Japönsk fegurð? Ég var að velta fyrir mér útliti japanskra bíla og þar sem ég er svona týpa sem þarf að gera lista yfir allan andskotann ákvað ég að setja saman í huganum minn eigin topp lista yfir fallegustu japönsku bílana. Ég náði að raka saman Topp 5 lista og þar með fannst mér eiginlega ekki um auðugan garð að gresja. Svo fór ég að pæla í þessum topp lista og komst að áhugaverðri niðurstöðu… Hér er listinn, hvað ætli sé svona merkilegt? (listinn er í engri sérstakri röð)

1. Datsun 240Z
2. Honda CRX
3. Subaru SVX
4. Mazda RX-7 (3. kynslóð)
5. Mazda MX-5 (Miata/Eunos Roadster 1. kynslóð)

Getur einhver bent á bílinn sem var hannaður í Japan? Ég er alls ekki nógu sérfróður til að dæma hér en þetta veit ég: Mazda sportararnir held ég að báðir hafi verið hannaðir í Kaliforníustúdíói Mazda. Skrítið m.v. almenna útlitshönnun á bandarískum bílum… Ég er ekki 100% viss með RX-7 en MX-5 kemur þaðan og ekki fyrr en eftir ferð Mazda-manna til Bretlands. Mazda keypti meira að segja Lotus Elan til að skoða og prototype af MX-5 var byggð eins og Elan!

Datsun byggði mikið á hönnunarvinnu Goertz sem hannaði BMW 507 þegar 240Z var hannaður. Nógu mikið til að Goertz fór í mál og var það útkljáð utan réttarsalar. Merkilegt nokk en mér finnst 240Z flottari en BMW 507. Samt örugglega ekki margir sem eru sammála mér í því.

Hvað Honda CRX varðar hafa alltaf verið sögusagnir í gangi um að Pininfarina hafi hannað CRX. Ekki væri ég hissa því þótt CRX hafi öll svipbrigði Honda þá er hann óneitanlega glæsilegur og heildarstíllinn minnir á ítalska hönnunarhúsið.

Subaru SVX er svo spurningamerkið. Ég veit ekki betur en Subaru hafi sjálfir hannað hann og væri það frábært mál. En ætli Bertone eða Giugario hafi kannski hjálpað til? Nú gæti ég þegið hjálp.

Þetta er eiginlega pínulítið sorglegt þegar maður hugsar út í það…