Nú þegar farið er að síga á seinni hluta WRC keppnistímabilisins í ár þá eru línur nokkuð farnar að skýrast í ökumannsmálum keppnisliðanna fyrir 2002. Þó eru enn nokkur sæti laus hjá flestum liðunum og bíða menn spenntir eftir að sjá hvaða bílum menn eins og Tommy Makinen, Richard Burns og Carloz Sainz muni aka á næsta ári því þeir verða allir samningslausir eftir þetta keppnistímabil.
Hér á eftir fer stutt umfjöllun um ökumannastöðu WRC liðanna fyrir næsta ár.


Peugeot:

Markus Grönholm er með samning fyrir keppnistímabilið 2002 og 2003.
Harri Rovanpera og Gilles Panizzi eru með lausan samning en það er talið næstum öruggt að þeir verði áfram hjá Peugeot. Ástæðan að baki því að ekki er búið að ganga frá samning við þá er sú að það er ekki komið á hreint hver verði ökumaður nr. 4 hjá Peugeot á næsta ári.
Didier Auriol kemur ekki til með að aka fyrir Peugeot á næsta ári.

Stóra spurningin, og í raun það sem allir eru að bíða eftir, er tilkynning um hver verði ökumaður nr. 4 hjá Peugeot. Sá sem er talin langlíklegastur til að taka við stöðu Auriol er Richard Burns núverandi aðalökumaður Subaru. Tommy Makinen hefur einnig verið orðaður við Peugeot en þar sem Peugeot er nú þegar með tvo finnska ökumenn þá er talið ólíklegt að þeir bæti þeim þriðja við.


Subaru:

Richard Burns er með lausan samning og alls ekki öruggt að hann verði hjá Subaru á næsta ári. Þetta hefur verið viðurkennd staðreynd síðan í júlí á þessu ári og síðan þá hefur því verið haldið fram að Burns sé búinn að skrifa undir samning við Peugeot. Því vöktu ummæli, sem áttu að vera höfð eftir David Lapworth hjá Subaru, mikla athygli í dag en hann á að hafa fullyrt að Burns sé samningsbundinn Subaru út næsta ár og hafi sá samningu verið handsalaður í lok árs 2000.

Petter Solberg er samningsbundinn Subaru á næsta ári og Markko Martin hefur fengið tilboð í hendurnar um að keppa í öllum WRC röllum næsta árs en hann hefur aðeins keppt í hluta þeirra í ár.
Toshi Arai verður líklegast áfram hjá Subaru og þá sem ökumaður nr. 4.


Ford:

Colin McRae er með samning við Ford út árið 2002.
Carloz Sainz er samningslaus en hann hefur lýst því yfir að hann vilji vera áfram hjá Ford. Líklegasta ástæðan fyrir því að ekki hefur enn verið gengið frá samningi við hann er sú að hann ætli sér að sjá til hvað Richard Burns og Tommy Makinen geri ef ske kynni að ökumannsstaða nr. 1 hjá Subaru eða Mitsubishi losni.
Francois Delecour verður mjög líklegast áfram hjá Ford.

Ef Carloz Sainz yfirgefur Ford er talið líklegast að Markko Martin hjá Subaru eða Freddy Loix hjá Mitsubishi taki sæti hans.


Mitsubishi:

Tommy Makinen verður samningslaus í lok keppnistímabilsins og hefur ekki enn skrifað undir nýjan samning en þó er talið líklegt að hann verði áfram hjá Mitsubishi. Það fer þó líklegast að miklu leyti eftir því hvernig honum líkar við nýja WRC bíl Mitsubishi. Makinen mun líklegast ekki skrifa undir nýjan samning við Mitsubishi fyrr en það er komið á hreint hvað Richard Burns gerir. Ekki það að hann ætli sér endilega að færa sig til Subaru, sem hefur þó verið nefnt sem einn mögulegur kostur í stöðunni, heldur er ástæðan sú að hann verður í mjög góðri samningsstöðu gagnvart Mitsubishi ef ökumannssæti nr. 1 hjá Subaru losnar. Hann ætti því að geta farið fram á góða launahækkun gegn því að vera áfram hjá Mitsubishi.

Freddy Loix mun líklega vera áfram hjá Mitsubishi.
Tony Gardemeister verður líklegast ökumaðurinn nr. 3 en þó hafa nöfn Thomas Radström og Bruno Thiry einnig verið nefnd í þessu sambandi.


Hyundai:

Líklegast er að ökumannsuppröðun Hyundai verði óbreytt á næsta ári en það er helst spurning um hvort Alister McRae verði áfram hjá liðinu.


Skoda:

Hér er allt óákveðið þar sem núverandi ökumenn Skoda eru allir samningslausir.
Skoda vill halda í Armin Schwarz en meiri óvissa er í kringum Bruno Thiry. Hvort hann sitji undir stýri á Skoda á næsta ári fer að miklu leyti eftir árangri hans í þeim þremur WRC röllum sem eftir eru á þessu keppnistímabili.
Roman Kresta verður hjá Skoda á næsta ári en mun líklegast aðeins taka þátt í 3-4 keppnum sem ökumaður nr. 3. En ef Bruno Thiry yfirgefur Skoda er næsta víst að Kresta taki við sem ökumaður nr. 2 og taki því þátt í öllum 14 keppnum næsta árs.


Citroen:

Hér er allt óákveðið. Citroenbílarnir hafa verið mjög góðir á malbiki í ár en ekki jafn sprækir á mölinni. Citroen er því á höttunum eftir góðum malarökumanni og hafa nöfn eins og Didier Auriol, Armin Schwarz og Francois Delecour verið nefnd í því sambandi.