BMW E21 323i Jæja… Nú er maður kominn á annan BMW og hann ekki af verri taginu. Þar sem ég skrifaði smá greinarstúf um minn fyrr bíl (BMW M5) þá hendi ég auðvitað greinakorni inn um þennan líka enda sömuleiðis merkilegur bíll!

Fyrst mun ég fjalla almennt um E21 323i og svo síðan um minn eigin bíl og það sem búið er að gera fyrir hann.

E21 kom fyrst á markað 1975 og þá strax var ljóst að öflugasti bíllinn, 320i, gat ekki leyst af hólmi hinn geysi vinsæla og sportlega 2002Tii. Það var ekki fyrr en sex trokka 320 kom á markað með fjögurra hólfa blöndung að verðugur arftaki var kominn. Geysilega skemmtilegt tæki skylst mér.

323i var settur á markað 1977 og kom með K-jetronic innspýtingu sem var aðeins notuð í mjög dýra bíla eins og Porsche og Benz. Diskabremsur allan hringinn voru standard á 323i ásamt tveimur púststútum sitthvoru megin. 1979 var E21 línan tekin í smá yfirhalningu, aðalleg á boddíi og innréttingu.

Minn bíll er semsagt BMW 323i fyrst skráður 11.11.1981. Í bílnum er ekki vökvastýri og búið er að setja fimm gíra kassa í hann og það er engin rafmagns lúxus!
Bíllinn hefur ýmist verið í eigu Dalvíkinga eða Akureyringa alla tíð.

Vélin var tekinn upp fyrir 30 þúsund kílómetrum síðan og bíllinn heilsprautaður, einnig voru bremsur gerðar upp, skipt um gorma og dempara og ýmsa vélar og boddíhluti sem þörfnuðust endurnýjunar. Einnig var bíllinn olíuryðvarinn í fyrra.

Að framan eru H&R gormar sem lækka bílinn um 3 cm. Og að aftan eru stillanlegir Koni-sport demparar. Að framan er “strut bar” frá Hartge úr áli og að aftan mun fara strut bar úr stáli. Vonandi um þarnæstu helgi.

Í bílnum eru mjög góðar græjur. Pioneer frá A til Ö. Góður spilari með fjarstýringu. 260 w hátalarar afturí og 150-200 w frammí með aðskildum tweeterum sem staðsettir eru á spaldinu í hurðinni fyrir innan hliðarspeglana. Svo eru tveir magnarar, 2x140, líka hægt að hafa 4x60, fyrir afturhátalara og 2x100 fyrir fram. Klassa sánd í þessu…. ekkert óraunverulegt bassabúmm!

Næst á dagskrá er að skipta um kúplingu og rocker arma í honum og svo væri voðalega gaman að kaupa undir hann 15“ Alpina felgur og kannaski heitann ás ef maður væri ríkur.

Annars er það skemmtilega við þessa bíla að það er gífurlegt framboð af varahlutum - nýjum og notuðum í þá. T.d. get ég fengið dog leg gírkassa og ”ex race" vél saman fyrir 150 þúsund krónur, svo bætir maður við LSD og felgunum og þá er þetta 250 þúsund og bíllinn orðin HÖRKU græja!

Það sem skiptir svo kannski mestu máli þegar maður er nýkominn af M5 er að þessi bíll hefur hreint ótrúlega skemmtilega aksturseiginleika. Hann getur verið varasamur þar sem hann er afskaplega léttur að aftan og vill endilega vera með rassaköst þegar maður sjálfur er kannski að tækla góða beygju. Þetta lærist nú samt sem áður og maður fær nú líka góðann fyrirvara enda verður maður mjög næmur á þennan bíl og það á skömmum tíma.
Hann á það líka til að undirstýra að framan ef hann skyndilega léttist þar en þar sem maður hefur svo ofboðslega góða tilfinningu fyrir öllu sem er að gerast (enda ekkert vökvastýri) þá nær maður alltaf að bregast við tímanlega.
Þessi bíll er líkastur því að keyra Go-kart af öllum bílum sem ég hef ekið.

Það kemur ekki síður á óvart að aka svona bíl á miklum hraða og finna hve stöðugur hann er og hljóðlátur og alveg ótrúlegt að ekki sé neitt vindgnauð í þetta gamalli hönnun!

Þessi bíll skýtur sterkari stoðum undir þá skoðun mína að gamlir bílar séu bara meira spennandi og það er í raun lítil áhætta að eiga gamla bíla miðað við þá nýju.

Flestir hér kannast við bilanir í nýjum bílum og svo eru afföll svakaleg!

Fyrir mína parta vil ég frekar safna gömlum og góðum bílum!