Subaru Impreza 22B STi Type R Það var löngu komin tími til að setja saman grein um einn mesta extreme fjöldaframleidda bíl sem Subaru hefur sett á markað. Subaru Impreza 22B STi Type R.

Subaru verksmiðjurnar höfðu hug á að framleiða sérstaka útgáfu af Subaru í tilefni af 40 ára afmæli verksmiðjanna en þær voru stofnaðar árið 1958. Á Bílasýningunni í Tokyo árið 1997 var því tilkynnt að Subaru hyggðist setja á markað einskonar götuútgáfu af Subaru Impreza bílnum sem notaður var í WRC. Engar upplýsingar um bílinn höfðu lekið frá Subaru fyrir sýninguna og kom þessi tilkynning því mönnum nokkuð á óvart. Bíllinn gekk undir vinnuheitinu Subaru Impreza WRCar. Hann átti að byggja á yfirbyggingu Subaru Impreza WRX STi Type R Version IV sem var nýkominn á markað í Japan en átti að hafa stærri vél með meira togi og svo áttu viðbótar boddíhlutir bílsins að láta hann líta út fyrir að vera raunverulegan WRC rallíbíl. Til stóð að hann kæmi í sölu árið 1998.

Bíllinn átti að vera fáanlegur í mjög takmörkuðu upplagi og var hugsaður fyrir Japansmarkað. Með þá staðreynd bak við eyrað er fróðlegt að skoða hvaðan hugmyndin að baki bílnum er upphaflega komin. Grunnhugmyndin að baki bílnum byrjaði nefnilega sem einskonar innanhúsverkefni hjá Prodrive í UK en þeir höfðu áhuga á að reyna að hanna 2 dyra high performance útgáfu af Impreza fyrir Bretlandsmarkað. Prodrivemenn sýndu yfirmönnum Subaru í Japan þennan hugmyndabíl og leist þeim svo vel á að ákveðið var að færa verkefnið alfarið yfir til Subaru Tecnica International (STi) í Japan þar sem hönnuninni var haldið áfram. Það má því segja að bílinn hafi nokkur bresk gen þó að hann teljist vera japanskur special edition bíll.

Nú liðu nokkrir mánuðir án nokkurra frétta og á meðan fór allt af stað á póstlistunum á netinu. Ýmsar “áreiðanlegar” heimildir áttu að vera að baki fréttum um 2500 cm3 vél sem átti að skila yfir 350 hestöflum, talað var um twin turbo og sequential gírkassa svo einhvað sé nefnt. Lítið af myndum fór þó í umferð en ætli það skýrist ekki á því að þetta hafi verið fyrir tíma mikilla Photoshopæfinga.

Um miðjan febrúar 1998 kom svo fréttatilkynning frá Subaru þar sem tilkynnt var að ákveðið hefði verið að nota 2200 cm3 vél í bíllinn. Vinnuheitið Subaru Impeza WRCar var ekki lengur notað og í staðin var tilkynnt að bíllinn fengi nafnið Subaru Impreza 22B STi Type R. Ekkert var minnst á hestaflatölu í sambandi við vélina sem olli því að sagan um 350 hestöflin lifði áfram góðu lífi.

Takmark Subaru með þessum bíl var að smíða bíl sem væri eins líkur venjulegum Subaru Impreza rallýbíl bæði mtt útlits og performance en væri þó hægt að skrá sem ósköp venjulegan götubíl til að löglegt væri að aka honum dags daglega. Til að ná þessu fram voru þægindi algjört aukaatriði. Ekkert útvarp, enginn geislaspilari, ekkert ABS bremsukerfi, engir líknarbelgir, lítil sem engin hljóðeinangrun o.s.frv. til að halda bílnum eins og léttum og mögulegt var. Með þessu náðu þeir fram bíl sem fullbúinn vegur aðeins 1270 kg og er 4.7 sekúndur að ná 100 km hraða.

Framleiðusluferli 22B STi var eitthvað á þessa leið.

Eins og áður hefur komið fram þá byrjar bíllinn feril sinn sem Impreza WRX STi type R Version IV en það er coupe útgáfan af WRX STi bílnum. Coupe bíllinn og 22B eiga þó lítið annað sameiginlegt annað en að nota sömu yfirbyggingu því að eftir þetta er 22B meira og minna handsmíðaður.

Fram- og afturbretti eru endurhönnuð þannig að bíllinn verður svipað breiður og rallútgáfan sem notuð er í WRC. Nýju brettin eru samt sem áður byggð að grunni til á upprunalegu brettunum. Eftir þessa útvíkkun á brettunum er bíllinn orðinn 80mm breiðari en áður.

Næst er bíllinn handsprautaður enda orðinn það breiður að hann passar ekki lengur inn í neina framleiðslulínu hjá Subaru.

STi tekur svo aftur við bílnum og setur 2200 cm3 túrbóvél í bílinn sem á að skila meira togi á lágum snúningi heldur en 2000 cm3 vélarnar sem notaðar eru í aðrar STi Imprezur. Opinberar tölur frá Subaru segja að vélin skili 280 hö @ 6000 rpm en sú tala er nú meira til málamynda og þar ber að hafa í huga heiðursmannasamkomulag japanskra bílaframleiðenda um hámarkshestaflafjölda í þarlendum bílum. Menn hafa þóst mæla þessa bíla uppí allt að 350 hö en almennt er talið að raunverulegur hámarkshestaflafjöld liggi einhversstaðar í kringum 325 hö. Það sem skiptir höfuðmáli hér er viðbótarútborun á vélinni. Sú breyting skilar miklu meira togi á lágum snúningi enda segja opinberar tölur frá Subaru að vélin togi 363 Nm @ 3200 rpm.

Sérshönnuð STi kúpling er sett í bílinn, sem gerð er úr keramik og málmblöndu, og á hún að þola það mikla álag sem skapast óhjákvæmilega í svona öflugum bíl.

Þá er komið að fjöðrunarkerfinu en það er sérhannað í samvinnu Bilstein, Eibach og STi og er mun stífara en venjulegt fjöðrunarkerfi sem notað er í STi Imprezur. Þrátt fyrir að dempararnir í bílnum beri allir merki sem á stendur“By Prodrive” segir Prodrive að lokaútgáfa þeirra hafi verið hönnuð af STi í Japan.

Þá er komið að því að setja WRC boddíhluti á bílinn. STi byrjar á því að setja stillanlegan afturvæng á bílinn, nýja stuðara að framan og aftan, öðruvísi loftristar á vélarhlíf ásamt nýjum svuntum. Þetta er allt saman samlitað bílnum og er innbygg bremsuljós í afturvængnum. Ekki má gleyma gylltu felgunum en þær eru 17 tommu BBS magnesíum felgur á 235/40ZR17 Pirelli hjólbörðum.

Að lokum er blá innrétting sett í bílinn.

Þá er Subaru Impreza 22B STi tilbúinn.

Taka má fram að útlit 22B er að langmestu leiti hannað af Peter Stevens en hann ber ma ábyrgð á útlitshönnun flestra þeirra WRC bíla sem Subaru hefur notað.

Bíllinn var aðeins framleiddur í 400 eintökum og var sérstök plata sett inní bílinn þar sem á var ritað nafn bílsins ásamt framleiðslunúmeri á forminu xxx/400. Lengi vel var því haldið fram að bíll númer 13 (013/400) hefði ekki verið framleiddur og því séu bílarnir í raun 399. Þessi hjátrú endurspeglast td í öllum breskum special editon útgáfum af Subaru Impreza. Seinna meir kom svo í ljós að bíll númer 13 hafði verið sendur til Subaru USA með það að markmiði að sýna þarlendum bílablaðamönnum hvað byggi í Subaru Impreza.

Öll eintökin voru upprunalega seld í Japan. Sögusagnir segja að 30 mínútum eftir að bíllinn var opinberlega kynntur hafi Subaru verksmiðjurnar verið búnar að fá 6000 staðfestar pantanir, þ.e pantanir þar sem borgun fylgdi með en ásett verð var um 5 milljón yen sem var um 28.000 pund á þessum tíma. Breskir innflytjendur sem náðu sér í eintök af bílnum settu allt frá 35.000 uppí 50.000 pund á þá og komust upp með það því að upplagið var mjög takmarkað og að sama skapi mjög eftirsótt. Af þessu leiðir að bíllinn er orðinn mjög verðmætur safngripur

Þrátt fyrir að framleiðslunúmer bílsins ná ekki nema upp í 400 þá voru samt alls 426 eintök framleidd.
Tilvist þessara 26 auka eintaka skýrist á eftirfarandi hátt.

3 fyrstu bílarnir sem framleiddir voru fengu framleiðslunúmerið 000/400 og þessa bíla fengu Colin McRae þáverandi aðalökumaður Subaru í WRC, aðstoðarökumaður hans Nicky Grist og David Lapworth hjá Prodrive að gjöf frá Subaru. Og þeir eiga þá víst enn í dag.

15 eintök voru flutt inn til UK í gegnum Subaru UK og voru settir þar á markað undir nafninu Subaru Impreza 22B STi Type UK til að flokka þá frá grey import bílunum. Þessir bílar fengust ekki skráðir á götuna í UK fyrr en árið 1999.

8 eintök voru svo seld hingað og þangað um heiminn og hefur verið staðfest að 5 af þeim hafi endað í Ástralíu þrátt fyrir að þeir hafi ekki fengist skráðir þar sem götubílar. Soldánin af Brunei er talinn hafa náð sér í hin 3 eintökin á okurverði en sá maður mun vera með mikla bílasöfnunaráráttu og þá er víst vægt tekið til orða.

Mönnum þótti lengi vel mikil ráðgáta hvernig nafnið 22B væri tilkomið. Menn voru sammála um að 22 skírskotaði til slagrýmis vélarinn en hún er 2.2 lítra. B-ið olli mönnum hinsvegar talsverðum hausverk. Mörgum datt Boxer í hug sem skírskotaði þá til boxervélanna sem Subaru er þekkt fyrir en ýmsirr bílablaðamenn töldu víst að B-ið stæði fyrir Bilstein sem sá að mestu leyti um hönnun á fjöðrunarkerfi bílsins.

Fyrir þá sem ekki vita enn í dag hvað nafnið þýðir þá verður hulunni af leyndardómnum hér með svipt af.

Ræsið vasatölvuna sem kemur með Windows.

Smellið á view og veljið Scientific.

Smellið því næst á Hex sem er efst vinstra megin á vasatölvunni.

Sláið svo 22B inn

Smellið því næst á Dec sem er staðsett við hliðina á Hex takkanum

Þá ætti svarið að standa í glugganum á vasatölvunni :)

Eins og áður kom fram var Subaru Impreza 22B framleiddur til að fagna 40 ára afmæli Subaru árið 1998. Það liggur því við að maður sé strax farinn að hlakka til að sjá hvers konar bíl Subaru setji á markað árið 2008 þegar Subaru verður 50 ára. Ljóst er að það verður ekki einhver ofurútgáfa af núverandi Imprezu (New Age Impreza) þar sem að sá bíll verður líklegast aðeins framleiddur út árið 2006.