BMW 7 serian (E32) Endurhönnun á gömlu sjö seríunni sem hafði verið óbreytt frá 1977 hófst um svipað leiti og 3 seriunni hafði verið breytt um ’83. Fyrsti 7 bíllinn af nýju gerðinni rúllaði af færibandinu haustið 1986, þó flestir vilja meina að framleiðsla á honum hafi ekki hafist fyrr en ’87 og bandaríkjamenn miða við árið ’88. Í grunnatriðum var bíllinn ekki svo ólíkur þeim fyrri, 6 cylindra vélin hafði verið notuð í mörg ár á undan, en nokkrum aukatólum hafði verið bætt við hana til að gera hana öflugri og sparneytnari. Fjöðrunarkerfið var svipað, að vísu var nú hægt að fá hann með svokölluðu LAD-kerfi sem hélt bílnum í sömu hæð frá jörðu sama hversu mikil þyngsli voru sett í hann. Boddíinu var svo auðvitað gefið straumlínulagaðra útlit sem féll býsna vel í fólk. Innanborðstölva sagði svo fólki allt sem það vildi vita og sjálfgreiningartölva lét bílstjórann vita ef eitthvað var að bílnum.

Vélin var, eins og áður segir, 6 cylindra M30 vél sem BMW hafði notað í þó nokkurn tíma áður. Henni var nú breytt örlítið frá fyrri gerðum og flestir þekktir gallar lagaðir. Af þessum sökum hefur þessi vél reynst ótrúlega vel. Í fyrsta lagi voru þær mjög sterkar og þoldu næstum hvað sem var. Öðru lagi sparneytnari en nokkur önnur vél í sama flokki. Og í þriðja lagi mjög kraftmikil. Hægt var að fá M30 vélarnar sem 3.0 lítra eða 3.5 lítra. 3.5 lítra vélarnar voru nokkuð vinsælli, enda miklu skemmtilegri og fyrst maður er að eyða meiri pening en flestir eyða í húsnæðiskaup, þá munar ekki um nokkur hundruð þúsund. Árið 1987 kom BMW svo með fyrstu V12 vél sína hingað til, 5.0 lítra, sem skilaði litlum 300 hestöflum við 5200 snúninga. Menn hjá BMW voru vægast sagt stoltir af þessari vél sem óhætt er að kalla hreina snilli. 750 bíllinn var af þeim sökum gerður nokkuð sérstakur, svo sem með breiðara grilli. Á þeim tímum þótti 15 lítrar á hundraðið fyrir 1830 kg bíl í blönduðum akstri vera nokkuð gott, enda var engin önnur vél svo stór sem gat keppt við slíkar tölur. Á móti kemur að þær eru svo flóknar að það er ekki fyrir hvern sem er að gera við þær og fjöldi viðgerða ríður oft mörgum 750 eigandanum að fullu. Einnig var hægt að fá í þessa bíla V8 vélar, með 4.0 lítra sprengirými, en þær þóttu einnig nokkuð kenjóttar. Vélaflóran var síðan takmörkuð við V8 og V12 vélar árið ’92, með vali á milli 3.0, 4.0 eða 5.0 lítra sprengirými. Við það tækifæri var breiða grillið sem áður hafði einkennt 750 bílana sett á alla 7 bílana.

Í nær öllum 7 bílunum var sjálfskipting, fyrir utan örfáa evrópubíla. Þeir fáu sem voru beinskiptir gátu náð hundraðinu á rétt yfir 7 sekóndum, og skipti þá vélarstærðin ekki miklu. Með sjálfskiptingunni náðu þeir hundraðinu frá 8 og uppí 9,3 sekóndur fyrir 3.0 lítra vélina. BMW var þó aldrei beint að miða að því að koma bílnum sem hraðast á mikinn hraða. Það sem þeir vildu var sparneytinn lúxusbíll, sem gat skipt fljótt og örugglega á milli akreina. Bíllinn er vissulega sparneytinn, íburðarmikill og skiptir svo sannarlega fljótt á milli akreina, en það er ekki laust við sportlega tilburði hjá honum. T.d. er hægt að velja um þrennskonar ham á sjálfskiptingunni: E fyrir Economy, S fyrir sport og M fyrir manual. Í E reynir bílinn að miða sem mest að því að bílferðin verði „smooth“. M gerir voða lítið annað en koma í veg fyrir spól á vetrartímum, enda ekki ætluð til annars. S breytir þó hegðun bílsins þó nokkuð, vélin er látin fara uppí hærri snúning áður en skipt er og allt er miðað að því að koma bílnum sem hraðast. Annars skemmtilegur fídus sem ber augljós merki þess að þetta sé sportbíll í hlekkjum þyngdar sinnar, er „kickdown“ sensorinn. Þá ákveður bíllinn útfrá því hversu hratt bensíngjöfinni er ýtt niður í gólf, að hann sé farinn í kickdown-ham. Og það er augljóst að þeir hjá BMW hafa soldið pælt í þessu. Vélin er látin komast uppí sem hæstan snúning sem fyrst, engu máli skiptir hversu mikið bensín vélin eyðir. Slökkt er á þeim hlutum sem draga orku frá vélinni, svo sem á miðstöðinni. Þó verður að viðurkennast að bíllinn er hægur uppí svona eins og 30, en eftir það stoppar vélin ekki að vinna og hröðunin verður ótrúleg, svo ekki sé minnst á skemmtileg fyrir þann sem keyrir. Hámarkshraði er 225 fyrir 3.0 lítra vélina, 250 fyrir 5.0 lítra vélina. Og ef maður passar sig ekki á að líta öðru hvoru á hraðamælinn má búast við að maður gleymi sér og verði kominn mjög nálægt þessarum tölum áður en sírenuvæl vekur mann af ljúfum draumi. Hraðatilfinningin er sem sé næstum engin. Á 140 km/klst finnst manni sem maður sé á 100, engar ýkjur þar. Ástæðurnar eru eflaust margar, ein er mjög góð hljóðeinangrun, enda annað ekki ásættanlegt fyrir lúxus limósínu af dýrustu gerð. Kannski önnur ástæða fyrir því að maður er kominn á 140 áður en maður veit af, er sú að bíllinn eyðir minna við 140 en 90, eins ótrúlegt og það virðist vera. Og ekki skemmir mótstöðustuðull bílsins fyrir, en hann er 0,31 sem að mér skilst hafi verið met á þeim tíma fyrir fjöldaframleiddan bíl, en þori ekki að ábyrgjast það. Fyrir utan að ABS hafi verið staðalbúnaður, auk ótrúlegs magns annars (listinn yfir staðalbúnað yrði lengri en öll þessi litla greinargerð, hvað þá yfir valútbúnað) í þessari lúxus kerru sem maður trúir ekki að sé orðin 15 ára gömul í hönnun, þá var hægt að fá þá í svokallaðri L útgáfu, en þá var bíllinn 10 cm lengri, orðinn rétt yfir 5 metrar á lengd. Þetta gefur honum óneitanlega svalara útlit, auk þess sem íburður er meiri en í venjulegri útgáfu. L týpan átti að höfða til þeirra sem höfðu einkabílstjóra og vildu láta fara vel um sig í aftursætinu þar sem 10 centimetrarnir bætast við afturfarþegarýmið.

Ég gæti ábyggilega haldið áfram endalaust um þennan bíl, þó að ég viti voða lítið um hann. Eins og oftast er um þá sem skrifa greinar um einhverja sérstaka bílategund þá á ég sjálfur 735i ’87 bíl, sem á að vera sá besti af 7 bílunum í viðhaldi og rekstri. Með performance chip skilar vélin einhverjum 266 hestöfl, sem mér þykir meira en nóg, og án efa öflugasti og jafnframt skemmtilegasti bíll sem ég hef nokkurn tíman keyrt. Ég mæli þó með því að hver sá sem ætlar að fara útí kaup á svona skepnu fari með bílinn í gegnumlýsingu hjá einhverjum sem hefur vit á þeim, helst B&L. Það er ekkert grín að halda úti svona grip og bílasölurnar eru morandi í 7 bimmum sem búið er að vanrækja. En ef maður hittir á rétt eintak þá á þessi bíll eftir að fá mann oft til að brosa breitt.