Mazda gengur af göflunum (aftur...) Nú ætlar Mazda að hressa upp á flotann en áður en þið fáið að heyra hvaða góðgæti verður í boði langar mig til að troða á ykkur smá Mazda-sagnfræði…

Mazda er að mestu þekkt sem framleiðandi traustra en óspennandi fjölskyldubíla. Samt hefur Mazda reglulega tekist að búa til bíla sem eru annaðhvort eða bæði skrýtnir og spennandi. Til að byrja með er Mazda fyrsti bílaframleiðandinn sem býður til sölu bíl með Wankel (rotary) mótor. Í sem skemmstu máli notar Wankel mótor ekki bullur/stimpla til að knýja sveifarás heldur sk. “rotors”. Sprengirýmið er hringlaga (a.m.k. gróflega) og rótorinn snýst inni í því um láréttan ás sem gerir Wankel mótora ákaflega þýðgenga. Wankel mótorar hinsvegar drekka bensín og þar sem Mazda hafa verið einir um langtíma þróun á þeim hefur endingu líka verið nokkuð ábótavant. Fyrsti bíllin með Wankel vél var Mazda Cosmo árg. 1967. Cosmo var ekki bara sérstakur sakir vélarinnar heldur var bíllin stórmerkilegur í útliti og þeir bílar sem eftir eru eru mjög eftirsóttir. Frægustu Wankel bílarnir voru RX-7 serían en 1. og 3. kynslóð af þeim eru með merkari sportbílum frá Japan. 1989 enduruppgötvaði Mazda “ódýra-roadsterinn” með MX-5 og tók það þó nokkurn tíma fyrir aðra framleiðindur að saxa á forskot Mazda á því sviði. Mazda MX-5 var bíllinn sem bjargaði Mazda frá gjaldþroti enda fór fólk nú að leggja leið sína í Mazda-umboðin. Um líkt leyti kemur 3. kynslóð RX-7 sem enn er í framleiðslu en þó aðeins á Japans (eða Kyrrahafs?) markaði. Um það leyti sem MX-5 kemur fram eignast Ford þriðjung í Mazda og fer nú með stjórn fyrirtækisins. Ford hefur einnig á sinni könnu (fyrir utan Lincoln og Mercury) Volvo, Jaguar, Aston Martin og Land Rover. Ford hefur gert stórkostlega hluti fyrir öll þessi merki nema kannski Land Rover sem bættist mjög nýlega í þeirra eigu. Nú virðist röðin komin að Mazda.

Fyrir utan MX-5 og RX-7 hafa bíladellumenn haft lítið að skoða hjá Mazda. Nú á að laga það og Ford hefur ákveðið að Wankel vélin sé svo mikilvægur þáttur í sögu Mazda að halda skuli áfram þróun hennar og notkun. Í Mazda RX-7 er 1,3l tveggja rótora vélin orðin ca. 280 hö og næst það með tveimur túrbínum. RX-7 var hönnuð með þeirri hugsjón að nota sem minnst framandi efni en halda niðri þyngdinni samt eins mikið og hægt væri. Þar sem RX-7 er ekki nema ca. 1250 kg má segja að það hafi tekist mjög vel og nægir að bera hana saman við bíla eins og Chevy Corvette (plast yfirbygging), Honda NSX (ál), og Porsche 911 (hefðbundið stál). Það að mótorinn er lítill og léttur hálpar bæði við að halda niðri þyngd og passa upp á fullkomna 50/50 þyngdardreifingu. Nú höfum við eitthvað til samanburðar við það sem litlu gulu kallarnir í hvítu sloppunum hjá Mazda luma á…

Mazda RX-8 er unnin upp úr RX-EVOLV hugmyndabílnum. Hugmyndin er sú að búa til alvöru sportbíl sem bíður þó upp á fjögur sæti með góðu aðgengi. Svona 4-dyra coupe… Vélin verður um 250 hö og að sjálfsöfðu 2-rótora Wankel en nú án túrbínu! Greinilegt að einhverjir hafa verið uppteknir. Þessi 250 hö nást við 8500rpm en tog er ekki nema 153 lb/ft við himinhá 7500rpm! Tog virðist ekki vera sterka hliðin á Wankel. Eldsneytiseyðsla á að vera bætt um 40% í hægagangi og vélin er 30% léttari en RX-7 mótorinn. Í þetta skipti á að nota “exotic” efni í byggingu bílsins og verður drifskaptið (RX-8 er auðvitað afturdrifinn!) úr koltrefjum, húdd úr áli og fram bretti úr plasti. Þyngdin ætti að vera um 1250kg og þyngdardreifing 50/50. Það má því örugglega búast við 0-100km tíma í kringum 6 sek. Fjöðrun verður eins og í frændunum double-wishbone allan hringinn og sex gíra beinskiptingin verður með “paddle-shift” ala Ferrari F1.

En það er meira. Útlitið verður ólíkt nokkru öðru enda verður ekki hurðapóstur á milli hurða, en afturhurðirnar opnast aftur en ekki fram. Innréttingarnar verða róttækar í útliti þó ég vona að það verði minna af pólerurðu áli þegar hann fer í framleiðslu. Giskað hefur verið að verðið í Bretlandi verði um 25.000 pund sem gerir RX-8 vænlegan kost fyrir þá sem hefðu kannski skoðað t.d. BMW 325/330. Kannski er draumabíllin sem ég hef verið að leita að þarna kominn…? Að mínu mati er Mazda að koma úr eyðimörkinni… Aftur.

En góðu fréttirnar halda áfram. Sögusagnir segja að það sé of dýrt að hanna og koma í framleiðslu þessum nýja Wankel mótor til að setja hann bara í RX-8. Þess vegna eru líkur leiddar að því að fleiri bílar muni koma með honum. Mazda hefur að ég held lofað nýjum RX-7, þá 4. kynslóð og verður gaman að sjá þann bíl (ef RX-8 er 250 hö án túrbínu…). Svo segja sögusagnir að MX-5/Miata/Eunos Roadster fái þennan mótor, státi þá af 250hö og nafninu RX-5. Ef rétt væri staðið að yrði sá bíll mjög spennandi, þó ég teldi að andlitslyftingar sé þörf til að keppa við dýrari blæjubíla. Gleymum ekki að með 250hö myndi RX-5 getað skákað Boxster S á góðum degi. Nú er ég ekki spenntur, nú er ég óður!

Til að skrifa þessa grein studdist ég helst við evo Magazine og The Encyclopedia of Classic Cars ásamt því að hafa skoðað Car Magazine og 4car.co.uk lauslega.

Ef ykkur líst vel á Mazda RX-8 farið þá á www.mazdausa.com og skoðið myndir og heyrið hljóðin. Ég get vottað að hljóðin draga þennan bíl ekki niður!