Nissan Z Fyrsti Z bíllinn var Datsun 240Z árgerð 1970 og var fyrst kynntur í USA í október 1969 í New York. Datsun áætlaði að selja um 1600 stk af 240Z á mánuði og stóðust þær áætlanir og gott betur því seinni parts árs 1971 var 240Z seldur í um 2000 eintökum á mánuði. Bíllinn var búinn 150 hö, 6 strokka línuvél sem gaf hröðun 0-100 km/klst á tæpum 8 sek og var hámarkshraði um 210 km/klst. Innréttingin í bílnum þótti skemmtileg þrátt fyrir að vera frekar mögur en þó alls ekki hrá og passaði vel við vínilklæddu körfustólana í bílnum.

Z þróaðist svo áfram á árunum 1970-1980 með tilkomu 260Z, 280Z og 280ZX. Tímabilið 1980-1990 var svo ákveðinn vendipunktur því að þá bættust í Z línuna bæði stærri og minna spennandi bílar að mati margra Z aðdáenda. Þetta voru 280ZX turbo, 300ZX og 300ZX turbo. Snemma á tíunda áratuginum voru 300ZX og 300ZX turbo endurhannaðir en þrátt fyrir það hélt sala á þeim að dala hratt í USA og árið 1996 var sala á þeim orðin svo dræm að framleiðslu þeirra var hætt.

Nissan hafði þó lítin áhuga á því leggja Z línunni fyrir fullt og allt og hófu menn þar á bæ því að hanna nýjan Z bíl. Það var svo ekki fyrr árið 1999 á Bílasýningunni í Detroit (1999 Detroit Auto Show) að nýr Z Concept var kynntur til sögunnar og átti hann að skera úr um hvort markaður væri fyrir nýja Z bíl í USA. Niðurstaðan var jákvæð fyrir Nissan en þó þótti bíllinn vera full mikið retro sem þýddi að mönnun fannst hann vera endurtekning á 240Z og svo var hann alltof kraftlítill enda aðeins boðinn með 2400 cm3, 4 strokka vél sem skilaði um 200 hö.

Nissan ákvað því að gera breytingar og hætti við endurgerð á 240Z og ákvað í staðinn að gera glænýjan Z sem átti alls ekki að vera endurgerð á eldri Z. Hönnunardeild Nissan lagðist því aftur yfir teikningarnar af Z og var bílnum breytt talsvert og var vélin einnig stækkuð með því að fjölga strokkum úr 4 í 6 og stækka slagrými uppí 3500 cm3.
Nýji bíllinn var svo kynntur árið 2001 á NAIAS Bílasýningunni ( 2001 North American International Auto Show) með eftirfarandi orðum af Nissan North America:
“We didn't want to make a copy of the 240Z. We wanted to create a new Z, a new spirit and a new heritage.”

Útlit og efnisval nýja bílsins var framúrstefnulegt og mjög í anda klassískra Concept bíla. Í 2001 Concept bílnum má helst nefna sem þótti framúrstefnulegt og var einnig breyting frá Concept 1999:
Léttmálmar voru mikið notaðir í innréttingu
Bakkljós komu mjög neðarlega á afturenda
2 púströr komu neðan úr bílnum að aftan fyrir miðju
Æði sérstakir og útstæðir hurðahúnar
Brembo bremskerfi
Innbyggð stefnuljós í hliðarspeglum sem voru nú orðnir kassalaga og mun minni en á 1999 Concept bílnum andstætt við ristina á framstuðara sem einnig var orðin kassalaga en mun stærri
Húddið hafði einnig breyst og var það tekið örlítið upp í miðjunni
Nissan merkið fremst á húddinu var orðið mun meira áberandi
Z merkinu var svo skellt fyrir aftan hjólaskálarnar á frambrettunum en hjólaskálarnar að framan að aftan voru nú mun útvíðari en á 1999 Concept
Ekki má gleyma að minnast á framljósin en æði mörgum þótti þau vera skrúfuð beint úr nýjustu gerð Toyota Celica og mætti því halda að Toyota væri orðin aðal framljósahönnuðurinn í Japan þessa dagana ef marka má þetta og umræðu um framljós Subaru Impreza WRX

En eins og menn þekkja með Concept bíla þá er spurningin alltaf: Hversu mikið af flottheitunum og nýjungunum munu enda í framleiðsluútgáfunni?

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Nissan munu eftirfarandi breytingar vera gerðar á milli 2001 Concept og framleiðsluútgáfunnar:
Framgrillið verður minnkað og gert meira straumlínulagað
Hjólaskálar verða minnkaðar og verða svipaðar og á 1999 Concept og er TT lookið því eiginlega horfið
17“ felgur verða staðalbúnaður en 18” felgur verður optional
Hliðarspeglar munu ekki standa eins mikið út í loftið og stefnuljósið í þeim verður fjarlægt
Dyrahúnarnir verða ekki eins útstæðir en þeir hafa verið talsvert mikið umdeildir
Púströrin 2 munu ekki koma út fyrir miðju bílsins að aftan. Rörin verða þó áfram 2 og munu koma út vinstra eða hægra megin aftan úr bílnum
Bakkljósin verða hífð ofar á bílinn og líklega alveg upp að bremsuljósunum
Stærstur hluti léttmálmshlutanna í innréttingu verður skipt út fyrir hluti úr hefðbundnara efni en hinsvegar verður pedalasettið úr áli með racing looki
Nissanmerkið á húddinu er enn áberandi en hefur meira verið fellt inn í húddið
Útlit framljósa er óbreytt en uppröðun á linsum innan í þeim hefur breyst

Áætlað er að Nissan Z komi á markað uppúr miðju ári 2002 og á hann að vera á mjög samkeppnishæfu verði enda sagði stjórnarformaður Nissan North America eftirfarandi við kynningu á bílnum árið 2001:

“The Nissan Z will have Z DNA. That means it must be, and will be, affordably priced”.