Ég hef lengi vel ætlað að setja inn smá grein um bílinn minn sem ég er að gera upp. Loksins sé ég mér fært um að gera það. Þetta er smá saga.

Þegar ég var átta ára gamall sat ég í sófanum fyrir framan sjónvarpið með honum pabba mínum að horfa á mafíumynd. Í einu atriðinu voru nokkrar limmosínur sem komu rennandi í hlað í myndinni, það var semsagt einhverskonar mafíósafundur í gangi.
Þar voru nokkrar svartar Cadillac limmosínur og ég segji við hann pabba: Vá! Ég ætla sko að fá mér einn svona!
Hann svaraði mér: Tja, þá er líka eins gott að þú byrjir að safna þér fyrir svona bíl strax, þeir eru ekki gefins.

Og með tímanum þróaðist þessi draumabíll úr Cadillac Fleetwood Limosine í Cadillac Fleetwood og síðan þegar maður var orðinn aðeins eldri var draumabíllinn orðinn 2ja dyra Cadillac coupe deVille.

Þegar ég var 16 ára gamall, dró ég pabba með mér til eins manns í Kópavogi sem átti eitt stykki Cadillac coupe deVille, og við spjölluðum aðeins við hann, hvort séns væri að hann mundi selja bílinn og svo framvegis.
Stuttu seinna fór ég í bankann og tók út pening sem ég hafði safnað mér upp með því að dreifa Morgunblaðinu í nokkur ár og unglingavinnunni á sumrin.
Ég staðgreiddi bílinn.

Þetta er Cadillac coupe deVille árg. 1980, hann var dökkbrúnn með base litaðri leðurinnréttingu, knúinn áfram af 472 c.in. mótor sem var gefinn upp í 375 hö.
Rafmagn í öllu og sjónvarp í bílnum.
Hann var fluttur inn árið 1987 (að mig minnir) og var með 350 c.in. Disel vél.

Það var mjög erfitt að vera aðeins 16 ára gamall með draumabílinn í innkeyrslunni sem var 375 hö sem þræddu í gegnum kasthjólið, í gegnum skiptinguna, drifið og loks í afturhjólin, bíðandi eftir því að láta guttann taka í sig, með chromaða glott-grillinu og silfruðu stélinu, stífbónað sanserað lakkið speglaði litla guttann þegar ég horfði á hann spurningaraugum: Á ég þetta virkilega?

Loks kom að því að litli guttinn fær bílpróf, en það var á laugardegi. Ég fékk bráðabirgðarskírtenið afhent kl. 0:00 á aðfaranótt laugardags, en ég var að vinna það kvöld og vaktin mín var búin kl. 12.
Pabbi kemur svo rennandi í hlaðið á kerrunni og þá loks áttaði ég mig á því að stundinn var runnin upp, moment of truth.
Ég virði bílinn fyrir mér og get varla haldið í mér að öskra úr spenningi. Því ég vissi að loksins, í þetta skiptið, þegar pabbi sótti mig í vinnuna, settist ég undir stýrið og keyrði.

Það kom sér vel að vera að vinna á bensínstöð þennan tíma lífs míns því ég var ungur og vitlaus, spænandi upp malbikið og skildi eftir mig gúmmítæjur á götum borgarinnar, því ég leifði mótornum virkilega að sýna hvað í sér bjó.

Það kom svo að því að það þyrfti að fara að gera bílinn upp, og var svo nú reyndin þegar ég fékk bílinn að það væri tími kominn á það en ég ákvað að keyra hann eitt sumar áður en að ég mundi fara að vinna í honum.

Núna eru nokkur ár liðin frá því að ég byrjaði að gera þessa kerru upp. Búið er að fara í gegnum allt kramið á bílnum, mótorinn var strokaður upp í 500 c.in. í vetur og er gefinn 400 hö original.
Skiptingin nýupptekinn í honum (í vetur líka) og búið er að sprauta bílinn uppá nýtt.
Ég valdi á hann dökkfjólubláan Lamborghini Diablo lit með stórkorna sanseringu.
Vínyltoppurinn á svo að vera hvítur, og sami litur á að fara á innréttinguna. Hvít leðursæti og hvítt í loftið og gólfið.
Í rauninni styttist óðum í að bíllinn komi á götuna, því það “eina” sem er eftir er að fá í hann þéttikannta, chromelistana á hurðirnar, brettin og á gluggana og svo á eftir að taka innréttinguna í gegn á honum.
Ég er búinn að finna hitt chromið og er það bara tímaspursmál uppá vikur hvenær ég kaupi það.
Í dag er bíllinn ekinn tæpar 10 mílur á mótor og skiptingu.

Það er farið að hlakka all svakalega til í mér að koma bílnum á götuna. Sérstaklega þegar svona “lítið” er eftir af honum. Næsta sumar er séns en ég veðja þó ekki upp á það. Ég er búinn að vera 4 ár að gera bílinn upp og 6-18 mánuðir eru sennilega eftir að bílnum.
Það er allt nýtt í blokkinni sjálfri og voru varahlutirnir í blokkina ekki gefins. En þetta er búið að vera vel þess virði.

Ef þið eruð með einhverjar spurningar um bílinn endilega skjótið þeim á mig, mér finnst mjög gaman að tala um bílinn minn.

Garri