Ég sakna... Ég er ábyggilega ekki einn um að hugsa aftur í tímann og rifja upp hvað sumt var betra einu sinni. Jafnvel ekki endilegra betra, en sú staðreynd að sumir hlutir renna sitt skeið gerir heiminn einhvernveginn litlausari. Fæst er nú grafið og gleymt þótt það sé ekki stundað eða framleitt lengur, en að það tilheyri fortíðinni getur verið sorglegt.

Einhvern vegin byrjaði að koma upp í huga mér listi yfir tíu hluti sem ég sakna. Það er í raun engin regla á honum, þarna geta verið bíltegundir einhvers vegna, eða eitthvað einfaldara. Þetta er eiginlega ekkert eins og ég áætlaði að þetta yrði, miklu meira nöldur en til stóð og miklu meiri texti til að reyna að útskýra hvað ég er að fara. Ég vona samt að þið hafið gaman að og ef ykkur finnst eitthvað vanta komið þá endilega með ykkar eigin útgáfu af listanum.

Ég sakna…

… Citroën. Ég veit að það er fullt af bílum sem heita Citroën, en minna þeir eitthvað á DS, SM og CX? Ég vil að Citroën byrji aftur að framleiða bíla fyrir brjálaða vísindamenn eins og Zorglúbb.

… Lamborghini GT. Ok, bara GT bílar yfirleitt. Það verður ekki of mikið af glæsilegum GT bílum. Ég man bara eftir einum frá Ítalíu í dag sem er í þessu kalíberi og það er Ferrari 456M GT. Glæsilegur bíll, en í eina tíð gerði Lamborghini betri GT bíla en Ferrari. Í dag er Lamborghini algerlega í brjáluðu ofurbílunum og fáir gera það betur. Er ekki kominn tími á að endurvekja Línuna sem dó með Lamborghini Jarama? Mig langar í nútíma 400GT eða Islero. Og fyrst þið eruð að þessu þá vantar líka bíl á borð við Espada. Reyndar væri tilvalið að byrja á nútíma Espada, ég man ekki eftir neinum alvöru ofurbíl með ÞÆGILEGUM sætum fyrir 4, fínt farangursrými, V12 vél undir húddinu og geimaldarhönnun. Og þegar ég segi ofurbíl er ég að tala um sportbíl og þeir hafa tvær hurðar. Og þó… Ég gæti ýmindað mér 2. kynslóð Espada sem bíl ekki ólíkan Mazda RX-8 nema með V12 vél!

… Jensen. Það verður aftur bara ekki til of mikið af alvöru GT bílum! Jensen byrjaði aftur og óð beint í markaðinn sem virtist lofa góðu: blæjubílamarkaðinn. Sóun á merkinu, bíllinn var góður en þeir fóru samt á hausinn. Nýr Interceptor ætti að hafa ameríska V8, ítalska útlitshönnun, breska smíði og voldugt mælaborð til að maður fái millilandaþotufílinginn. Ekki herma eftir gamla útlitinu heldur formúlunni, veglegur og glæsilegur Grand Tourer með sérsmíðar fíling á innréttingum og skothelda ameríska V8 með stærra rúmtaki en skuttogari og sem hljómar eins og Gunnar Birgisson á spítti. Og bæta við áreiðanleika, það er betra að taka bara það góða úr gömlu bílunum…

… Porsche þegar þeir buðu upp á meira en eina bíltegund. Ok, þið segið að þeir hafi bæði Boxster og 911 og ég segi að þarna sé klassískt dæmi um “platform engineering” - 911 notaði framhlutann af Boxster og hvort sem er eru þeir báðir tveggja sæta (hver fær sér sæti aftur í 911?) og með flata sexu aftur í. Carrera GT? Rándýrt leiktæki til að sýna hvað Porshce getur. Cayenne? Dýrt leiktæki til að sýna hvað Porsche getur og fylla bankareikningana. Horfumst í augun við það, 928 og 944 höfðu nánast engan svip með 911, en mynduðu mjög heilstæða fjölskyldu bifreiða. Cayenne hefði strax verið betri ef þeir hefðu ekki reynt að láta hann líta út eins og 911 “Avant”. Mig langar í arftaka 968 og jafnvel 928. Haldiði að úrvalið frá Porsche yrði ekki meira spennandi ef þeir myndu fara eftir þessu?

… Range Rover jeppa. Muniði þegar Range Rover var jeppi? Upprunalegi lúxusjeppinn og samt hefði maður þorað að fara með hann út af vegi. Bílar hafa breyst svo mikið að gamall Range Rover er nánast landbúnaðartæki. Hvað með það, mér finnst klassískur Range Rover hafa klassann sem maður fær út úr því að ferðast með Benz fólksbíl. Minna dót, meiri getu takk!

… Smábíla. Muniði þegar smábílar voru litlir? Ekki svo háir að fermingarstelpur gátu ekki séð yfir þakið og þyngdin var talin í þriggja stafa tölu? Svo komu einhverjir þýskir verkfræðingar í hvírum sloppum og tróðu 1600 vél með beinni innspýtingu í VW Golf. Seinna tróðu einhverjir brjálaðir frakkar 1900 vél í Peugot 205 og loks frændur þeirra hjá Renault sem settu 2000 vél í Clio! Ef maður hefur ekki gaman af drápstólum er maður orðinn leiður á lífinu…

… Morris Marina hurðarhandföng. Ég veit ekki hvort einhver man eftir þeim, en Morris Marina þótti nú ekki merkilegur bíll. Hurðarhandföngin á honum sáust hins vegar á mörgum merkisfarartækjum. Muniði eftir hurðarhandföngunum á gömlu 4ra dyra Range Rover? Þau voru af Morris Marina. Lotus Esprit? Akkúrat! Svei mér þá ef þau voru ekki líka á…

… Lotus Excel. Lotus er svona eins og Porsche í dag: one trick pony. Allir bílarnir eru útgáfa af Elise, snilldarbíll sem hann er, en mann langar kannski til að njóta Lotus reynslunnar á annan máta en í hráum sportara sem er hægt að leggja á undirskál. Esprit er að líða undir lok, tímabundið vonandi, enda kominn vel til ára sinna. Ok, ég veit að Lotus stendur illa fjárhagslega, en það hafa þeir gert næstum alltaf, og samt komu ný og ný módel. Það er bara orðið svo miklu erfiðara í dag með allar reglurnar sem eru í gangi. Það væri samt gaman að sjá Lotus búa til 4 sæta sportbíl eins og Excel var, nokkurs konar 944 frá Lotus.

… Amerískir bílar. Ég meina, hverjum finnst Chrysler Neon vera sértaklega amerískur bíll? Fyrir 40 árum bjuggu Bandaríkjamenn til sérstaka bíla. Ok, þeir voru örugglega ekki fáguðustu bílar í heimi upp til hópa og hreinir aksturseiginleikar voru kannski ekki stærsti kostur þeirra. En hverjum er ekki sama þegar þú ert að líða afram á glæsilegu töfrateppi með lágrymjandi V8 að skila aflinu í gegnum þriggja þrepa sjálfskiptingu með gírstöngina í stýrinu? Það kom glettilega mikið af bílum sem höfðu einfalt og glæsilegt útlit frá USA á þessum erfiðu árum fyrir bandarískt þjóðfélag.
Buick Riviera, Lincoln Continental, Oldsmobile Toronado, Chevrolet Corvair, Dodge Charger, Chevrolet Camaro. Ok, Corvair er kannski ekki dæmigerður “Yank Tank” en sýnir þeirra túlkun á utanaðkomandi hugmyndum sem var mun áhugaverðari en það sem síðar kom. Hinir eru flestir (Charger og Camaro eru sér á báti) veglegir flekar með einföldu en séramerísku útliti, til þess hannaðir að lulla um borgir, krúsa beina þjóðvegi og kannski þegar á þurfti að halda að hræða litla breska sportbíla af veginum. Við vitum alveg að þótt MGB hefði verið skemmtilegri á hlykkjóttum vegi hefur hann örugglega ekki haft mikið veggrip. Örugglega ekki það mikið að Buick Riviera hefði ekki getað pínt hann rækilega í hröðum beygjum.
Ford er að reyna að nota arfleifðina og gengur einna best af “the big three” í því, en það er ekki bara það sama og að menn vestra myndu hrista af sér SUV slenið og fara að búa til frumlega og flotta bíla sem eru öðruvísi en það sem menn gera í gamla heiminum.

… Jaguar línu sexa. Þið vitið að þetta er rétt, svona eins og bjór og saltkringlur, Jaguar og sex strokka línuvélar. Helst 4.2 lítra. Ég er viss um að ég myndi fella tár ef Jaguar myndi búa til bæði fallegan eðalvagn og hráan sportbíl með línu sexu.

Og þannig líkur því. En þá opnast bara ný hugmynd, hlutir sem mega alls ekki hætta að vera til. Kannski seinna, en efst á þeim lista held ég samt að Bristol fengi að trjóna ásamt Caterham…