Borgar V-Power sig? Jæja. Það er búið að vera hörkuspjall hér fyrir neðan á korkunum um V-Power og eins og einhverjir hafa kannski tekið eftir er ég harður fylgismaður enda búin að prófa þetta margsinnis á “vísindalegan” hátt.

Málið er það að mér leiðist þessi tvöfeldni hjá mönnum þegar þeir eru að dekra við bílana sína. Ég t.d. get ómögulega skilið afhverju einhver tímir að eyða 1400 kalli fyrir olíulíter á bílinn en tímir ekki að borga 5 krónum meira pr. líter fyrir besta mögulega bensínið á markaðnum.

Það virðist vera vegna þess að margir efast um það að varan sé sú sem auglýst er. Fyrst ber auðvitað að minnast á að það er ólöglegt að auglýsa vöru sem eitthvað sem hún er ekki. Í öðru lagi má minnast á að Shell eru lang stærstir í þróun á olíum og eldsneyti fyrir mótorsport og hafa nýtt sína þekkingu óspart eins og allir vita fyrir lið eins og Ferrari F1.

Hvað bensínið sjálft varðar eru ákveðnar staðreyndir í þessu máli sem fólk gleymir. Bensínið er 99+ oktan, það tryggir öruggari bruna og meiri orku við þann bruna. Hærri oktantala minnkar líkur á banki sem aftur fer betur með vélina - það er algjörlega burtséð frá því hvort bíllinn sé stilltur fyrir 95 og hafi jafnvel ekki bank skynjara. Það er því ekki rétt að bíll geti tapað afli á því að nota 99+ vegna þess að hann sé stilltur fyrir 95. Það vita það allir að hærri oktan tala er bara plús á meðan það getur skaðað bíla að aka á lægri oktantölu en þörf er á.

Í þessu bensíni eru líka hreinsiefni sem eiga að tryggja besta brunann, þessi efni eru ásamt vinnsluaðferð bensínsins það sem gerir það dýrara. Þessi efni halda vélinni tandurhreinni sem tryggir minni mengun og betri bruna og auðvitað meiri orku.

Í hverjum líter af 99+ er meiri orka en í líter af 95 oktan, bensínið er líka þyngra þannig að hver líter dugar lengra og þessvegna verður bensíneyðsla minni og það getur verið mjög áberandi í utanbæjarakstri. Í innanbæjarakstri verður það ekki svo áberandi af þeirri ástæðu einni að bensínfóturinn vill þynjgast þegar maður keyrir á V-power því maður vill njóta til fulls þess sem bensínið og bíllinn bjóða uppá.

99+ er nógu líkt því bensíni sem F1 bílar Ferrari nota til þess að þeir bílar geta keyrt á þessu bensíni á gangtruflana - þetta er nokkuð merkileg staðreynd og sýnir líka að þrátt fyrir gífurlega tækni og afl þá eru F1 bílar í grunnatriðum vélarlega séð ekki svo frábrugðnir öflugum fólksbíl.

PRÓFIÐ ÞETTA SJÁLF!

Ég hef prófað þetta á eftirfarandi hátt úti á kvartmílubraut;

Maður prófar að aka brautina mjög hægt í þriðja gír, þetta miðast að því að finna upphafspunkt þar sem maður byrjar á 30 kmh í þriðja gír og merkja svo endapunkt þar sem maður endar á næstum hámarkssnúning t.d. 6500.
Fyrst byrjar maður auðvitað á að fara 2-3 atrennur á venjulegu 95 oktana bensíni og skrá hjá sér endahraða og snúning þegar maður kemur yfir markið. Svo tankar maður einu sinni með V-power (helst tvisvar til að vera viss) og endurtekur prófið.
Þar sem maður rúllar í gegnum upphafslínuna á jöfnum 30 kmh í þriðja gír og botnar akkúrat þegar maður fer yfir marklínuna, heldur sér í þriðja gír og má alls ekki skipta upp um gír, er ljóst að búið er að taka “mannlega” faktorinn úr jöfnunni.

Niðurstaðan á að vera sú og hefur ávallt verið sú hjá mér að endarhraði er miklu hærri og bíllinn fer yfir endamarkið áhærri snúning. Með öðrum orðum er hann fljótari upp. Uppreiknað í bíllengdir þá hefur munurinn verið sirka 4-5 bíllengdir á sirka kvartmílunni á slappasta bílnum og 2 bíllengdir á M5.

Það hefur jafnvel komið fyrir að ég þurfti að stytta vegalengdina eftir að V-power fór á vegna þess að hann toppaði á snúning áður en að markinu kom.

Ég vona að þið skiljið þetta og að sem flestir prófi þetta, allavega þeir sem að hafa einhvern sérstakan áhuga á bílum.

Niðurstaðan er sú að V-power borgar sig fyrir alla sem á annað borð pæla eitthvað í þessum málum, það skilar auknu afli á öllum bílum búnum bank skynjurum og auknu afli á bílum sem eru sérstaklega stilltir fyrir þetta bensín. Þar fyrir utan fer þetta best með vélina og er því til hagsbóta fyrir alla bíleigendur alveg sama á hvernig bíl þeir eru. Verðmunurinn er ekki mikill.

Hér fyrir neðan eru prófanir á sambærilegu bensíni Shell erlendis sem oftast kallast OPTIMAX en það er reyndar ekki eins orkuríkt og V-Power okkar íslendinga.

Á eftirfarandi vefsíðu var þetta prófað á Impreza turbo, við dynomælingu var 3-7% munur á hestöflum út í hjól og 10 NM hærra tog yfir kúrfuna ásamt betri togkúrfu og færri “flat spots”. Menn fundu fyrir mun þegar þeir fóru aftur yfir á venjulegt bensín. Við erum því hér að tala um hestafla aukningu á Impreza frá 227-235 hö, en mestu munar sennilega um togið og heildarviðbragð bílsins.

http://www.autospeed.com.au/cms/article.htm l?&A=0429


Á eftirfarandi vefsíðu kom þetta í ljós “V-Power managed to clean off more than 66 per cent of the deposits, while its nearest competitor got rid of 45 per cent. Another fuel washed about 23 per cent of the deposits off.” Og að sama skapi er talað um minnsta kosti 2% aukningu í afli frá næst besta eldsneytinu sem líka er frá Shell, en almenn talað um 4% aflaukningu. Á BMW M5 erum við því að tala um 15 hestöfl og oft munar um minna.

http://motoring.asiaone.com.sg/comments/comme nts20021116_001.html