Jaguar XJRs á Íslandi meira að segja! Það hefur nú bara ekkert verið að gerast hér á huga lengi þannig að ég ákvað að skrifa þessa grein um helgina og senda hana inn núna!

Ég er nýfluttur og eins og kannski einhverjir vita þá er fjölskyldubíllinn minn til sölu af þeim ástæðum (M5) en það fær mann oft til að líta betur í kringum sig og horfa um farinn veg og líta til framtíðar.

Á mínum gamla stað var margt merkilegra bíla í götunni minni eða á leið í hana, m.a. má nefna Impreza WRX, Octavia RS og Porsche 911 (964) og svo náttúrulega minn M5. Ég var því nokkuð stoltur af bílunum í þessari götu þó ég ætti þá ekki alla.

Á núverandi stað er ekki mikið af merkielgum bílum enda er ég fluttur í 101 þar sem áherslur eru á aðra hluti (bílar komast t.d. ekki vel fyrir í götunum) en samt er í næstu götu fyrir ofan mig mjög merkilegur bíll en það er Jaguar XJRs!

Eftir því sem ég kemst næst eru þetta þræl sjaldgæfir bílar og mjög dýrir, ég fann einn á mobile.de þann ódýrasta á 15 þús evrur sem myndi leggjast á hingað kominn á sirka 2.5 milljónir fyrir 1990 árgerðina (sömu árgerð og minn eðal M5 sem er til sölu á “bara” 1300 þús ;-)

Á sínum tíma var þessi 6 lítra 12 strokka Jaguar sennilega einn af hraðskreiðustu framleiðslubílum Jaguar. Hann skilaði 330 hestöflum og hvorki meira né minna en 495 Newtonmetrum af togi, þetta má vel bera saman við minn fjölskyldubíl en þar eru tölurnar 315 hestöfl en togið “bara” 360 NM. Hröðunin var þó ekkert ægileg miðað við þessar tölur en bíllinn átti að skila sér frá 0-100 kmh á 6.8 sekúndum og á M5 frekar auðvelt með að slá þær tölur út. Fókusinn er líka allt annar á XJRs – þar er fókusinn á fullkomin hægindi og nægilegt afl án áreynslu.

Bílarnir voru allir búnir þriggja gíra sjálfskiptingu sem hefur eflaust þurft að vinna aðeins í því að koma þessum 1825 kílóa Coupé bíl áfram.

Eftir því sem ég best veit voru aðeins framleiddir um 1000 svona bílar og þar af var helmingur í Tom Walkinshaw útgáfu.