Hraðinn drepur - eða hvað? Eftirfarandi grein, er blogg. Ég tók þetta af bloggsíðu Villa Ásgeirssonar vegna þess að mér fannst þetta vera skemmtilegt í lestri og einstaklega vel skrifað.

Einnig er mikið til í þessu! Það þyrfti að koma þessu áleiðis upp í heilabúið á þeim sem hafa eitthvað um málið að segja.

Villi Ásgeirsson
Svo lengi sem ég man eftir mér hefur hraða verið kennt um allt sem miður fer í umferðinni. Ef við keyrum bara nógu hægt deyr enginn og engin slys verða. Þetta er rétt, sé hraðanum still svo í hóf að allir hafi alltaf nógu langan tíma til að bregðast við öllum hugsanlegum hættum. Hver yrði hámarkshraði að vera til að gera umferðina örugga? Töluvert lægri en nú er.

En það er ekki hraði sem drepur. Lélegir ökumenn sem ekki kunna að keyra eftir aðstæðum drepa. Fólk sem blaðrar í símann undir stýri drepur. Léleg færð, hálka og slæmt skyggni drepur. Bílar í lélegu ástandi drepa, hugsanlega. Myndavélar sem hannaðar eru til að ná í aukapening fyrir stjórnvöld leysa engan vanda. Ef eitthvað er, bæta þær á hann. Fólk veit hvar þær eru og hægja á sér rétt á meðan keyrt er fram hjá þeim. Oft er snarbremsað rétt áður en keyrt er fram hjá myndavélinni og skapar það aukna hættu á aftanákeyrslum. Ég bý í landi hraðamyndavéla, ég ætti að vita þetta.

Þegar ég var krakki var 80 km hámarkshraði á þjóðvegum landsins. Þá keyrði fólk um á bílum sem engum er bjóðandi í dag, bílum sem voru töluvert óöruggari með verri bremsur og slæmir í stýri. Mestmegnis á malarvegum. Nú keyrum við um á bílum sem geta farið hringi kring um gömlu bílana vegna betri akstureiginleika. Við keyrum um á rennisléttum malbikuðum og oft upplýstum vegum, en hámarkshraði hefur varla breyst. 90, 10 km meira en þegar mælaborðið skrölti og rykið fyllti vitin.

Hér í Hollandi er mikil umferð. Það getur tekið u.þ.b. 70-90 mínútur að keyra 20-30 km leið kring um Amsterdam. Jafnvel meira. Mengunin er ansi slæm á hringveginum kring um borgina. Hvað var tekið til bragðs? Hámarkshraðinn var lækkaður úr 100 km í 80. Þetta átti að minnka stress og þannig greiða fyrir umferð, og minna mengun, þar sem keyrt yrði hægar. Áhrifin voru stórkostleg. Öngþveitið er nú algert. Hver bíll er lengur úti á götunum, sem eykur á umferðarþunga, þ.a.l. mengun og teppur. Slysum hefur ekki fækkað.

Er ekki kominn tími til að horfa á eitthvað annað en bara hraðann?

Ég vill taka það fram aftur að þetta er ekki eitthvað sem ég skrifaði, tekið af: http://vga.blog.is/blog/vga/entry/553627/ - Myndina gerði ég þó sjálfur :)