Porsche 928 Þróun Porsche 928 hófst seint á árinu 1971, sem sagt á undan Porsche 924 sem kom þó á markaðinn fyrr en 928.
Porsche taldi að loftkældi 911 bíllinn gæti ekki haldið stöðu sinni á markaðnum mikið lengur þar sem kkröfur um mengunarvarnir, hljóðmengun ofl. Voru orðnar mun háværari með hverju árinu, einnig töldu menn að bílar með vélina afturí væru óöruggari í árekstrum en bílar með vélina fram í.
Porsche sá að það vantaði öflugan bíl á Bandaríska bílamarkaðinn, upphaflega stóð til að setja V6 vél í 928, en til allrar hamingju var hætt við það og þess í stað var sett 4500 cc, SOHC, 16V, V8, álvél sem var hönnuð algjörlega af Porsche. Til gamans má geta þess að þessi vél er með lengstu tímareim sem er í fjöldaframleiddum bíl í heiminum í dag, eða um 2 metra löng..!!! J

Ýmiskonar fjöðrunarbúnaður og drifbúnaður var prófaður í 911, Bens, Opel og Audi yfirbyggingum. Verkfræðingarnir hjá Porsche eyddu gríðarlega miklum tíma og fjármunum í þessar prófanir, þeir þurftu að breyta bílunum mikið til að geta prófað þetta, en síðar þegar fullgerðar frumgerðir voru smíðaðar voru þær prófaðar í eyðimerkum Afríku og í snjónum í Finnlandi. Árekstrarprófanir voru gerðar skv. Stöðlum og var Porsche 928 langt yfir meðallagi í þeim prófunum.

Porsche menn voru mjög stoltir af þessum bíl, en þegar þróun bílsins var uþb hálfnuð skall á bensínkreppa, og stóð stjórn Prosche frammi fyrir því hvort þeir skyldu halda áfram með “project 928” eða ekki, en sem betur fór töldu þeir að þörfin fyrir V8 bíl væri fyrir hendi og var því þróuninni haldið áfram.

Hönnun yfirbyggingarinnar og þróun var gerð með mikilli leynd, þó nokkur mót af bílnum í fullri stærð voru gerð, var notast við vindgöng við þessa hönnun frá degi eitt.
Um það leyti sem hönnunin var að verða fullgerð þá var bíllinn kynntur fyrir stjórn Porsche, en þar var endanleg ákvörðun fyrir dyrum. Bíllinn var samþykktur og og var síðan sýndur í fyrsta skipti almenningi á bílasýningu í Genf í Mars 1977 og “Project 928” var loksins orðið að Porsche 928. Þegar bíllinn var afhjúpaður risu miklar umræður um bílinn, hann var kosinn bíll ársins vegna margra nýjunga, s.s. vegna álvelar, “Weissach” drif/fjöðrunarbúnaður, en megin kostur Weissach búnaðarins er að hann kemur í veg fyrir yfirstýringu undir inngjöf, búnaðurinn stillir sig eftir beygjuradíus, þessi búnaður er eitt af því frægasta sem Porsche hefur látið frá sér fara og er notaður í fleiri bílum í dag.

Tveggja kúplingsdiska kerfi, balansstangir, rafgeymir í skottinu til að vega upp á móti tirtring í afturenda. Þó að 928 sé með vélina fram í, þá er skiptingin afturí og er þyngdadreifingin fram og aftur 50/50.

Framleiðslan fór fram í Stuttgart, Zuffenhausen ásamt 911 bílunum, það er athyglisvert að þrátt fyrir mikla yfirburði þá náði 928 aldrei að slá 911 út af laginu í sölu, þó að 928 hafi verið dásamaður af tímaritum og pressunni sem besti GT bíll sem Porsche hafi framleitt þá varð hann aldrei sérstaklega vinsæll nema hjá þeim sem pæla mikið í bílum, og hjá þeim sem vilja hraða.

Árið 1987 kom Porsche með róttækustu breytinguna sem varð á þessum bíl frá upphafi til enda, 5 lítra vél, 32 ventla, 316 hestöfl, fram og afturenda var breytt, stærri bremsudiskar voru settir í bílinn, Brembo 4 stimpla bremsudælur, ABS, og fleira góðgæti. Þessar breytingar voru reyndar prófaðar í nokkrum bílum sem framleiddir voru 1986, þ.e. með eldra boddíinu og eru þeir þekktir sem 928s, 1986,5 bílar, þeir voru nokkrum kílóum léttari en 928 S4 en að öðru leyti með sama búnaði.
Nún fékk Porsche 928 stöðunna “Supercar”.. Al Holbert sló 2 FIA hraðamet á óbreyttum 928 með hvarfakút, 275 km hraða á klst. Samskonar bíl og hægt var að kaupa í næsta Porsche umboði, þ.e. ef bankabókin var feit….

Árið 1989 kom enn einn 928 á markaðinn, en það var 330 hestafla GT útgáfan, GT bíllinn var aðeins til beinskiptur 5 gíra, kom á breiðari felgum, en að örðu leiti var engin stórkostleg breyting frá S4. Þó var notuð tækni úr 959 bílnum, en það var tölvustýrð driflæsing, (LSD), það voru ekki margir GT bílar framleiddir og eru þeir mjög eftirsóttir af söfnurum í dag.

1992 kom síðasta gerðin á markaðinn, en það var 5,4 lítra 345 hestafla 928 GTS, staðalbúnaður var orðinn þriggja punkta öryggisbelti, framí og afturí, 17” felgur, breiðari bretti til að hylja dekkin, bremsudiskar stækkaðir í 12,68 tommur frá 11,97 tommum, GTS er talinn vera einn al eftirsóttasti 928 í heiminum í dag.
Þessi bíll kostaði 80.920 dollara nýr í USA 1992.

Síðasti 928…..
Það er ekki á hreinu á þeim síðum sem ég er oft gestur á hvenær síðast 928 bíllinn hafi verið seldur, ein þrálátasta sagan er sú að bandaríkjamaður hafi pantað síðasta 928 bílinn frá Porsche 1997, og viljað að sá bíll yrði sá síðasta sem framleiddur yrði, en það er regla hjá Porsche að síðasti bíll í hverri línu sem þeir framleiða fari á Porsche safnið í Stuttgart, og eftir að bandaríkjamaðurinn áttaði sig á því að hans bíll yrði ekki sá síðast hafi hann afpantað hann, en sagan er að bíllinn hafi samt verið sendur til Bandaríkjana og verið seldur þar í júní 1997.

Það er einnig uppi orðrómur um að Porsche ætli að endurvekja 928 bílinn, hann mun þá væntanlega ekki heita 928 því honum mun sennilega verða gefið nýtt “project” númer, sumir telja að jeppinn sem Porsche sé að hanna sé mikið til byggður á 928 hönnuninni, en það á eftir að koma í ljós.

Ég á sjálfur einn 928s 1986,5, og ég verð að segja að þetta er einn alskemmtilegasti bíll sem ég hef ekið, hann er sosum ekki sá sneggsti upp en þegar hann er kominn af stað þá er togið í V8 endalaust, bíllinn liggur eins og klessa og að keyra þennan bíl er eins og að keyra lúxusgerð af Bens, þægindin og lúxusinn eru eins og best verður á kosið.