Hliðardrif og dagur 1 Jæja, ég asnaðist til að ákveða að skipta um þetta blessaða millidrif í Nissan Sunny 4x4 druslunni minni, ákvörðun sem ég á sennilega eftir að sjá eftir alla mína ævi. Þessi saga verður hugsuð sem víti ykkur til varnaðar eða hvað sem fullorðna fólkið segir.

Ég byrjaði á því að útvega mér aðstöðu, það tókst með herkjum að plata frænda minn til að lána mér skúrinn undir þetta. Svo kom að búkkunum, einn fann ég í Garðabæ og 3 í Keflavík þannig að það reddaðist líka. Hliðardrifið fékk ég svo í Kópavogi.

Þar sem allt var reddí, þá var komið að því að tjakka bílinn upp, hafði þennan frábæra hjólatjakk en hann brotnaði áður en ég gat sett sveifina á hann þannig að ég neyddist til að nota tjakkinn sem fylgdi bílnum. Ég tjakkaði bílinn eins hátt upp og tjakkurinn leyfði, bara til að komast að því að búkkinn, í neðstu stöðu, var of hár til að komast undir drusluna. Þannig að ég neyddist til að setja bílinn aftur niður og pæla betur í því hvernig ég kæmi honum upp á búkkana. Fann svo flottar hellur hjá nágranna frændans sem var greinilega að fara að helluleggja innkeyrsluna sína þannig að ég stal nokkrum frá honum, setti undir bíllinn, og tjakkinn ofan á þær. Svo tjakkaði ég aftur upp eins hátt og ég gat og jú, búkkinn komst undir. Þannig að auðvitað gerði ég það sama hjá öllum fjórum dekkjunum. Reyndar situr bíllinn bara á þremur búkkum en ég nennti ekkert að spá í því, rammskakkur og sætur bíll eins og eigandinn.

Þá ætlaði snillingurinn ég að rífa gamla drifið í burtu, skoðaði og spekúleraði mikið í hvaða bolta ég þurfti að losa. Fann þá alla á endanum held ég, og ákvað að fyrsta skrefið væri að losa drifskaftið, sem gengur í afturhjólin, frá fyrst. Það er fest á með fjórum 12mm boltum þannig að ég var viss um að það væri ekkert mál. En nei, auðvitað þurfti helv**** drifskaptið að snúast með átakinu við að losa boltana þannig að þetta reyndist ekkert sérstaklega auðvelt. Ég gerði allt sem mér datt í hug að reyna, setti bílinn í handbremsu, setti hann í gír, reyndi að festa drifskaptið með því að setja skrjúfjárn í eitthvað gat en ekkert gekk.

Eftir tvo tíma þá losnar fyrsti boltinn, af einhverjum yfirnáttúrulegum ástæðum, og eftir það gekk það eins og í sögu að losa þessa þrjá bolta sem voru eftir, tók ekki nema um einn og hálfan tíma. Þegar ég tók síðasta boltann þá gerði ég það með svakalegum tilþrifum, reif boltann úr og henti sjálfum mér í burtu til að fá ekki drifskaptið í hausinn þegar það dytti niður, enda hef ég ekki hugmynd um hversu þungt þetta blessaða rör er. Þetta var óþarfa orkubrennsla þar sem skaptið kom bara alls ekkert niður. Ég skildi þetta engann veginn, það var ekkert sem hélt þessu uppi að mínu mati, þannig að ég byrjaði að toga aðeins í þetta, hanga í því, berja það með hamri, berja það með hamri og meitli, berja þetta með felgulykli, sparkaði í þetta og það bara hreyfðist ekkert þetta drasl.

En ég er náttúrulega svo gáfaður að mér datt í hug að skríða upp í bílinn, setja í gang, svo í gír og þenja rækilega. Það breytti engu. Þá datt mér í huga að gera það nákvæmlega sama nema ég steig á bremsunni á meðan. Druslan rak upp hræðilegt væl svo það skar í eyrun, það fór ekki milli mála að ég hafði eitthvað meitt greyið. Ég kíkti undir bílinn og varð snaróður þegar ég sá hvað hafði gerst. Ekki neitt! Bara nákvæmlega ekki neitt!

Nú ætlaði ég að gefast upp, skrúfa þessa bolta aftur í og koma bílnum á verkstæði. En nei, ekki hægt, götin stemmdu ekki lengur, þess vegna vældi greyið, skaptið hafði snúist hægar en drifið. Klukkutími fór í að reyna að snúa skaptinu rétt en það gekk auðvitað ekki heldur.

Ég fór þá til frændans og sagði honum hvað gerðist, hann hló sig auðvitað máttlausan af mér og sagði mér svo að skaptið væri líklega á 2 til 3 liðum og það ættu að vera festingar við hvern lið og ég þyrfti að losa þær, þá væri þetta ekkert mál. Það var auðvitað rétt.

Nú var ég gríðarlega stoltur af dagsverkinu þannig að ég ætlaði að láta þetta gott heita, fannst þetta líka býsna góð afköst, setja bílinn á búkka og losa drifskapt, tók ekki nema 12 og hálfan tíma. Ég er að hugsa um að leggja þetta fyrir mig.