<p>Það er ekki hægt að kalla þetta reynsluakstur og ekki grein um ákveðna
bílategund en kannski má segja að þetta sé ,,road test“ í einhverjum skilningi
þess orðs.</p>

<p>Í dag (miðvikudag) er vika síðan ég fékk <a href=”http://www.pjus.is/
trigger/bilar/s60“>nýja bílinn minn</a> afhentan og komin dálítil reynsla á
hvernig hann virkar. Ég get nú ekki sagt að ég hafi keyrt neitt mikið meira þessa
viku en meðalvikuna fyrir utan eina ferð í Hveragerði, ætli þetta séu ekki um
280km með öllu.</p>

<p>Þrátt fyrir að ég hafi verið mjög sáttur við þann <a href=”http://www.pjus.is/
trigger/bilar/s40“>bíl</a> sem ég var á áður verð ég að viðurkenna að þessi
tekur honum fram að öllu leyti. Báðir eru mjög þægilegir en S60 er umtalsvert
skemmtilegri í akstri. Þessi virkar mjög kvikur og nákvæmur í stýri og ég hef
fundið mjög lítið fyrir því að hann leiti í hjólför og við mikla inngjöf tekur furðu
lítið í eins og algengt er á framhjóladrifnum bílum. Gírskipting er að sama skapi
nákvæm og mjög sportleg. Það er þó alveg augljóst að sjálfskipting hentar
þessum bíl mjög vel og þeir sem ég hef prófað á undan þessum voru með fimm
þrepa sjálfskiptingu sem kom mjög vel út. Þó varð sérviska mín til þess að ekki
kom annað til greina en beinskiptur bíll.</p>

<p>Allt umhverfi ökumanns er mjög vel hannað og öll stjórntæki eru við
höndina. Þó má segja að það sem er í bílstjórahurðinni (rúður, læsing og speglar)
væri betur komið í miðjustokknum. Stýringar fyrir síma, hljómtæki og hraðastilli
sem eru í stýrinu eru líka á réttum stað en ég þarf aðeins að temja mér önnur
handtök í miklum og kröppum beygjum til að reka puttana ekki í, það hefur þó
ekki komið að sök ennþá. Framsætin eru með sportlegu lagi og ljósa leðrið (Oak)
hitnar ekkert svo rosalega í sólinni og verður ekki óþægilegt að sitja í því þetta
litla sem ég hef farið í ,,langkeyrslum”. Loftkælingin hjálpar til ef bíllinn er búinn
að standa lengi í sól og hefur reynt aðeins á það undanfarið. Aftursætin eru ágæt
líka, eins langt og þau ná. Það verður að viðurkennast að það er ekkert rosalega
mikið pláss aftur í þessum bíl, þá sérstaklega er höfuðrými lítið fyrir þá sem eru
hærri en 180cm á hæð. Fótarýmið virðist vera mjög lítið en það er tekið aðeins úr
bakinu á framsætinu til að búa til aukapláss, sem kemur sér mjög vel. Ég lendi
ekki í neinum þrengslum þó ég sitji fyrir aftan sætið í þeirri stöðu sem ég hef það
í þegar ég er að keyra. </p>

<p>Geymslupláss er ekkert svo mikið, ágætt hanskahólf, tvö hólf í miðjustokk,
vasar í framhurðum og svo auðvitað ágætt farangursrými. Síminn í mælaborðinu
tekur pláss sem annars væri glasahaldari. Ég sakna þess reyndar að hafa ekki nein
hólf eða net í skottinu til að halda við smáhluti (vaskaskinn, hreinsidót, …) og
hefði ég alveg verið til í að sjá eins og eitt öryggisbelti eins og var í S40 bílnum.
Sniðugur möguleiki er að geta fellt niður aftursætin með tökkum sem eru aftast í
skottinu og þurfa þá ekki að vera að príla inn í bílinn og losa sætin þeim megin
frá. </p>

<p>Í akstri er þessi bíll mjög þýður og ef maður er ekki mjög þungur á
bensíngjöfinni er þetta hinn ágætasti ,,krúser“. Hins vegar ef maður byrjar að ýta
henni niður er dálítið erfitt að hætta. Hljóðeinangrun í þessum bíl er betri í
þessum bíl en öðrum bílum sem ég hef keyrt og veldur það dálítlum vandræðum
fyrir mig þar sem ég skipti um gír eftir vélarhljóði frekar en að líta stöðugt á
snúningshraðamælinn. Það olli því að ég fór nokkrum sinnum upp í rauða strikið í
fyrsta og öðrum gír. Rauða strikið á þessari vél (2.0T) er rétt um 6000rpm sem er
frekar lágt. Ef vélin er köld slær hann sér einfaldlega út við rauða strikið. Hins
vegar komst ég að því að þegar vélin er orðin heit þá er hægt að fara talsvert
hærra í snúningi. Ég geri ráð fyrir að þetta sé gert viljandi til að hlífa vélinni
meðan hún er köld en óneitanlega skemmtilegt að vita af þessum auka
snúningum þegar þeir eru til staðar. Þessi bill verður þó seint kallaður mikið
spyrnutæki, enda rúm 1.500kg og aðeins 180 hestöfl. Túrbínan kemur ekki inn
alveg um leið en þegar hún gerir það er átakið mjög jafnt og ólíkt mörgum bílum
sem eru með hærri þrýsting á túrbínunni truflar það mig ekkert þegar hún byrjar
að virka.</p>

<p>Miðað við þann lagaramma og aðstæður sem eru hér á Íslandi er lítið hægt að
láta reyna á aksturseiginleika bíla. Það litla sem ég hef getað prófað hefur reynst
mjög ánægjulegt. Undirstýring er vart greinanleg og er það örugglega að þakka
tölvukerfum sem sjá um að halda jafnvægi og stefnu á bílnum. Fjöðrunin lætur
ekkert undan og þó hratt sé ekið í beygjum verður maður mjög lítið var við velting
á yfirbyggingunni. Spólvörnina er hægt að taka úr sambandi að hluta til en ég hef
ekki séð ástæðu til þess þar sem hún virðist taka mjög skynsamlega inn í. Ólíkt
því sem er í mörgum öðrum bílum þá kæfir hún ekki vinnsluna þegar grip
minnkar heldur virðist vinna bæði á bremsunum og inngjöfinni til að bæta gripið
án þess að pirra ökumanninn. Það væri þó gaman að geta slökkt á þessu öllu og
fengið að kynnast bílnum ,,hráum” en það eru ekki neinar aðstæður til þess hér á
landi. Þessi ,,stoðkerfi“ eru því kærkomin og flestir ökumönnum ættu undir
flestum kringumstæðum ekki einu sinni að taka eftir þeim. </p>

<p>Það er mjög ánægjulegt að keyra og eiga þennan bíl. Hann er mjög góð
blanda af fjölskyldubíl, lúxusbíl og með smá sportbílatakta. Það er hins vegar
grimm samkeppni á þessum ,,sport-sedan” markaði en miðað við mínar þarfir,
kröfur og þá peninga sem ég var tilbúinn til að eyða þá er þetta að mínu mati
besti kosturinn. BMW sem kostar sama pening hafði ekki sama afl né staðalbúnað.
Honda Accord sem kostaði minna fórnaði of miklu, fyrir minn smekk, af
þægindunum fyrir þá sportlegu eiginlega sem voru þó til staðar í þeim bíl. Saab
9-3 sem ég gat þó aldrei prófað er mjög spennandi kostur en eins og C-klassinn
frá Benz er hann aðeins of dýr. </p>

<p>Ég er því að vonum mjög ánægður með kaupin og á ekki von á öðru en þessi
bíll eigi eftir að reynast mér vel næstu árin.</p