var framleiddur til að fagna 25 ára afmæli Golf GTi í Evrópu árið 2002.

VW Golf 25th Anniversary GTi var eingöngu ætlaður til sölu í Evrópu. Volkswagen of America fengu talsvert margar fyrirspurnir um hvort til stæði að flytja þessa bíla inn til USA. Svarið var neikvætt þar sem að ekki var farið að selja Golf GTi í USA fyrr en árið 1983 og því ekki við hæfi að bjóða 25 ára afmælisútgáfu þar vestra. Áhuginn fyrir bílnum var samt það mikill að Volkswagen of America flutti eitt stykki inn til USA til nánari skoðunar.

Farið var að reikna út kostnaðarhliðina við framleiðslu á svipaðri sérútgáfu fyrir USA markað og þá kom fljótlega í ljós að framleiðslan myndi ekki borga sig þar sem að hann yrði boðinn í mjög takmörkuðu upplagi og vegna þess að ýmsar smá lagfæringar yrði að gera á bílnum til að hann stæðist reglugerðir í USA. Má þar nefna breytingar á framstuðara, öryggisbeltum í aftursæti, hávaðamengun frá pústkerfi ásamt fleiru í svipuðum dúr.

Kanarnir gáfust þó ekki upp og hættu ekki að reikna fyrr en þeir voru komnir með verkefnið réttu megin við núllið. Tekin var ákvörðun um að setja bílinn í framleiðslu og hófst hún um miðjan mars sl. Ekki þótti við hæfi að kalla bílinn sama nafni og í Evrópu af áðurnefndum ástæðum. Bíllinn fékk í staðinn nafnið VW Golf GTi 337 Edition, en EA337 var upphaflega project nafnið á 1. kynslóðar GTi Golfinum (A1). Bíllinn verður framleiddur í 1.750 eintökum og kemur til með að kosta 22.250 dollara.

Bíllinn er að langstærstu leiti eins og evrópski bróðir sinn fyrir utan örfáa litla útlitslega þætti en helst má þekkja þá í sundur á hliðarstefnuljósinu í framstuðaranum á Ameríkuútgáfunni.

En lítum ná á hvað gerir bæði VW Golf 25th Anniversary GTi og Golf GTi 337 Edition svona sérstaka. Jú, það er sérstakur Special Sport Equipment Package sem inniheldur eftirfarandi hluti:

Í fyrsta lagi er búið að henda út öllum auka óþarfa lúxusbúnað með það að markmiði að gera hann að back to basics GTi bíl, ef svo má komast að orði.

Stærsta útlitslega breytingin eru 18“x7.5” BBS RC álfelgur sem bíllinn kemur standard á ásamt 225/40 ZR18 Michelin Pilot Sport low profile dekkjum. Felgurnar eru sérsmíðaðar af BBS fyrir VWoA þar sem að aftermarket BBS RC felgurnar eru 18“x8.5” en þær þóttu ekki passa nógu vel undir bílinn. VW felgurnar eru um 4 kg léttari en aftermarket felgurnar.

Það er ansi athyglisvert að blaða í gegnum bæklinginn sem fylgir með bílnum og þá einkum hlutann sem inniheldur svokallað Legal Information sem er eflaust settur inn til að menn þar vestra geti ekki stundað þá þjóðaríþrótt að fara í mál við mann og annan. Eftir þann lestur mætti halda að Kanarnir hefðu aldrei séð 18“ dekk áður því margtuggið er á því að menn verði að fylgjast vel með loftþrýstingnum í dekkjunum og að menn geti skekkt felgurnar á því að keyra á fullri ferð ofan í holur. Besti hlutinn er þó feitletraður og skrifaður með CapsLock takkann í botni en þar er tekið fram að dekkin séu alls ekki ætluð til vetraraksturs og mönnum eindregið ráðlagt frá því að reyna að setja keðjur á þau. Einnig er skýrt tekið fram að verði menn að kaupa snjódekk og nýjar felgur fyrir þau þá sé það gert á eigin kostnað. Stundum veltir maður því fyrir sér hvernig þessi þjóð hefur komist af í gegnum aldirnar ;)

En aftur í pakkann.

Búið er að lækka bílinn um 1” en að öðru leyti heldur VWoA því fram að fjöðrunarkerfið sé lítið breytt frá venjulegum Golf GTi. Reyndar er aðeins búið að lækka bílinn um 0.78“ að framan en 1” að aftan. Bíllinn þykir þó höndla mun betur en stock GTi sem gæti bent til þess að eitthvað væri nú meira búið að eiga við fjöðrunarkerfið heldur en VWoA er tilbúið að viðurkenna. Fróðlegt þætti mér að sjá hvernig Hekla myndi koma þessu til skila en hingað til hafa þeir litið á lækkunarsett sem verkfæri úr neðra……..

Nú, samlitað svuntukitt frá Votex er allan hringinn en undirritaður hefur aldrei verið mikill aðdáandi Votex enda er þetta kitt ekki mikið fyrir augað. Framsvuntan þó þokkaleg. 3“ krómaður púststúttur kíkir út að aftanverðu sem er athyglisvert þar sem endinn á pústinu sést ekki á stock Golf og átti það víst að undirstrika hversu bíllinn væri umhverfisvænn.

Nýr 6 gíra gírkassi er í bílnum sem heitir MQ350 og hann svipaður þeim sem er í Audi TT Quattro.

Nú innandyra eru það Recaro framstólar með rauðu og svörtu áklæði. GTi er svo bróderað mjög snyrtilega í áklæðið í axlarhæð fyrir miðju með rauðum stöfum og svo Recaro þar fyrir neðan. Stýrið og handbremsuhandfang eru leðurklædd með rauðri bróderingu og svo er talsvert um burstaða álpanela í mælaborðinu til að fá smá retro fíling. Pedalar og hurðarlistar eru einnig úr burstuðu áli. Gírhnúðurinn er ansi skemmtilega hannaður og er eins og golfkúla enda kallast hann GTI ”golfball" shift knob. Hljómflutningstækin eru frá Monsoon.

Lítum undir húddið.

Stock GTi er um 150 hö en 337 er búinn 180hp 20v 1.8t vél (sú sama og í Octavia RS) sem á að skila bílnum í 100 km/klst á 6.5 sek. Bremsukerfið er öflugt og búið 312 mm kældum diskum að framan en 256 mm að aftan. Bremsudælur eru sprautaðar rauðar.

VW GTi á tvítugsafmæli í USA á næsta ári og þá stendur til að bjóða aðra mjög svipaða afmælisútgáfu af Golf til sölu í USA og á upplagið að vera um 5000 stk. 337 er eingöngu fáanlegur silfraður en 20 ára afmælisútgáfan verður hinsvegar boðin í 5 mismunandi litum. Sá bíll verður mjög líklega dýrari heldur en 337.

Nú finnst mér svo sem ekki aðalatriðið hvort vel tekst til með þennan bíl. Aðalatriðið að mínu mati er að VW er að vakna aftur af dvalanum og eru að greinilega að reyna að vekja GTi menninguna aftur sem því miður hefur verið í talsverðri niðursveiflu á þeim bæ sl 10 ár. Vonandi að 5. kynslóð af Golf GTi verði hönnuð með svipað í huga og þessi bíll en hún verður kynnt árið 2005.