Markmiðin mín Það eru margir heppilegri tímar til að fá alvarlegt bíladellukast en einmitt yfir prófin. En það er nú svona með bíladelluna að hún kemur ekki alltaf heim og saman við það sem hentar manni. Þannig eru til dæmis bílarnir sem ég er upptekinn við að vega og meta í augnablikinu ekki beinlínis á verðbili sem passar fjárhag mínum. Hvað um það, gólfið er hulið bílablöðum og mér líður eins og 8 ára krakka inni í heimsins bestu kúluísbúð að stara á allar bragðtegundirnar. Peningalaus.

Það er einmitt eins og bragðtegundirnar séu endalausar þegar kemur að öllum bílunum sem mann langar í. Augljóslega tekst manni aldrei að eiga, eða bara keyra, alla þá bíla sem maður ímyndar sér að myndu hrífa mann mest, það er sorgleg staðreynd.

Þess vegna datt mér í hug að finna hvaða bíla maður yrði að eiga. Ágæt hugmynd, en þegar ég byrjaði að velta þessu fyrir mér varð þetta mér snarlega ofviða. Greinilegt að ég þarf að velja mér skýr MARKMIÐ!

Þetta reyndist öllu auðveldara, svo mér datt í hug að skrifa þessa grein. Þannig að nú ætla ég að reyna að setja niður nokkur ákveðin markmið um hvað ég vil gera til að fullnægja bíladellunni. Mín hugmynd um þau er að þau séu framkvæmanleg, mig langar í McLaren F1, en það er ólíklegra en að ég verði fyrir eldingu að ég eignist þannig.

Þannig að hér eru markmiðin sem ég ætla mér að ná til að geta verið sáttur í minni bíladellu. Mér þætti líka mjög gaman að sjá aðra tjá sig um sín markmið!

Þessi númer eru bara til aðgreiningar, ég held ég gæti varla raðað þessu í sæti…



Markmið 1: Eignast Porsche 911.
Ekki svo fjarstæðukennt, mig langar einna mest í eldri gerðir og í dag eru síðustu módel af Carrera 3,2 á um 3 millur og verðið á ekki eftir að breytast mikið.


Markmið 2: Eignast Lotus.
Ég VERÐ að eiga bíl með Lotus merkinu á! Reyndar myndi ég sætta mig við Opel Speedster, það er ekkert annað en Lotus sem Opel selur undir sínum merkjum. Samt, ég vil fá bíl með græna og gula merkinu…


Markmið 3: Fara á Le Mans kappaksturinn.
Gleymdu Formúla 1, Le Mans er ALVÖRU kappakstur og í 24 tíma! Mig langar líka mikið að koma til S-Frakklands og það er fullkomið að fara til Le Mans í leiðinni. Maður þambar öl, skoðar bílastæðin hjá bretunum, gistir í tjaldi, fer ekki í stúkur heldur þrammar í kringum girðinguna með stiga á öxlinni til að sjá kappaksturinn þar sem actionið er! Bílaveisla fóðruð bensíni og bjór.


Markmið 4: Track day.
Fara á track day í Bretlandi þar sem maður fær að prófa topp sportbíla undir tilsögn atvinnuökuþóra á kappakstursbraut. 'Nuff said!


Markmið 5: Keyra Ferrari.
Nei, ég á örugglega aldrei eftir að eignast Ferrari en ég verð að fá að prófa. Eða a.m.k. fá að sitja í. Einn væri varla nóg, en maður fær varla að velja úr tækifærunum. Það væri samt yndislegt að kynnast bæði nýjum og gömlum. Af nýjum væri F355 Berlinetta líklega efst á blaði og af þeim gömlu? Úff, gerumst ekki of bjartsýnir, það er nógu ólíklegt að fá far í Ferrari 365GTB/4 Daytona… Reyndar er ég eiginlega meira Lamborghini maður, en ég yrði alveg sáttur bara við að standa hjá Diablo og anda að mér gufunum…


Markmið 6: Eiga breskan bíl.
Þá meina ég helst annan en Lotus. Ég er að hugsa um eitthvað hefðbundnara eins og Jaguar XJ6. TVR verður varla kallaður hefbundinn, en Griffith heldur samt á lofti öllum hefðbundnu gildunum. Ah, einn væri varla nóg… Ég myndi reyndar alveg sætta mig við að fá að koma mínum kámugu fingrum á Bentley, ekki til eignar einu sinni, bara til að skoða og anda að mér ilminum. Að fá að kippa í turbo bíl væri næstum of gott!


Markmið 7: Keyra Nürnborgring-Nordschleife.
Magnaðasta kappakstursbraut í heimi og best af öllu væri að keyra hana á frábærum sportbíl sem maður á sjálfur.

Markmið 8: Keyra alvöru léttvigtarbíl.
Þá meina ég eitthvað vel undir tonninu, Lotus Elise eða helst Caterham. Örugglega óviðjafnanleg upplifun!


Ég held að þessi átta endist mér örugglega og kannski vel það. Það liggur við að ég bæti við því áttunda, að eiga Citroën, en það væri bara til að ég myndi bíta á jaxlinn næst þegar ég sé alvöru teppi til sölu á klink. Auðvitað myndi ég enda á hausnum og þá get ég ekki uppfyllt hin ;)

Kosturinn er hins vegar sá að maður ætti að geta flettað mörg markmiðanna saman. Maður kemur bara við á Nürburgring þegar maður er búinn að versla sér Porkerinn, svona á leiðinni í Norrænu. Svo fær maður að taka í Ferrari og Lambo á track day…

Endilega segið svo frá hvað þið viljið gera, jafnvel þótt þið hafið ekki nennt að lesa draumórana mína ;)