Ég er stundum að velta fyrir mér þegar ég er að lesa bæði greinar og korkana hérna og víðar þessa tísku í bílum, og þá sem eru á móti vissum bílum og bílagerðum.

Það hefur svo lengi sem ég man eftir mér alltaf verið einhver “tíska” í gangi með bíla, t.d. þegar ég var 17, þá var allt fullt af innréttuðum Van bílum á rúntinum, og að sjálfsögðu fékk ég mér einn þannig, þessir bílar voru plussklæddir, með hjartalaga glugum, helst einhverri airbrush málaðri mynd af stelpu í víkingafötum með sverð, kögur í gluggunum og jafnvel ullargæra á mælaborðinu.
Þetta voru sko sukkarar í lagi, og var mikið djammað í þessum bílum enda enduðu allmargir þeirra brunnir eða oltnir á ruslahaugum.

Svo var líka kaggatískan, hún var reyndar fyrir minn tíma en maður hefur heyrt sögurnar þegar liðið var að spyrna uppi á Geitháls, og skurðastökkin, þ.e. menn voru að leika sér að því að stökkva á þessum 3-4 tonna flekum yfir skurði.. hehe.. léttgeggjað lið á ferðinni, (þetta eru sko foreldrar okkar sumra hérna).

Jeppatískan virðist ætla að hanga áfram, ég hugsa að jeppatískan hafi komið þegar Bronco jepparnir komu hingað að einhverju ráði, eða um 1974, það höfðu verið fluttir inn Broncoar hingað áður, en þeir voru flestir fluttir inn sem landbúnaðartæki, sbrt. Land Roverinn, og það þótti varla fínt að aka um á landbúnaðartæki.
Ég man þegar pabbi eignaðist nýjan Bronco, 1974, hann var einn sá fyrsti sem fór og lét skera úr brettunum á honum, settann á krómfelgur, 30-33“ dekk og setti Hurst skipti í gólfið.. athugið að þetta var nýr bíll, menn sögðu að hann væri ruglaður að skera úr brettum á splunkunýjum bíl, en hann fékk einhverja brettakanta frá USA og setti þá á, og stuttu seinna voru flestir búnir að þessu.

Núna er þessi ”Rice“ tíska í gangi, þ.e. breyttir japanskir bílar, þetta er tíska sem ég held að hafi ekki verið áður í gangi, ég man reyndar þegar Pioneer tískan var, þá var japanskur bíll ekki bíll nema vera með mörg hundruð watta Pioneer græjum, og helst þokulúðrum sem spiluðu lag, (t.d. La Cucharacha var vinsælt) en breytingar á bílnum sjálfum voru sjaldgæfar.

Mér finnst þessi ”Rice“ tíska bara skemmtileg, sumir bílar eru reyndar þannig útbúnir að maður fer ósjálfrátt að hlæja við að sjá svo stóran afturvæng á 100 hestafla smábíl að þyrlur gætu auðveldlega haldið að þetta væri lendingarpallur, líka þegar pústið er orðið svo stórt að meðalstór hundur gæti skriði þar inn til að leita sér að hlýju.. en samt er þetta það sem gefur umhverfinu smá lit.. það væri hálf leiðinlegt að rölta rúntinn og sjá bara þessar óbreyttu dósir….

Það er reyndar eitt að lokum sem mig langar að minnast á,, en það er gamli góði rúnturinn,, mér finns mikil eftirsjá af honum, og virðist vera að það sé lítið ”rúnt" líf í Reykjavík þessa stundina,, þó hún sé reyndar enn á góðu róli í Keflavík…!! :)