Mælistika á getu Við erum víst endalaust að velta okkur upp úr hvað þessi eða hinn bíllinn getur. Það eru tvær viðmiðanir sem (of?) margir nota: annarsvegar 0-100km/h tíminn og hinsvegar hámarkshraði, tala sem í mörgum tilfellum skiptir nákvæmlega engu máli.

Eins og einhverjir hafa tekið eftir er evo uppáhalds bílablaðið mitt og í mars blaðinu komu þeir með kerfi sem á að vera handhæg mælieining á getu bíla sem þeir prófa. Kerfið er reyndar, að ég held, það nákvæmlega sama og Performance Car notaði á sínum tíma en evo reis í raun uppúr öskustónum sem eftir voru þegar Car yfirtók Performance Car og drap það svo hljóðlega. Performance Car kallaði þetta TPR en í evo heitir þetta nátúrulega EPR eða evo Performance Rating.

EPR er kannski ekki fullkomið (þótt evo menn séu réttilega stoltir) en gefur áhugaverða mynd af getu bíls og eina tölu sem þægilegt er að nota til samanburðar.

Prófin sem evo notar eru eftirfarandi: 0-100-0 mph (allar tölur enskar þ.e. MPH, fet, o.s.fr.), TED eða Time Exposed to Danger sem er framúraksturspróf, svig eða á ensku slalom, og vegrip(?) eða lateral G. Reyndar reyna þeir líka að fara með bílana á bæði blauta og þurra braut en þær prófanir koma ekki inn í EPR.

0-100-0 prófið er einfalt. Hámarkshröðun upp í 100 mph (rétt rúmlega 160 km/klst) og snarhemlað niður í kyrrstöðu aftur. 100% árangur telst vera 13 sek. en þetta kann að vera einn galli í EPR að 100% árangur markast við fyrirfram ákveðna stærð.

TED er prófun á hve snöggur bíll er að taka framúr tengivagnstrukk sem er að keyra á 45 mph (fer það ekki í taugarnar á okkur…) eða u.þ.b. 72 km/h. 100% árangur úr TED er 3.5 sekúndur.

Svigið er samansett úr átta keilum á 75 fetum. Því sneggri því betra! Tíma jafngildandi 100% árangri fann ég ekki í greininni…

Veggrip er prófað með að keyra hring með 150 feta radíus eins hratt og auðið er. Besti árangur telst 1G og nú eiga einhverjir eftir að nöldra!

Eftirfarandi bílar voru svo teknir fyrir þegar EPR var “prufukeyrt” og birtast þeir hér ásamt árangrinum.

Caterham R500 88,1%
Porsche 911 Turbo 82,2%
Mitsubishi Evo VI [Makinen] 75,1%
Lotus Elise 74,5%
Maserati 3200GT 74,1%
HSV Holden GTS-R 72,0% (Stór ástralskur V8 sedan!)
RenaultSport Clio V6 70,4%
Renault Sport Clio 172 69,6
Subaru Impreza WRX [nýi] 66,9%
Toyota Celica 190 67,2%
Peugeot 306 GTI-6 65,7%
BMW X5 [4,4l - Já, jeppinn!] 60,4%
Ford Puma [1,7] 60,3%
VW Lupo GTI 57,6%

Það er margt spennandi í þessum niðurstöðum. Efstu tvö sæti koma ekki á óvart nema kannski bilið þar á milli. Ó Caterham! Elise brillerar með því að glefsa í hælana á Evo VI og toppa Maserinn. Holden er alltaf eins og skrattinn úr sauðaleggnum og þykist vera BMW M5. V6 Clio rétt skríður yfir miklu ódýrari og kraftminni Clio 172 á meðan sá síðarnefndi hreint flengir bæði Impreza WRX og Celica 190 örugglega. Vonbrigðin mín er minn fv. uppáhalds GTi bíll, 306 GTI-6 virðist ætla að eldast illa og á t.d. ekkert í Clio 172 í þessu testi mér að óvörum. Ég er náttúrulega heldur ekki sáttur að BMW X5 - einhver andsk… jeppi - skuli, þó rétt svo, skríða yfir Ford Puma sem fékk þó lof enn og aftur fyrir frábæra aksturseiginleika. Ef hreinn stíll hefði komið hér inn hefði hann örugglega skriðið upp á við.

Fyrir mitt leiti er sigurvegarinn í þessu Renault Sport Clio 172. Ekki bara praktískur heldur augljóslega mikill bíll fyrir krónuna. Hann hefur a.m.k. gjörsigrað mig og er kominn á topp listann hja mér.