Það hljóta allir bílaáhugamenn að viðurkenna að íslensk bílamenning er ansi geld og í hana vantar fjölda skemmtilegra bíla. Götur Íslands eru uppfullar af dauðyflum á hjólum þar sem endalausir straumar af Corollum, Golfum(ekki Gti) og Land Cruiserum sniglast áfram í umferðinni. Mér datt því í hug að nefna 10 bíla í engri sérstakri röð sem mér þykja einna helst vanta á götuna og þá hvers vegna, þó allir á sómasamlegu verði.

Lotus Elise
Það eru líklega flestir bílaáhugamenn sammála að það vantar Lotus Elise á íslenskar götur og reyndar bara eitthvað af Lotus ef út í það er farið. Elise S2 er t.d. bíll á svipuðu verði og Subaru Impreza WRX en þykir einn allra besti akstursbíll í heimi. Nú kunna einhverjir að segja að Elise sé bara ekki nógu praktískur til að seljast, en athugið það mikill hluti af Imprezusölu er til fólks sem er einungis að spá í performance og myndi kaupa alveg eins kaupa tveggja dyra útfærslu með engu fjórhjóladrifi ef performace væri svipað eða betra. Svo má ekki gleyma Porsche sölunni hjá Benna en Porsche er nú ekkert praktíkin uppmáluð. Elise er bíll sem vill láta keyra sig greitt og myndi rúlla upp AutoX keppnum með réttum ökumanni auk þess að skila manni ávallt á áfangastað með bros á vör þess á milli. Hvað hefur maður svo sem að gera með pláss fyrir alla fjölskylduna, hund og tvær töskur þar sem það sýnir sig að flestir eru einir eða tvennir í bíl. Svo má kaupa einhvern gamlan góðan fák til fjölskylduferða eða bara almenns brúks.

Mazda RX8
Þótt hann sé bara stuttu kominn á markað þá hefur samt verið nægur tími til að henda svona tík á götuna. Þarna fær fólk bæði praktískan og skemmtilegan bíl auk þess að vera alveg þræl fallegur að horfa á. Bíll sem er að taka svipaða brautartíma og M3, með 4 hurðir og hátt í helmingi ódýrari er náttúrlega algert bargain. RX8 er einning á Imprezu verði og ætti því alveg eins að seljast. Þetta er bíll sem ég myndi hiklaust kaupa ef hann væri á sómasamlegu verði hér heima og einn af fáum nýjum bílum sem mér þykja spennandi í dag.

Mitsubishi EVO
Maður getur nú varla lesið bílablað nema að sjá einhver reference í EVO Lancer og löngu kominn tími á þessa bíla hérlendis. Það er nú reyndar svona bíll á landin en honum hefur verið nauðgað í rallakstur svo hann telst ekki með. Evo Lancerarnir þykja alveg gífurlega skemmtilegir akstursbílar og hafa vissan cult status alveg eins og Impreza en þó eitthvað aðeins meira appeal sem gæti reyndar bara verið fólgið í því að það er enginn á götunni hérlendis. Þetta er bíll á WRX Sti verði og reyndar helsti keppinautur hans svo það ætti alveg að vera hægt að koma þessu út ef verðið er raunhæft(annað en maður hefur heyrt af Heklu…).

VW Golf R32
Þessum bílum er nú hampað víða í bilapressunni og þótt hann sé álíka þungur og 2 upprunalegir Golf Gti þá höndlar hann ekki eins og borðklútur. Með 4wd og 240hö þá sprettist hann vel úr spori og skákar mörgum af sínum helstu 4wd keppinautum. Þetta er bíll á svipuðu verði og RX8 og Elise S2 svo það ætti að setja hann í rúmar 3 millur (miðað við verð á WRX) hérna heima. Það er verð sem ætti að geta selt all nokkur stykki á hverju ári þar sem Golf hefur þegar náð mikilli hilli hérna heima og örugglega nokkur fjöldi fólks sem myndi borga meira fyrir Golf sem drattaðist almennilega úr sporunum. Reyndar hefur heyrst að verðlagning Heklu á þessum bíl sé ekki alveg í takt við verð erlendis en það er hér látið liggja milli hluta.

Nissan Skyline
Þar sem maður getur ekki byrjað að tala um bíla í hópi ungra karlmanna nema að fá 10mín ræðu um hve stórkostlegur Skyline sé, þá verður maður að hafa hann hér með. Að fá svona bíl á götuna og svo líka á verkstæði bilaðan myndi kannski aðeins róa þessu helstu aðdáendur… Maður getur nú ekki mikið sagt um þessa bíla sem allir eru ekki búnir að heyra eða lesa 100 sinnum svo ég segi bara eitt, þetta er bara virkilega dýr Playstation tölva eins og Jeremy Clarkson sagði. Hver myndi annars ekki vilja eiga einn, hvort sem það er R32, R33 eða R34.

Lamborghini
Það vantar alveg svakalega Lambo á göturnar að mínu mati. Þarf ekkert að vera einhver Diablo eða Murcelago sem kostar svipað og einbýlishús á Arnarnesinu heldur bara einhver sæt gömul græja með arfleifð, 12 strokka og mikinn sjarma. Maður myndi nú ekki slefa lítið ef það kæmi hvít Espada með rauðu leðri upp að manni á Sæbrautinni og hverfa svo í buskann í reyk og hljómfegurð ítalskrar 12 strokka sinfóníu. Bíll á sviðuðu verði og LC90 eða Audi A6 með hundraðfalldan sjarma og tvöhundruðfallda akstursánægju (a.m.k. yfir LC90).

Lancia Delta Integrale
Þetta er bíll sem er mjög ofarlega á draumabílalistanum mínum og ég veit að ég er sko ekki einn um það hér á landi. Þetta eru bara svo absurd græjur og með þetta flotta grimma 80's look að maður getur ekki annað en verið hrifinn. Fjöldinn alllur af frægum bíladellukörlum eiga svona bíla og munu aldrei láta þá af hendi. Þar má t.d. nefna Rowan Atkinson auk margra fyrrverandi og núverandi Formúlu 1 ökumanna og tæknimanna. Þessir bílar hafa fengið dálítið óorð á sig fyrir að vera óáreiðanlegir en það ku vera mikið fólgið í rangri meðferð og fólk virðist ekki alveg gera sér grein fyrir því hvað það er með í höndunum. Þetta er jú ítölsk raketta í gömlu boddyi…

Honda/Acura NSX
Tækniundrið frá upphafi 10. áratugarins stendur enn fyrir sínu og þykir slá mörgum dýrari ofurbílum við. Frábærir aksturseiginleikar, töluvert notagildi og gott afl gera þennan konung japanskrar bílamenningar að einum besta besta ofurbíl 20.aldar. Þeir hafa haldið sér vel í verði og eru í dag mjög eftirsóttir meðal bílaáhugamanna sem gerir það jú erfiðara að komast yfir eintak. Rúmlega 10 ára gamall bíll ætti að komast hingað inn á um 4 millur frá Þýskalandi sem gerir hann samt töluvert ódýrari en nújan Boxter og myndi alveg örugglega snúa fleiri hausum.

BMW-Alpina
Það vantar tilfinnanlega fleiri Alpinur á landið og eru þær aðeins tvær síðast þegar ég vissi. Alpinur frá 9.áratugnum þykja enn í dag alveg óhemju snöggar og dæmi eru um að 20ára gamlir 4 dyra bílar séu að skilja Ferrari eigendur eftir í reyk með brotið stolt. Auk þess eru þesar gömlu Apinur alveg óhemju glæslilegar og margir eftir að hafa mikið söfnunargildi á komandi árum, svo það er um að gera að fara að flytja inn. Einn E24 B7Turbo eða einn E34 B10 BiTurbo fyrir mig takk (eða bar báða!).

Oldschool Porsche 911
Það vantar nokkra gamla alvöru loftkælda 911 til að fegra umferðina svo maður verði nú ekki þunglyndur af því að horfa á alla Yarisana og Corollurnar. Þessi bílar eru náttúrlega að springa af sjarma og gamlir 911 Turbo eru hreint út sagt að springa af karlmannleika. Svona c.a. '88 módel af 911 Turbo er mjög ofarlega á óskalistanum og það væri nú ekki amalegt að rúnta á einum blæju með blæjuna niðri á sólskinsdegi í júlí. Það er reyndar ekki sama hvernig maður keyrir svona tæki og víst ekki mikið mál að lenda einhversstaðar sem maður á ekki að vera og það e.t.v. á hvolfi…en það er bara gaman að þurfa aðeins að hafa fyrir hlutunum.

Það eru ýmsir fleiri bílar sem ég væri til að sjá hér á listanum en ég bara nenni ekki að skrifa meira, þið kannski hendið þeim hér inn fyrir neðan. Það sem ég helst minna á eru gamlir BMW sharkar(sexur og sjöur), gamlir M3, flottir gamlir amerískir vöðvabílar, gamlir Jaggar og AMG Benzar.
I WAS BORN FOR DYING!