BMW M1 M1 var hugarfóstur Jochen nokkurs Neerspach, yfirmanns Motorsport (M) deildar BMW, sem átti að vera kappakstursbíll sem einnig var götuhæfur ásamt því að vera hannaður og smíðaður á Ítalíu. Lamborghini voru fyrst fengnir í verkið en sökum fjárhagserfiðleika fyrirtækisins þá lenti verkefnið hjá Baur í Þýskalandi sem smíðuðu bæði götu og kappakstursútgáfu bílsins. Merkilegt nokk þá tapaði BMW á hverju einasta eintaki bílsins sem var hannaður af Giorgetto Giugiaro en eintökin urðu ekki nema 454 talsins á árunum 1978-81.

Merkilegt er að M1 var og er ótrúlegt aksturstæki og ef tímasetning og verð hefðu verið betri þá hefði bíllinn eflaust verið framleiddur í fjölda ára ásamt því að skáka Ítölum sem konungum ofurbílamarkaðsins.

Nú er M1 ekki líkur Ferrari Boxer eða Lamborghini Contach sem honum var ætlað að keppa við því fegurð og geta hans liggur ekki á yfirborðinu. Í dag er nokkuð ljóst að hönnun hans er tímalaus fegurð en á sínum tíma heillaði hann einfaldlega ekki eins og ítölsku stóðin auk þess sem hann hafði varla aflið heldur.

Þar sem ítölsku bílarnir höfðu 12 strokka sleggjur gegn 6 cyl línuvél M1 sem var byggð á vélinni úr 7-línunni og aflið varla sambærilegt, 277hö í M1 en 340 í Boxer og 375 í Contach, þá var ljóst að ást við fyrstu sýn var ekki málið hjá flestum.

Þeir fáu huguðu sem slógu til urðu þó ekki fyrir vonbrigðum því M1 reyndist vera frábær ofurbíll og vélin reyndist vera hin mesta snilld og fullfær um að henda bílnum í 100 km/klst á undir 6 sekúndum og á yfir 250 km/klst hraða. Vélin, sem var eins og ég sagði áður byggð á vél úr 7-línunni (úr 735 bílunum), var 24 ventla 3.5 lítra línu sexa sem skilaði 277hö við 6500rpm í stað 204 eins og í sjöunni ásamt 329Nm af togi við 5000 rpm. Seinna var vélin notuð íM5 og þrykkt mest í 340hö í síðasta E34 M5 en vélin var hönnuð til að þola rúm 1000hö!

Þó ítalarnir væru fullfærir um þetta og meira til þá vantaði þá það sem M1 hafði en það var áreiðanleiki og góð hönnun. M1 hafði það sem ítalarnir höfðu aldrei kynnst en það var kæling sem virkaði, rafkerfi sem hægt var að treysta á og gæðasmíði sem entist . Einnig var M1 jafnvægur í borgarumferð og á kappakstursbraut, og bauð því upp á daglegan akstur og notagildi sambærilegt Porsche 911 sem var auðvitað ekki eins spennandi…

Það er synd að BMW M1 skuli ekki hafa fengið þá virðingu sem honum bar fyrr en of seint og því er saga hans full stutt eða aðeins 3 ár 1978-81. Þó er flestum ljóst í dag að þar er á ferð einn merkilegast ofurbíll allra tíma sem enn í dag er eftirsótt leiktæki ásamt því að hrinda af stað framleiðslu M götubíla. Framleiddar voru nokkrar misöflugar keppnisútgáfur af bílnum, sú sverasta var með tveimur túrbínum og skilaði um 850hö. Þó náði M1 aldrei neinum frama í kappakstri sökum reglugerða og lagabreytinga í akstursíþróttum fyrr en komið var á fót sérstökum M1 kappakstri.

Að lokum nokkrar tölulegar staðreyndir:

Framleiddur á árunum: 1978-81
Fjöldi eintaka: 454

Lengd: 4360mm
Breidd: 1824mm
Hæð: 1140mm
Lengd milli hjóla: 2560mm
Þyngd: 1322kg

Rúmtak: 3453cc
Afl: 277hö við 6500rpm
Tog: 329Nm við 5000rpm
Fjöldi ventla: 24
Strokkar: 6

0-100 km/h: 5.6 sek
Hámarkshraði: 261 km/h

Heimildir komu héðan og þaðan en ég mæli helst með heimasíðunni www.bmw-m1-club.de

Allar ábendingar um villur og aukin fróðleik eru vel þegnar.
I WAS BORN FOR DYING!