Endurnýjun TVR á línu sinni af sportbílum heldur áfram með tilkomu TVR Tamora. Þessi nýjasta viðbót við TVR fjölskylduna á að vera “mýkri og aðgengilegri” bíll en TVR Tuscan, enda ódýrari. Þar sem Tuscan virðist vera að taka við af Griffith gerðinni, sem bráðum verður hætt að framleiða, tel ég líklegt að Chimera fái að víkja fyrir Tamora og er það vel að mínu mati. Tamora er blæjubíll líkt og Chimera en byggir á Tuscan enda með sama hjólhaf þó styttri sé.

Með Tamora sést berlega sá metnaður sem TVR hefur í dag. Þeir virðast staðráðnir í að keppa jafnvel við ofurbílaframleiðendur en með bílum sem eru á líku verði og t.d. Porsche Boxster eða 911. Það sem mér finnst mikilvægast er sú staðreynd að þeir vilja bjóða upp á bíla sem eru hrein tryllitæki en jafnframt gerðir sem séu mjög nothæfar og jafnvel auðveldar í umgengni. S útgáfan af Tuscan mun skáka mörgum ofurbílnum en Tamora sem verður í raun grunngerð TVR á líka eftir að hrella bíla sem bera stór nöfn. Hröðunin er, eins og við má af TVR búast, gífurleg og myndi ekki einu sinni Porsche 911 GT3 halda í við Tamora í beinni línu. Það er heldur ekki við öðru að búast frá bíl sem vegur ekki nema 1.050kg en hefur 350 hestafla rokk undir húddinu. Til viðmiðunar er þyngdin á Tamora sambærileg við marga smásportara og er hann u.þ.b. jafn þungur og Mazda MX-5 til dæmis.

Hjarta Tamora er nýja útfærslan af Speed Six línuvélinni sem hefur 3,6l rúmtak á móti 4,0l eins og vélin hefur í t.d. Tuscan. Slaglengdin minnkar mikið við þetta sem gerir vélina mun togminni (290lb/ft) en snúningsglaðari. Þess vegna er TVR kleyft að nota mun léttari kúplingu í Tamora en þeir hafa t.d. í Tuscan. Bíllinn verður einnig auðveldari í meðförum enda afturdrifnir bílar með vél sem skilar miklu togi við lágan snúning ekki þeir byrjendavænustu. Þessi vél skilar bílnum úr 0-60 mph á 4.5 sekúndum að sögn TVR.

Eitt sem sérstaklega vekur athygli mína eru felgurnar á Tamora. Staðalbúnaður verða 16“ felgur sem gleður mig óspart m.v. þá risa hlemma sem eru viðteknir undir flestum sporturum í dag. Á þessum felgum verða tiltölulega prófílhá dekk (225/50) sem enn og aftur hjálpar til við að gera bílinn auðveldari í meðförum ásamt því væntanlega að auka þýðleika. Þetta virðist hafa lukkast vel því að hjá evo Magazine sem fékk fyrst að prófa Tamora vilja menn meina að þetta sé besti bíll TVR hingað til hvað varðar aksturseiginleika.

Það er náttúrulega ekki hægt að kynna nýjan TVR án þess að velta útlitinu fyrir sér. Ég reyndi mikið að finna mynd af Tamora eins og hann mun líta út í framleiðslu en fann ekkert á netinu í réttri stærð. Ég læt því nægja að vísa á tvö netföng hér að neðan. Það væri líka ekki nóg að sjá bara eina mynd því útlitið er nokkuð sláandi fyrst, þó ekki jafn sláandi og þegar maður sá Tuscan í fyrsta skipti. Ég er á mörkunum með að kalla Tamora retró en það væri varla rétt. Ólíkt flestum bílum sem eru retró eru línurnar klassískar í Tamora en smáatriðin framúrstefnuleg. Í fyrsta skipti sést vindskeið á TVR í formi lítils spoilers á skottlokinu og hefur það eitt og sér gert suma TVR aðdáendur sára. Þeir sem hafa séð bílinn í alvöru hafa þó flestir verið hrifnir eins og ég er orðinn núna þótt að við fyrstu sýn hafi ég verið fullur efa.

Á endanum er Tamora samt sportbíll sem lítur út fyrir að vera alvöru græja en ekki svona ”poser“ eða ”wannabe" tæki. Hann státar af afköstum og aksturseiginleikum sem fáir bílar geta boðið upp á ásamt því að hafa öll helstu þægindi, sérstaklega eitthvað sem er allt of sjaldgæft í svona bílum: nothæfa farangursgeymslu. Enn og aftur þrjóskast samt TVR við að bjóða upp á ABS eða önnur slík tól. Nánasta samkeppni myndi koma frá t.d. Porsche Boxster S sem er dýrari og ekki nærri jafn öflugur. Ég veit að sæti Boxster S á mínum draumalista stendur mikil ógn af TVR Tamora…

Tenglar á myndir af TVR Tamora:

http://www.tvr-eng.co.uk/contents1.html
http://www.pistonheads.com/tvr/Tamora/Default.htm


Heimildir: evo Magazine, 32. tbl. júní 2001