„Ekki er allt vakurt þó riðið sé”.

Upphaflega átti þetta hugtak við hesta þá er menn riðu um héröð, voru ekki endilega þeir bestu sem til voru.

Þetta má á einfaldan hátt færa upp á bílaeign nútímamannsins, í gegnum tíðina hefur fólk ekið um á bifreiðum sem hafa ekki endilega verið útbúnir á þann hátt sem best mætti fara. Auknar tækninýjungar hafa þó gert kleyft að þróa bifreiðar sem komast sífellt nær því marki að bjóða upp á fullkomna ökuferð – eða hvað?
Sama þróun sem hefur leitt til þess að bifreiðar nútímans eru öruggari og þægilegri í meðförum, hefur einnig tekið völdin af þeim sem þau nota. Ekki eru allir á eitt sáttir hvort þetta mun leiða til ánægjulegri ökuferða eða hvort ferðir með bílum verða líkari lestarferðum – fólk að sinna öðru en akstrinum.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um orkugjafa bifreiða framtíðarinnar. Reynt verður að sneiða hjá því efni og kafað í þær tækninýjungar sem eiga að létta okkur lífið við akstur. Margir hafa gaman af því að taka í stýrið og keyra eins og hugurinn segir til um – er þeim dögum senn lokið?


- Frá fornbílum til nútímabifreiða -

Þó svo að töluverðar breytingar hafi átt sér stað á þeim bifreiðum sem ekið er á í dag hafa þær breytingar komið fram á löngum tíma og varla er hægt að tala um byltingu í þeim málum. Bíllinn er enn byggður upp á svipaðan hátt og fyrir hundrað árum með einkennum svo sem: Stýri, gúmmídekkjum, sætum sem snúa í akstursstefnu, bensín/olíuvél og virkar á svipaðan hátt og hann hefur síðan hann kom fyrst fram.

Þó hafa komið fram tækninýjungar sem greina nútímabílinn frá fyrirrennurum sínum, tækninýjungar sem eins og áður hefur verið sagt komu fram á löngum tíma og mörkuðu ekki þáttaskil í sögu bifreiðarinnar. Nokkur dæmi um nýjungar sem voru til þess fallin að auka þægindi ökumanns og farþega við akstur:

- 1849 Öryggisbelti, Volvo kom með þá nýjung og aftur kynntu þeir slíka nýjung með þriggja punkta beltum árið 1959.
- 1901 Diskabremsur, fram að því hafði fólk ekið um á bílum með bremsukerfi sem var afar óstöðugt og olli miklum vandkvæðum við akstur.
- 1929 Bílaútvarp, fylgdi þá ekki með bílunum frá framleiðanda heldur varð að kaupa frá þriðja aðila.
- 1938 Stefnuljós, juku þannig umferðaröryggi, fram að þeim tíma hafði fólk notast við handabendingar og stefnustangir.
- 1958 Hraðastýring (e. cruise control), ein af þekktari uppfinningum Bandaríkjamanna og fljótlega allsráðandi á þeim markaði.
- 1959 Rafmagnsrúður, fram að þeim tíma hafði fólk notast við handdrifna rúðuupphalara af ýmsu tagi.

Þó svo að það sem hér er upp talið sé aðeins brot af þeim nýjungum sem komið hafa fram í bifreiðum í gegnum tíðina má sjá að þær hafa komið fram á löngum tíma og því hafa ökumenn aðlagast þeim eftir því sem þær komu á sjónarsviðið.
Undafarinn áratug hafa tækninýjungar litið dagsins ljós mun örar en áratugina þar á undan. Margvíslegur búnaður sem byggir á tölvutækni hefur rutt sér til rúms og þannig aukið öryggi og þægindi þeirra sem í bílum ferðast.

Þægindi

Meðal nýjunga sem hafa aukið þægindi þeirra sem ferðast má nefna: Sjálfvirka hitamiðstöð sem heldur réttu hitastigi fyrir hvern farþega bifreiðar, sjálfvirk tölvustýrð sæti sem stilla sig fyrir hvern þann sem í sætið sest, fingrafaraskynjarar til að vita hver í bílnum og stilla spegla/sæti/hita/tónlist og fleira, sæti sem „faðma” ökumann eftir því sem hann beygir bílnum og heldur honum þannig sífellt í réttri stöðu, LCD skjáir sem hægt er að nota hvort sem er fyrir afþreyingu eða þæginda við akstur (DVD/vegakort).
Helstu tækniframfarirnar á þessu sviði hafa leitast við að auðvelda mönnum þá hluti sem þeir þurftu áður sjálfir að sinna við akstur og undirbúning hans. Ekki hefur verið gengið það langt að hafa afskipti af sjálfum akstrinum með þessum þægindabúnaði og því má segja að aukin þægindi nútímabílsins hafi ekki skert þá ánægju sem fólk hefur af akstri.

Öryggi

Búnaður til að auka þægindi bílsins er þó aðeins hálf sagan því auk þess hefur búnaði sem eykur öryggi hans aukist til muna á síðustu árum.
Meðal þess nýjasta má nefna: PRE-SAFE®, tækni sem skynjar hvort hætta sé á ferðum svo sem undirstýring eða yfirstýring og setur sætin í örugga stöðu, lokar sóllúgu o.s.frv. Þegar hættan er svo liðin hjá er allt sett í upphaflega stöðu. BAS® (Brake Assist) og ESP® (Electronic Stability Program), vinna saman að því að auka stöðugleika bílsins og bregðast við ef bíllinn heldur ekki réttri stöðu á vegi. Skynjarar skynja hvort bíllinn er farinn að renna til eða halla meira en góðu hófi gegnir og geta þannig bremsað á hverju hjóli eftir því sem henta þykir auk þess að draga úr afli vélarinnar. TELEAID, hringir sjálkrafa á aðstoð ef slys ber að höndum. Staðsetning ökutækis er send auk nauðsynlegra upplýsinga fyrir hjálparlið.

Endalaust væri hægt að telja upp tækninýjungar sem eru ætlaðar til að auka öryggi við akstur. Þessi listi er því engan veginn tæmandi heldur eingöngu settur fram til að gera lesanda grein fyrir hvert stefnir í þeim málum. Ólíkt þeim tæknibúnaði sem hugsaður er til að auka þægindi við akstur er öryggisbúnaður í auknum mæli farinn að hafa bein afskipti af akstrinum og taka yfirhöndina af ökumanninum við störf hans.
Ekki hefur verið gengið það langt að stýra bílnum fyrir ökumann en sá búnaður er þó á leiðinni og rætt um í næsta kafla. Nýjustu öryggisatriðin lúta að því að hafa fyrirbyggjandi áhrif, koma í veg fyrir slys áður en þau gerast. Þetta er ólíkt búnaði eins og öryggisbeltum, loftpúðum og öðru slíku sem hannaður eru til að draga úr meiðslum sem eiga sér stað þegar slys hefur átt sér stað.
Enn sem komið er grípur þessi búnaður aðeins inn í þegar eitthvað fer úrskeiðis og því ekki hægt að halda fram að hann minnki akstursánægju þess sem bifreiðinni ekur. Eins og sjá má í næsta kafla er þó breytinga að vænta í þeim efnum og spurning hvert stefnan verður tekin þaðan sem við stöndum í dag.


- Bifreið framtíðarinnar -

Rannsóknir hafa sýnt að fólk er farið að nota bílana sína allt að tvisvar sinnum meira en fyrir tveimur áratugum. Sú tala er ekki líkleg til að lækka í komandi framtíð og eru bifreiðaframleiðendur því í auknum mæli farnir að leita leiða til að auka þægindi í komandi kynslóðum bifreiða. Megináhersla verður lögð á tækni sem breytir upplifun fólks í hinum daglega akstri og þá sérstaklega vikið að því lýtur að akstrinum sjálfum. Fleiri tækninýjungar eru þó á leiðinni sem hafa ekki bein áhrif á aksturinn en munu þó breyta því hvernig fólk hugsar um hina venjulegu bílferð – verður aðeins vikið að þeim atriðum í lok kaflans.

ISA/GPS

„Intelligent speed adaption” (ISA) er tækni sem takmarkar hraða bifreiða eftir hraðatakmörkum hverju sinni. Tæknin virkar þannig að notuð er GPS tækni til að staðsetja bifreiðina og samkvæmt staðsetningu fundin út hámarkshraði á þeim veg sem bifreiðin er. Tölvukerfið sem sér um þessa vinnslu í bílnum er beintengd við vélar/bremsukerfi bílsins og dregur þannig úr hraða bílsins eftir því sem hraðahámörk segja til hverju sinni. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ISA gæti dregið úr slysum allt að 40% og fjölda banvænna slysa um nærri 60%.

Ekki ber öllum saman um hvernig ökumenn munu koma til með að taka því að vera ekki sjálfir ábyrgir fyrir þeim hraða sem þeir aka á. Rannsóknir eru hafnar á þessu kerfi í norðanverðri Evrópu og hafa sænskar rannsóknir sýnt að ökumenn sætta sig venjulega nokkuð vel við notkun ISA eftir reynslutíma. Fólk er jákvæðara gagnvart því að hafa ISA í bifreiðum sínum en eldri takmarkanir á hraða, svo sem upphleyptar hraðatakmarkanir á vegi. Einnig er fólk sáttara við að vera varað við hraðatakmörkum en að bifreiðin bregðist sjálfkrafa við eftir aðstæðum hverju sinni.

Því virðist ekki vera ómögulegt að fá fólk til að nýta sér þessa tækni jafnvel þó svo að það takmarki þá stjórn sem fólk hefur á ökutækinu. Rökum um minni slysahættu verður væntanlega haldið hátt á lofti og reynt að fá fólk til að aðlagast breyttum aðstæðum og viðhorfum á svipaðan hátt og gert var með bílbeltin á sínum tíma.
Gagnrýnendur ISA eru þó fjölmargir og hafa þeir komið með rök máli sínu til stuðnings. Benda þeir á að þær aðstæður geti komið upp að hreinlega sé hættulegt að geta ekki aukið þann hraða sem bifreið er á, til dæmis þegar farið er fram úr langri röð af bílum. Talsmenn ISA hafa bent á að einhvers konar „neyðarhnappur” sé mögulegur en vilja gagnrýnendur meina að ekkert hindri þá ökumann í að nota þann hnapp hvenær sem er. Jafnvel þó svo að einhver kvóti yrði settur á notkun hans myndu sömu aðstæður geta komið upp þegar sá kvóti yrði búinn og varla hægt að réttlæta hræðileg slys með þeim rökum.

Því yrði afar erfitt að komast hjá því að fólk misnotaði þennan búnað á einhvern hátt eða eins og Ian Eveleigh segir í grein sinni:
„Unlimited speed would soon become the second most popular search on Google as every other website hosted outside the participating nations offered cracked speed data downloadable at the click of a mouse button”.

Hættan á því að verða tekin fyrir of hraðan akstur yrði væntanlega enn minni en áður þar sem öryggismyndavélum yrði fækkað vegna þessa nýja búnaðar. Þar með væri staðan orðin sú sama og í upphafi og allur sá kostnaður sem hlotist hefði vegna breytinganna til einskis.

Bíllinn tekur völdin

Það kann að koma einhverjum á óvart að heyra að tæknin til að láta bifreiðar keyra sjálfar á áfangastað er þegar til staðar – sú er þó raunin.
Ýmsar nýjungar eru á leiðinni og ganga þær mislangt í að aka bifreiðinni fyrir ökumanninn meðan hann getur sinnt sínum eigin málum á meðan. Flestir eru sammála um að seint taki bifreiðin alfarið við hlutverki ökumanns en ekki er langt að bíða þangað hægt verður að nýta tímann við akstur á hraðbrautum í eitthvað annað en að fylgjast með umferðinni. Þegar er farið að nota tækni þar sem geislatækni er notuð til að skynja hversu langt er í næsta bíl og vara þannig við hugsanlegri aftanákeyrslu. Næsta kynslóð slíkrar tækni gengur undir nafninu CACC (Cooperative Adaptive Cruise Control) og vinna þannig bílarnir saman að því að auka og minnka hraðann til að halda alltaf réttu bili á milli bifreiða. Þegar við það er bætt tækni sem notar myndavélar sem skanna vegbrúnina stöðugt má búast við að akstur á hraðbrautum verði í höndum bifreiðar en ekki ökumanns.

Helsta vandamálið við CACC er að það nýtist ekki til fulls fyrr en meginþorri bifreiða er búin slíkum búnaði. Því mun taka nokkurn tíma að koma slíkum búnaði í gagnið.
Áður var einblínt á búnað sem átti að stýra bílum sem byggður var upp á seglum í götum sem nemar í bifreiðunum notuðu til að aka eftir. CACC er mun ódýrari leið því ekki þarf sérstakan útbúnað í götunum til að hann virki. Seglarnir taka CACC hugtakið enn lengra og þegar um sjálfvirkan borgarakstur er að ræða verður hann líklega nauðsynlegur. Sumir sérfræðingar spá að ekki sé lengra að bíða en 10 ár að hlutar af vegum verði útbúnir þannig að ekki þurfi að stýra bifreiðum sem um þær aka.

Innanrými – breyttar áherslur

Eins og áður hefur komið fram er fólk farið að eyða lengri tíma í bifreiðum en það gerði áður. Til að bregðast við þessum breytingum munu bílaframleiðendur í auknum mæli hanna innanrými bifreiða þannig að þau séu til þess fallin að eyða í þeim löngum stundum. Þó svo að orð Keith Naughton séu kannski í ljóðrænni kantinum lýsa þau því ágætlega hvernig bílaframleiðendur sjá fyrir sér framtíðina:

“Your car feels your strain, recognizes your fingerprint on the wheel and responds. Mood lighting fills the cockpit with a warm fireside glow. Your seat adjusts to a relaxing position and begins gently massaging and warming your aching back. Soothing jazz flows from the digital surround stereo. Your satellite navigation system checks for traffic snarls. And for the final touch, vanilla candle scent wafts from the vents. As you exit the parking garage, you leave the rat race behind and are transported back to the womb.”

Sú staðreynd að ekki er ólíklegt að bifreiðar framtíðarinnar muni sjálfir aka um göturnar eykur enn á áherslu hönnuða til að útbúa bifreiðar þannig að ökumenn og farþegar geti sinnt ýmsu öðru en akstri bifreiðarinnar. Nú þegar má sjá hluti eins og ísskápa í dýrari bifreiðum og í þá flóru munu bætast við hlutir eins og: örbylgjuofnar, ruslkvarnir og jafnvel kaffikönnur. Innanrými bíla mun aukast miðað við þá bíla sem sjást á götunum í dag og mun minna meira á lestarrými – þægindin munu aukast í réttu samræmi. Mercedes-Benz eru þegar komnar með prufuútgáfur af bíl þar sem hið hefðbundna stýri er horfið úr mælaborðinu og í staðinn má finna stýripinna sem hvor þeirra er í framsæti sitja geta stjórnað að vild.

Aðrar nýjungar

Með aukinni tækni hafa komið ýmsar nýjungar og sumar þeirra eru að sama skapi frekar óhefðbundnar. Sem dæmi má nefna búnað sem býður upp á að fylgjast með þeim sem bílinn keyra og einn helsti markhópurinn eru eiginmenn sem treysta eiginkonum sínum lítt. Lítill kubbur er þá settur í bílinn og skráir hann niður ferðir bílsins með því að nota GPS tækni. Kubbnum er síðan stungið í samband við nettengda tölvu og hnitin sem skráð eru send eru samhæfð við kort sem sótt eru í gegnum netið. Þannig má sjá á korti allar ferðir bílsins og hversu lengi stoppað er á hverjum stað.
Svipaður búnaður er einnig til fyrir þá sem hafa áhyggjur af öryggi bifreiða sinna og vilja geta fengið upplýsingar hvar bíllinn er staddur ef honum er stolið. Þróun slíkra tækja er þó frekar skammt á veg komin en með auknum samningum milli hinna ýmu ríkja má telja að slíkur búnaður verði staðalbúnaður í framtíðinni.

Framleiðendur radarvara munu einnig auka við vörulínur sínar með búnaði sem varar við hraðatakmörkunum eftir því sem þær nálgast. Í staðinn fyrir að nota skynjun á radargeislum lögreglu eins og er nú er gert eru allar myndavélar við vegarbrún skráðar niður í grunn sem þessi tæki tengjast í gegnum internetið. Þannig er hægt að viðhalda upplýsingum og uppfæra þær eftir því sem þurfa þykir.
Ekki er allur væntanlegur tækjabúnaður í bíla jafn „vafasamur” og þannig megum við búast við að Bluetooth staðallinn verði orðinn ráðandi innan skamms og tengi þannig þau raftæki sem inn í bílinn koma. Þó svo að Bluetooth muni ekki valda neinum straumhvörfum í bifreiðum þá er þar komin ódýr tækni sem mun leysa aðra eldri og mun dýrari af hólmi. Áður hefur verið notuð tækni sem nýtir sér dýra notkun gervihnatta til að staðsetja bílinn og upplýsingum af vegakortum flett upp af geisladiskum sem í bílnum eru. Þegar tengingu við internetið er náð er slíkt óþarfi því með uppflettingu í nettengdum gagnabönkum og staðsetningu bifreiðar með GPS tækni er hægt að bjóða upp á mun öruggari og örari upplýsingar til farþega bifreiðar.


- Niðurstöður -

Ljóst er að ekki þykir öllum ökumönnum akstur sérlega skemmtilegur, enn færri eru þeir sem eru sáttir við aukna slysatíðni í umferðinni. Tækniframfarir þær sem búast má við í bifreiðum framtíðarinnar mun koma til móts við þá sem þessum hóp tilheyra.
Ekki má þó gleyma að til eru fjöldamargir sem líta á akstur sem skemmtun og finnst fátt skemmtilegra en að taka bílinn út á góðum degi, finna öfluga V8 vél mala undir húddinu og keyra af stað á þeim hraða sem þeim líkar – undirritaður tilheyrir þeim hóp.
Bílaframleiðendur vita þetta og reyna að koma til móts við þarfir beggja hópa, þær þarfir skarast þó töluvert og á það sérstaklega við öryggisleg sjónarmið. Sjálfstýring og önnur slík tækni mun að lokum leiða til þess að sífellt minni tími fer í sjálfan aksturinn og er því eðlilegt að ökumenn krefjist breytinga á bifreiðinni þannig að tíminn nýtist í eitthvað annað – lestarstemningin tekur við. Þó svo að fólk sætti sig við tæknina er ánægjan með hana ekki allsráðandi. Fólk sem notað hefur tækninýjungar eins og ISA tilkynnir að það hafi komist á áfangastað á réttum tíma en með minni ánægju.
Þessi ánægja er einmitt það sem reynt verður að fylla upp í með aukinni afþreyingu, loforðum um tímasparnað og aukið öryggi.

BMW hefur tekið orð þýska heimspekingsins Wilhelm von Humboldt sér til fyrirmyndar og verða bílaáhugamenn framtíðarinnar líklega að hugga sig við þau sömu orð:
„Without security, there can be no freedom”.


Heimildir

Bellis, Mary (2003). Automobile History. What you need to know about Inventors. Skoðað 15. mars 2003 á veraldarvefnum: http://inventors.about.com/library/inventors/blcar.htm

Eveleigh, Ian (2003, Febrúar). Rein of Terror. PistonHeads. Skoðað 17. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.pistonheads.com/features/default.asp?storyId =6325

Grose, Thomas K. (2002, Mars). Down the Road. A see prism online, 11. Skoðað 18. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.asee.org/prism/mar02/downtheroad.cfm

Merc edes Worldwide. Mercedes-Benz. Skoðað 19. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.mercedes-benz.com

Mifflin, Edmond (2001, Júní). Sleeping Policemen. The Economist Technology Quarterly, , 14-16.

Naughton, Keith (2003, Nóvember). Living Room, to Go. Newsweek, (25). Skoðað 15. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.msnbc.com/news/836181.asp#BODY

PistonHead s News - 1(2002, Október). Spy on your wife. PistonHeads. Skoðað 19. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.pistonheads.com/news/article.asp?storyId=573 7

PistonHeads News - 2(2003, Mars). Le Traqueur. PistonHeads. Skoðað 19. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.pistonheads.com/news/article.asp?storyId=640 4

PistonHeads News - 3(2002, Nóvember). Morpheus Roadpilot. PistonHeads. Skoðað 20. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.pistonheads.com/speed/default.asp?storyId=58 62

PistonHeads News - 4(2002, Desember). Bluetooth in cars. PistonHeads. Skoðað 17. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.pistonheads.com/news/article.asp?storyId=597 7

PistonHeads News - 5(2003, Janúar). Speed Limiter Trial. PistonHeads. Skoðað 17. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.pistonheads.com/speed/default.asp?storyId=61 15

Sherlock, Joseph M. (1999, September). Future Shock - Automotive Predictions For The Next 100 Years. Skid Marks. Skoðað 20. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.lincoln-club.org/skid9.html

SWOV Research Activities. (11. mars 1999). Holland: SWOV. Skoðað 17. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.swov.nl/en/actueel/swovschrift/ra/intelligen t_speed_adaptation_isa_a_research_design_for_an_experim ent_in_the_netherlands.htm

Sölvi Sveinsson (1995). Íslenskir Málshættir: Með skýringum og dæmum. Reykjavík: Iðunn.

Willett, Edward (2001, Maí). Future Cars. Edward Willett's Intergalactic Library. Skoðað 19. mars 2003 á veraldarvefnum: http://www.edwardwillett.com/Columns/futurecars.htm