Porsche að bregðast bogalistin? Eftir að lesa um fyrsta prufuaksturinn á nýja Porsche 911 GT2 varð ég fyrir vissum vonbrigðum. Það fer nú ekki á milli mála að hér er um heimsklassa tryllitæki að ræða. Hundrað kílóum léttari en 911 Turbo (996) og með enn fleiri hestöfl (455). Enginn rafeindabúnaður til að temja þetta óargadýr (gasp!) nema bara ABS til að klossarnir læsist nú ekki á keramik bremsudiskunum. 4.1 sek í 60 mph og 196 mph hámarkshraði segir líka sýna sögu.

Mitt vandamál er það að mér sýnist að því öflugri sem Porsche bifreið er í dag þeim mun meira hrakar útlitinu. Porsche Boxster, glæsilegur! Porsche 911 Carrera sömuleiðis og GT3 var alls ekki slæmur. Svo kom nýi Turbo og það tók tíma að taka hann í sátt. Smá ferð upp í Bílabúð Benna sannfærði mann um að þótt hann væri kannski ekki ofur fallegur þá hefði hann ákveðinn brútal glæsileika, útlitið er meira sniðið að vélbúnaði bílsins en einhverju fegurðarskyni.

GT2 hins vegar get ég ekki kallað fallegan. Það má vera að hann venjist en ég trúi ekki að þessi afturvængur verði nokkuð annað en lýti á bílnum. Svo þegar ég skoða myndir af Carrera GT ofurbílnum sem mun koma 2003 verður mér hugsað til Toyota MR2. Þetta er reyndar kannski full djúpt í árinni tekið - með fullri virðingu fyrir MR2 sem er laglegur bíll - en mér dettur helst í hug að segja að Carrera GT sé of látlaus…

Það sem mér þykir merkilegast er það að 911 Turbo (993) sem kom á undan þeim nýjasta (996) var virkilega flottur bíll. Eldri GT2 (993 aftur) var eins og götulöglegur kappakstursbíll í útliti. Það má kannski segja að tengslin við upprunalega Turbo 911 og RS bílana séu hér með rofin, en eldri bílarnir kipptu svo sannarlega í kynið. Mér þykir það leitt að segja en þeir Porsche sem mig langar mest í sem eru í framleiðslu myndu vera Boxster S og 911 Carrera 4… GT3 er því miður ekki lengur í framleiðslu en þar hitti Porsche naglann á höfuðið. Flestir kostir 911 í hrárri og hraðari pakka þar sem aksturinn var aðalmálið. Bíll sem var ekki auðveldara að keyra hratt heldur bíll sem krafðist hæfni og verðlaunaði hana. Ég veit ekki en það er eins og Turboinn og GT2 séu… of góðir?