Eru vetrardekk nauðsynleg? Eins og flestir hafa orðið varir við, mismikið eftir landshlutum þó, þá hefur vetur konungur minnt hressilega á sig. Fyrir okkur bílamenn þá þíðir það að við verðum að fara að búa okkur undir flest veður. Í fyrra endurskrifaði ég grein sem ég hafði sent inn á jeppar og sendi hér inn (http://www.hugi.is/bilar/articles.php?page=view&contentId=1343195) en þar er fjallað um það helsta sem mér finnst að bílamenn þurfi að huga að fyrir veturinn. Nú ætla ég hinsvegar að minna á vetrardekkin.

Við sem búum á suðvesturhorni landsins höfum ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af vetrahörkum undanfarin ár. Það hafa komið einstaka áhlaup en mestan part vetrar hafa götur verið svo gott sem auðar. Margir hafa orðið kærulausir og setja ekki vetrardekk undir sína bíla. Það er allt í lagi ef menn ætla ekki að keyra þegar aðstæður er kalla á vetrardekk myndast en er vítavert ef menn hafa ekki vit á því að sitja heima þegar aðstæður eru slæmar.

Ég þekki menn sem hafa ekki sett vetrardekk undir í nokkur ár. Einn þeirra er skynsamur og tekur leigubíl ef vetrardekkjaveður er. Aðrir eru ekki eins skynsamir og ana á illa búnum bílum út í hvers kyns veður.

Á milli jóla og nýárs á síðasta ári fengum við að kynnast verulegum snjó. Þegar ég kom úr vinnunni einn daginn þá var planið jeppafært og allstaðar var fólk að kalla eftir aðstoð (jeppamenn fá ekki frið þegar svo stendur á). Ég var á hraðferð að hjálpa ættingjum og gat því ekki hjálpað öllum þessum tugum sem voru fastir en hjálpaði samt nokkrum (og fékk illt auga frá hinum). Á leið minni varð ég var við allskonar bíla á allskonar dekkjum.

Meðal annars var fólksbíll á low profile sumardekkjum fastur á Miklubrautinni (enginn snjór, aðeins hálka). Þessi ökumaður hefði átt að hafa vit á því að skilja bílinn eftir. Það að hann fór af stað setti hann og aðra í verulega hættu fyrir utan að tekja för hundruða (ef ekki þúsunda) borgarbúa. Flestir virtust þó vera vel búnir og kunna að aka í snjó en fáir illa búnir skemmdu fyrir fjöldanum.

Ég hvet sem flesta að fjárfesta í góðum vetrardekkjum (af hvaða tegund eða gerð sem mönnum hentar), en ef menn gera það ekki þá bið ég þá um að skilja bílinn eftir heima þegar aðstæður versna.

JHG