Buick Bengal GM hefur lengi haft áhuga á því að hressa upp á Buick merkið sem er hluti af GM fjölskyldunni en menn innan GM hafa ekki verið á eitt sáttir hvernig fara ætti að því. Nú virðist lausnin vera fundin því nýjasti concept bíllinn frá Buick hefur vakið nokkra athygli. Bíllinn ber nafnið Buick Bengal og er einskonar framhald af Buick LaCrosse conceptinu sem var kynnt í fyrra.

Þetta er 2+2 roadster, sem verður búinn 3400 cm3 V6 vél með forþjöppu og á hún að skila bílnum 250 hestöflum. Vélin er þverstæð og er gírkassinn staðsettur fyrir framan hana og á það fyrirkomulag að tryggja mjög góða þyngdardreifingu. Einungis verður hægt að fá bílinn með sjálfskiptingu og framdrifi. Langt hjólhaf á að tryggja gott innanrými og eiga aftursætin að bjóða uppá pláss fyrir fullorðna manneskju sem er eitthvað sem er sjaldséð í blæjubílum. Athygli vekur að bíllinn er 3 dyra og opnast þriðja hurðin bílstjóramegin og gegnum hana koma menn sér fyrir í aftursætinu. Það eru sem sagt 2 hurðir bílstjóramegin á bílinum en aðeins ein farþegamegin. Nokkuð magnað!

Einn af yfirmönnum Buick, Roger W. Adams , segir bílinn vera hannaðan fyrir þarfir og smekk yngri bílakaupenda og sagði: Bengal is a car with beautiful proportions and advanced design and engineering. It’s a dramatic vehicle to drive – and to be seen in - and it doesn’t forget the family."

Framendi hans þykir mjög vel heppnaður með stóru og áberandi grilli og framljósum sem skiptast í 2 mjóar og ílangar rifur.

Ekki er einn einasti mælir í mælaborðinu og má því segja að það sé ekkert mælaborð. Í staðinn er öllum fídusum stýrt með raddstýrðu kerfi frá Visteon Corporation og er mælaborðið því orðið einn risa stór hljóðnemi sem tekur við skipunum frá ökumanni. Eini skjárinn í mælaborðinu er lítill tölvuskjár og geta menn valið hvaða mæla þeir vilja sjá á skjánum með raddskipun eða litlum stýripinna sem er innbyggður í stýrið.

Athygli vekur að stýrikerfið sem keyrir mælana sem birtast á skjánum er kerfi sem flestir kannast við og heitir Windows 98. Vonandi að sú útgáfa sem Buick notar í bílinn sé stöðugri en þau Windows kerfi sem menn nota í einkatölvur sínar. Eflaust margir sem myndu hugsa sig tvisvar um áður en þeir myndu stíga upp í bíl þar sem flestar skipanir væru keyrðar í gegnum Windows. Eflaust ekki skemmtilega reynsla að fá kunnugleg skilaboð út á miðri hraðbraut: This program has performed an illegal operation and will be shut down!

Buick Bengal er ætlað að keppa við Audi TT og Porsche Boxster og á að hafa þann kost umfram þessa keppinauta að bjóða upp á meira notagildi.