Venturi Atlantique 300 Það verður að segjast að það var erfitt að smala upplýsingum í þessa grein. Nær allt sem ég veit um þennan bíl kemur upprunalega úr 4. tbl. evo þar sem bíllinn er prufukeyrður. Allar vefsíður um þennan bíl virðast vera á frönsku! Greinin er því eftir mig en ég sæki heimildir í evo. Það sem birtist á eftir er mín skoðun á bílnum (nema annað sé tekið fram) en ekki eitthvað copy/paste dæmi.

Efir að HelgiPalli fór að minnast á Venturi Atlantique 300 dró ég fram evo og fór að lesa. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá myndirnar var Ferrari F355, ekki leiðum að líkjast. Núna samt finnst mér “flying buttress” lookið á honum ekkert frekar stolið en nokkuð annað. Þar næst datt mér í hug Lotus Esprit. Merkilegt, en margir hugsa um Venturi sem franskan Lotus þó samlíkingin sé varla sú besta. Nú hinsvegar verður mér hugsað um Noble M12 GTO (bíll sem er í raun efni í aðra grein!).

Þó þessir bílar séu í hönnun um margt líkir eru þeir það ekki á heildina litið við granskoðun. Atlantique 300 notast eins og M12 við V6 frá stórum bílaframleiðenda og er í báðum bílunum bætt við tveimur túrbínum. M12 fær Ford Duratec 2.5l V6 en Atlantique Peugeot 3.0l V6. Merkilegt nokk þá er vélin langsælis að mér sýnist í Atlantique, ólíkt M12. Báðir eru með yfirbyggingu úr plasti og vekur víst athygli hve góður frágangur er hjá Venturi, varla er hægt að sjá að bíllinn sé ekki úr stáli.

Venturi bílaframleiðandinn hét áður MVS og tóku þeir nokkurn þátt í mótorsporti. Venturi sendi 400GT bílinn til Le Mans með þokkalegum árangri. Ég hef það ekki staðfest en það gæti verið að Venturi hafi lokað, þá mögulega 1999, en eins og ég sagði átti ég erfitt með að finna heimildir.

Ekki er nóg með að Atlantique sé glæsilegur bíll (þessi mynd er ekki góð!) heldur er hann nokkuð praktískur. Hann hefur farangursgeymslu fyrir aftan vél rétt eins og Honda NSX og einnig geymslu frammí. Að frönskum sið er bíllinn búinn aksturseiginleikum sem samræma sportlegheit og þægindi sem einnig gerir hann mjög snöggan og auðveldan á vegum sem stífari bílar gætu átt erfitt með. (fyrir ykkur GT freak getiði bara hugsað um Trial Mountain)

Þó 1400kg sé ekkert sérstaklega létt fyrir bíl í þessum flokki (ath. plastyfirbygging!) þá á Atlantique varla við offitu vanda að stríða og með 310hp frá Twin Turbo V6 ættu afköstin að vera í það minnsta samkeppnishæf. 4.9 í 100 og ca. 274 km/h hámarkshraði er ekkert til að hlæja að, þarna er á ferð bíll sem vill ólmur komast í flokk ofurbíla. Með þetta útlit ásamt prýðis þægindum er synd að þessi bíll hafi ekki náð árangri í samkeppni í þessum þó erfiða geira. Aðrir bílar á líku verðbili eru t.d. Porsche 911, Jaguar XKR, Lotus Esprit V8 og Maserati 3500GT. Allt verðugir andstæðingar en Atlantique 300 hefði samt átt að gera það gott þarna að mínu mati. Bölvað nafnasnobb…

Hver var svo dómur evo Magazine? Þeir fundu aðeins einn galla í prófunum sínum og það voru bremsurnar sem þeim þóttu í alla staði lakar. Stórt atriði vissulega en ætti ekki að vera erfitt að bæta úr því. Allt annað þótti vera frábært. Aksturseiginleikar báru vott um að hér væri frábærlega hannaður og smíðaður bíll. Aflstýrið jafnaðist á við það besta sem þeir höfðu prófað með frábæra næmni og tilfinningu sem venjulega finnst bara í bílum án hjálparátaks í stýri. Vélin þótti fáguð og þægileg í akstri og aflið jafnmikið og maður mun nokkurntímann þarfnast. Jafnvel smíðisvöndun kom á óvart. Fyrir mitt leiti er synd að þessi bíll hafi ekki fengið meiri athygli.

Þess er gaman að geta að þegar ég flétti svo áfram í blaðinu rakst ég á annan 6-strokka bíl sem langar mikið í flokk ofurbíla. Þar var á ferðinni reynsluakstur á TVR Cerbera Speed-Six og fyrir rúml. 2/3 af verði Atlantique 300 má telja að valið gæti orðið Venturi í óhag. Þeir sem ekki þekkja Cerbera Speed-Six þá er þetta 2+2 coupe með skásettri 6 strokka línuvél upp á 4 lítra sem skilar 350 hestöflum í bíl sem er um 1100kg! Merkilegt nokk fékk TVR 5 stjörnur en Venturi virðist aðeins hafa náð 4. eins og sagði er þetta erfiður geiri. Valkostir, valkostir, valkostir!