Nýr Subaru SVX á leiðinni? Í apríl sl birti undirritaður hér fréttir af nýjum coupe bíl sem Subaru átti að vera að byrja að hanna. Bíllinn átti samkvæmt fréttum að byggja á undirvagni Subaru Impreza og bera nafni Subaru Pulsar. Nokkuð athyglisverðar fréttir þar sem Subaru hefur einungis sett á markað 2 coupe bíla ef coupe útgáfur Impreza og 1800 eru undanskildar.

Lítið sem ekkert hefur heyrst af þessum bíl síðan í apríl og voru flestir því búnir að afgreiða hann sem aprílgabb. En svipaður orðrómur tók sig aftur upp nú í byrjun september en þó með smávæginlegum breytingum og birti Auto Week ma. stutta grein um bílinn 22. september sl.

Þar segir að bíllinn verði sem fyrr byggður á breyttum undirvagni Subaru Impreza en útlitslega séð verði hann ekkert skyldur Impreza. Nafn bílsins mun vera Subaru SVX sem er sama nafn og Subaru notaði á seinasta Coupe bílinn sinn. Útlitslega var sá bíll hannaður í samstarfi Subaru og Giorgetto Giugiaro hjá ItalDesign en ekkert hefur heyrst um hvort Subaru hafi áhuga á að endurvekja það samstarf við hönnun á nýja bílnum. Samkvæmt Auto Week áætlar Subaru að bíllinn komi á markað árið 2003.

Ýmsar vélar verða í boði fyrir bílinn og má þar nefna 280 hö vélina úr Impreza STi, 220 hö vélina úr Impreza WRX og nýju 3000 cm3 6 strokka vélina sem er nýbúið að setja í Subaru Outback en hún skilar 212 hestöflum. Subaru SVX var á sínum tíma einungis fáanlegur með 6 strokka, 3300 cm3 vél sem skilaði 230 hö.

Samkvæmt heimildarmanni Auto Week ætlar Subaru að markaðsetja bílinn sem svar Japans við Audi TT með áherslu á vélarafl og handling. Annað athyglisvert atriði í sambandi við bílinn er sá orðrómur að Subaru hafi mikinn áhuga á að framleiða blæjuútgáfu af honum.