Hvað gengur umferðarráði til? Stundum veltir maður fyrir sér hvað Umferðarráði gengur til í því sem þeir vilja kalla málefnalega umræðu um umferðaröryggi.
Það er ótrúlegt að heyra gegndarlausan áróður fyrir því að fólk aki um á nagladekkjum öryggisins vegna. Gott og vel, en að saka þá sem ekki aka á nagladekkjum um að kæra sig kollótta um mannslíf…það er beinlínis fáránlegt og í rauninni er auðveldara að snúa þessari ásökun upp á umferaðrráð.
Gefum okkur að nagladekk séu öruggasti kosturinn ALLTAF við ALLAR aðstæður. Hvað er að gerast þá, jú Umferðarráð er að tryggja öryggi vegfarenda sem vegfarenda en um leið að valda stórkostlegum umhverfisspjöllum og ýta undir stærsta vaxandi heilsufarsvandamál nútíma samfélags sem kostar fleiri lífið á hverju ári heldur öll umferðarslys, ég er að tala um loftmengun.
Hve margir Reykvíkingar þjást af astma og kverkaskít og drepast svo úr lungna og hjartasjúkdómum vegna rykmengunar sem er tilkominn vegna nagladekkja notkunnar?
Ég heyrði á RÁS 2 í gær umræðu Sigurðar atvinnubílstjóra og Sigurðar hjá umferðarráði og var það mjög fróðlegt. Umferðarráð hvatti alla til að vera á nagladekkjum, en fagnaði jafnframt þeim sem að nýta sér aðra kosti og telja sig ekki þurfa nagladekk. Hvað er eiginlega verið að segja? Er ekki verið að segja að þeir sem að aka á nagladekkjum séu í raun þeir sem að þekkja ekki annað, hafa minni reynslu og telja sig þurfa þetta öryggi sem naglarnir veita. þetta eru með öðrum orðum þeir bílstjórar sem að eru hvað lélegastir og treysta sér ekki til að aka eftir aðstæðum og halda að þeir geti “breytt” aðstæðunum með því að aka á nagladekkjum.
Allir sem ég þekki og hafa einhvern tímann prófað hvorutveggja, nelgt og ónelgt, halda sig orðið við ónelgd vegna þess að þeir hafa komist að því að fenginni reynslu að það skiptir engu máli hvort þú ert á nelgdu eða ekki, sama hvernig færið er. Það sem skiptir máli er að vera á góðum HREINUM dekkjum og aka svo eins og siðaður maður. Það skiptir engu máli hvort maður ekur úti á landi eða ekki, það gilda sömu reglur um grip og stöðvunarvegalengd. Það skiptir hinsvegar orðið máli í höfuðborginni að aka ekki á nöglum einmitt vegna þess að naglar hafa mun lengri hemlunarvegalengd en góð vetrardekk á auðu þurru malbiki eins og oftast er í borginni. En umferðarráð spáir ekkert í þetta. Heldur rígheldur umferðarráð í sitt eina hálmstrá sem eru einhverjar fúlar sænskar kannanir sem þeir fara eftir í einu og öllu.
Það er komin tími til að menn prófi eitthvað annað. Þegar það er hálka úti þá keyrir maður varlega, þegar fólk er á nöglum þá keyrir það síður eftir aðstæðum, það telur sig vera öruggara en er það ekki.
Ég heyrði einhvern tíma gatnamálastjóra útlista það að hlutfall bíla á nagladekkjum væri meira í árekstrum á höfuðborgarsvæðinu, hvar er þá allt þetta öryggi sem fók telur sig njóta á nöglum?

Þegar ég tók bílpróf og fór í ökutíma um hávetur (febrúar) þá lærði ég á bíl sem var á ónegldum dekkjum. Þá lærði maður að haga akstri eftir aðstæðum. Vinir mínir flestir lærðu á bíl á nöglum og þeir klesstu allir á áður en veturinn var úti, ég hef ekki ennþá lent í árekstri og aldrei lent í vandræðum að vetrarlagi þó svo að ég hafi alltaf verið á ónelgdum vetrardekkjum utan tvö skipti af 12. Ég þakka það góðum ökukennara og því að ég hef aldrei ekið á nelgdum dekkjum og kann að haga akstri eftir aðstæðum.

Umferðarráð ætti að hugsa meira um velferð þjóðarinnar heldur en velferð bílanna, því þegar öllu er á botnin hvolft þá er umferðarráð að reyna að forðast smávægileg tjón á bílaflota landsmanna en kæra sig kollótta um langvarandi heilsutjón bíleigandanna.