Topp 12 á undir milljón Ég fór að spá um daginn hverjir væru eiginlega skemmtilegustu bílarnir sem maður gæti fengið fyrir innan við millu t.d. ef maður væri að kaupa íbúð eða eitthvað með milljón til bílakaupa. Þá datt mér í hug smá listi sem líklega ekki allir eru sammála en inniheldur samt allt bíla sem flestir væru a.m.k. til í að prófa ef þeir hafa ekki gert það áður. Listinn var í engri sérstakri röð en þó aðeins 12 bílar þar sem praktík og bilanatíðni er hugsað sem eitthvað ofan á brauð.

Porsche 944. Maður fengi líklega ekki merkilegan turbobíl en alveg örugglega góðan S2 á undir milljón frá Þýskalandi. Pottþétt einn skemmtilegasti akstursbíll á þessu verði og þótt dýrar væri leitað. Fínt afl, vandaðir bílar, frábært handling og svo eru þeir ofan á allt annað líka svo andskoti svalir.

BMW E30 M3. Ætti að vera hægt að koma ágætisbíl hingað inn á þessu verði en ef það reynist erfitt má leita að litla bróður, 320is. Þetta eru bílar sem á sínum tíma stungu flest allt sambærilegt af á keppnisbrautum og gerðu það með mikilli reisn. Tímalaust \“racecar look\” og handling.

M.Benz E190 2.5. Það er lítið mál að koma fínum svona bíl inn á þessu verði og átt bara afgang fyrir slatta af varahlutum eða einhverju gáfulegu. Skemmilegir bílar með flott útlit og mikla praktík ef menn sækjast eftir því. Gaman að vera á \“Tyrkjabenz\” sem tekur nú marga spræka létt á ljósum…

BMW E28 M535. Eins og með E190 bílinn er hægt að finna svona bíl á vel undir millu og ef maður er heppinn gæti maður jafnvel krækt í E28 M5 replicu. Náttúrlega mikill sjarmi yfir þessum bílum sem sameinar vel praktík og aksturseiginleika líkt og E190 2.5. Öflug vél og fjöðrun frá Motorsport deild BMW klikkar ekki.

Citroen XM. Ég hef eitthvað voðalegt fetish með þessa bíla og því gerist ég svo grófur að setja slíkan á listann. Finnst þeir bara virkilega svalir og verðið er fínt. Hvernig er ekki hægt að fíla þetta tækniundur síns tíma sem er svo absurd í útliti að Sverrir Stormsker gæti átt einn. Varúð fellur ekki vel í fjöldann!

Peugeot 205 Gti 1900. Það er ekki spurning að maður þarf að eignast svona tík einhverntímann og undir hálfri milljón er hægt að fá algjöran gullmola. Virkilega svalir bílar með spennandi karakter auk þess sem þeir eru óðum að verða klassík og verðið á þeim á bara eftir að hækka.

Audi S2. Ekki mikið mál að koma inn c.a. 12ára gömlum Audi S2 hingað inn á undir millu og þarna ertu kominn með þrusu kerru. 230hö, 4wd og 0-100km/klst á um 6sek. Með litlu auka boosti ertu svo kominn c.a. 260hö sem hendir þessu tæki vel áfram í beygjum sem beinum vegi. Gaman að vera á einhverju sem er ekki til í þúsundatali…

Mazda Mx-5. Kannski dálítið \“gay\” að mati sumra en það eru bara þeir sem eru eitthvað óöruggir í kynhneigð sinni. Hér eins og með flesta bíla hér að ofan þarf líklega að flytja inn bíl því þeir finnast vart á sölum hér heima en það er alveg þess virði. RWD og snappy handling gera þetta bara að bargain sportbíl og það jafnvel með blæju til að dýrka á góðum dögum.

Renault Clio Williams. Ha! bara þrír franskir bílar á listanum, eitthvað hefði maður nú sagt fyrir nokkrum árum áður en maður áttaði sig á innri fegurð franskra bíla. Góður svona bíll myndi líklega standa í rétt tæpri millu hingað kominn sem er nú kannski frekar mikið fyrir 10ára gamla franska smátík en athugið það að þetta eru almennt taldir með bestu aksturbílum allra tíma sem slær við bílum sem kosta margfalt. Þessi listi þarf líka ekkert að vera mjög praktískur, bara skemmtilegur.

Lancia Delta Integrale HF. Maður fær líklega ekki merkilegt eintak fyrir þetta verð en mig langar bara svo rosalega að hafa svona bíl á listanum að ég læt það vaða. Þeir bila kannski eins og þeir fái borgað fyrir það, skröltir eins og tamborína og brakar eins og trébátur í brælu en mikið andskota eru þetta geðveikir bílar. 200-220hö turbo vél í fisléttri dós með 4wd gera þetta að algeru rugli á hjólum. Svo eru þeir líka svo svalir í útliti.

VW Golf GTi mk1. Það er náttúrleg ekki hægt að sleppa forfaðir Hot Hatch menningarinnar sem byrjaði allt þetta Gti, Vti, Vts bla bla bla dæmi. Grjótstíf fjöðrun, 160hö/tonn, körfustólar og brettaútvíkkanir er allt sem þarf í góðan bíl…a.m.k. á þessum tíma. Flottir bílar sem fást á fáránlega lágu verði miðað við skemmtanagildi og snappy 80\'s útlit.

Jaguar XJS V12. Þessi slær kannski allt út í ópraktík og vitleysu í bílakaupum í augum margra en það er bara rugl, þessir bílar eru cool og ekki orð um það meir! Eyða kannski dálítið mikið og bila kannski \“aðeins\” yfir meðallagi en þetta er bara british steel V12 hardcore coupe með nóg af afli. Það mætti kannski alveg eins fara í aðra Jaguar bíla fyrir þetta verð en mér hefur alltaf þótt þetta svo flottir bílar að ég hef XJS hér inni.

Ég var með nokkra aðra sem mér hafði dottið í hug en verðhugmynd og augnablikstilfinning hleypti þeim ekki inn. Einnig var ég að átta mig á því að á þessum lista eru engir japanskir eða bandaríksir bílar og ég get bara einfaldlega skýrt það með því að mér datt bara engir í hug í auknablikinu. Þarna mættu kannski vera t.d Honda CRX, MMC Eclipse GSX og Toyota Corolla Tvincam AE86 í japönsku deildinni en mér duttu engir bandarískir á þessu verðbili í hug. Vantaði alltaf aðeins upp á verðið til að fá badaríska kaggann sem mig langaði í.

Endilega komið með tillögur að bílum og að þeir séu ekki til á Íslandi er engin fyrirstaða, bara svo lengi sem það er hægt að flytja þá inn á þessu verði. Svo er ég ekkert sérstaklega hörundsár þ.a. þið megið alveg kalla mig öllum illum nöfnum ef þið eruð eitthvað í fílu;)
I WAS BORN FOR DYING!