Hvað á þetta að þýða!

Ert þú einn af þeim sem skilur ekki tungumál áhugamanna um ameríska bíla? Ert þú sá sem kinkar kolli en skilur ekki neitt? Það er ekkert skrýtið því mörg af þessum orðum virðast ekkert eiga við bíla. Menn geta haldið andlitinu meðan það er talað um vél, skiptingu og þessháttar og skilja að big block ætti að vera stærri en small block (þó það sé ekki alltaf svoleiðis). En þegar menn fara að rugla um mýs, rottur og fíla þá fer allt að hringsnúast í höfði hins venjulega manns (og hann telur sig þá kannski staddan í dýragarði). Ekki skánar það þegar indíánum og dómurum er bætt í flokkinn. En óttist ekki, eftir lestur þessarar greinar þá ættuð þið að vera einhverju vísari.


**********

Formúlur:

Kúbiktommur – Rúmtak amerískra véla var yfirleitt gefið upp í kúbiktommum (yfirleitt skammstafað cid eða ci). Mér finnst því við hæfi að byrja á að minnast á hvernig kúbiksentimetrar eru reiknaðir útfrá kúbiktommum. Með því að margfalda fjölda kúbiktomma með 16,387 þá fæst rúmtak vélarinnar í kúbiksentimetrum.

Dæmi: 350 ci x 16,387 cc/ci = 5.735 cc (sem jafngildir 5,7 lítrum).

**********

Bílar:

GTO er yfirleitt talinn vera fyrsti bíllinn af flokki “Musclecars”. 1964 módelið af GTO var gerður þannig að 389 ci (6375 cc) V8 vél var troðið ofan í Pontiac Tempest (á móti vilja yfirmanna GM). Síðan var bætt við ýmsum útlitslegum þáttum. Stafirnir GTO stóðu upphaflega fyrir “Gran Turisimo Omologato” þegar Ferrari notaði þá. Þegar Pontiac notaði stafina þýddu þeir “Ferrari skráði ekki nafnið svo við stálum því” ;-)

The Judge var útgáfa af Pontiac GTO sem kynnt var árið 1969. Bíllinn var framleiddur út árið 1971.

Indian er notað sem gælunafn yfir Pontiac bíla.

4-4-2 var fyrsta framlag Oldsmobile til musclecar flórunnar og kom hann fram árið 1965. Stafirnir stóðu fyrir fjögurra gíra skipting (seinna 400 ci þegar hægt var að fá bílana með sjálfskiptingu), fjögurra hólfa blöndungur og tvöfalt púst. Nafnið lifði fram á níunda áratuginn og á endanum var það grimmdarverk framið að nota það á framhjóladrifsbíl.

W-30 var öflugasti 4-4-2 bíllinn frá Oldsmobile.

GSX er merking sem mestu Muscle bílar Buick fengu. Bíllinn var byggður á Skylark og var með 455 ci (7459 cc) vél ofan í húddinu. Þessir bílar eru taldir með allra fallegustu Muscle bílunum.

Pace Car er venjulega tilvísun til bíla sem notaðir voru til að leiða Indianapolis 500.

Z/28 var upphaflega útgáfa af 1967 Camaro sem Chevrolet gerði til að vera gjaldgengur í SCCA Trans-Am keppninni. Fyrir utan DZ302 var Z/28 lægri og með diskabremsur á öllum fjórum hjólum (ásamt ýmsu öðru). Z/28 (og Z28) var notað í seinni kynslóðum en einungis bílar af fyrstu kynslóð voru hannaðir sérstaklega með keppni í huga.

Boss 302 var svar Ford manna við Z/28 en 69 og 70 Boss 302 Mustangar voru einnig gerðir með Trans-Am keppnina í huga.

Boss 351 tók við af Boss 302. 351 Boss var með 351 ci Cleveland vél

Boss 429 var sett ofan í sérstakar útgáfur af árgerðum 1969 og 1970 af Mustang. Það var gert til að hægt væri að nota þá í Nascar keppnum.

Mach 1 er aflmikil útgáfa af Mustang sem kom á markað árið 1969. Mach 1 kom standard með 351 ci (5752 cc) en margir keyptu hann með enn öflugri vél sem í boði var. Hún var 428 ci (7014 cc) cobra jet vél með Ram Air. Nafnið fór í geymslu í enda árs 1975 en rykið var dustað af því fyrir 2003 árgerðina.

Cobra var það nafn sem Carrol Shelby gaf sköpunarverki sínu. Hann tók AC Ace bíl og setti í hann Ford small block. Cobra nafnið féll síðar inn í línu Ford.

Super Bee var svar Dodge við Road Runner sem frændi þeirra Plymouth framleiddi og kom hann fram árið 1968. Nafnið er þannig til komið að bíllinn byggist á Coronet sem tilheyrir B-body.

Road Runner er í raun tveggja dyra Plymouth Beldevere með 383 ci (6276 cc) eða 440 ci (7210 cc) undir húddinu. Chrysler keypti leyfi til að nota Road Runner nafnið af Warner bræðrum og þeir gengu svo langt að hljóð flautunnar átti að vera sem líkast hljóðinu í þessari teiknimyndafígúru.

Charger Daytona var gerður þegar Charger 500 stóð sig ekki nógu vel í keppnum. Löngu nefi og stórum væng var bætt við (ásamt eflaust mörgu fleiru). Þeir voru aðeins framleiddir árið 1969 en náðu því að vera fyrsti bíllinn til að ná 200 mílna hraða (320 km/h) á Nascar brautinni.

SS var hengt á öflugustu bíla Chevrolet. SS stendur fyrir Super Sport og var sú merking fyrst notuð á Corvettu af 1957 árgerð. Jaguar hafði eitthvað notað SS fyrir stríð en árið 1945 hættu þeir því af augljósum ástæðum.

**********

Framleiðslulínur/undirvagnar:

A-body er flokkun hjá GM og Chrysler. Hjá GM var það notað yfir bíla af millistærð en þeir voru Buick (Skylark), Chevrolet (Chevelle), Oldsmobile (F-85 og Cutlass) og Pontiac LeMans. Hjá Chrysler féllu Plymouth (Valiant) og Dodge (Dart línan) undir þessa skilgreiningu.

B-body var notað af Chrysler yfir Dodge (Coronet og Charger) og Plymouth (Satellite og Road Runner).

F-body á nú ekki að þurfa að kynna. Camaro og Firebird falla undir þann flokk. Fyrstu tvær kynslóðir voru með undirvagn sem var mjög keimlíkur X-body (Chevrolet Nova og Pontiac Ventura).

**********

Bensínblöndun:

Tri-Power tengist aðallega Pontaic en er oft yfirfært á aðra bílaframleiðendur til að segja frá bensíndeilingar kerfi sem notast við þrjá tveggja hólfa blöndunga á einu milliheddi.

Dual Quads er hugtak fyrir kerfi sem notast við tvo fjögurra hólfa blöndunga á einu milliheddi (það eru átta hólf!!!)

Cross Ram er nafn á ákveðinni útgáfu af milliheddi. Milliheddið var gert fyrir tvo blöndunga og var hvor á sinni hlið. Þeir fóðruðu samt þá hlið sem var fjær þeim svo bensínblandan varð að fara nokkuð langa leið sem skilaði góðri blöndun lofts og bensíns.

Six-Pack/Six-Barrel er nafngift Chrysler á því þegar þrír tveggja hólfa blöndungar voru notaðir til að fæða vélina.

Holley er stór framleiðandi á hlutum í bíla. Hér áður voru þeir nær eingöngu þekktir fyrir blöndunga en á undanförnum árum hefur fyrirtækið keypt um fjöldann allan af minni fyrirtækjum og breikkað línu sína.

CFI stendur fyrir Cross Fire Injection og er það innspýting frá GM. Hún er í raun Twin Throttle body. Hún var barn síns tíma og ræður ekki við að fæða stóra vél. Þeir sem til þekkja kalla hana Cease Fire Injection

TBI stendur fyrir Throttle body Injection. Hún stendur sig ágætlega í að byggja upp tog (hentug í jeppa) en vita gagnslaus ofan á aflmikilli vél.

TPI sendur fyrir Tuned Port Injection. Hún er auðþekkt á pípunum sem liggja niður í milliheddið. TPI er mjög góð innspíting og hjálpar vélinni að byggja upp tog (vegna þessara löngu pípna). Hennar aðal galli er að óbreytt ræður hún ekki við að fæða vél sem snýst mikið meira en 4800-5200 snúninga. Sem betur fer er ekki mikið mál að ráða bót á því.

**********

Vélar:

Small block er notað yfir minni V8 vélar. Þó vél sé small block þá getur hún verið stór að rúmtaki og jafnvel stærri en minnstu big block vélar. Stærðin í þessu tilfelli fer í raun eftir stærðar blokkarinnar en ekki rúmtaki.

Big block er sbr. Hér fyrir ofan notað yfir stærri vélar hjá viðkomandi framleiðanda.

Mouse Motor er sletta fyrir small block frá Chevrolet. Minnsta “músin” frá Chevy er 283 ci (4638 cc) en sú stærsta er 400 ci (6555 cc). Stærsta small blokkin þeirra er því aðeins stærra en minnsta big block frá sama framleiðanda, en hún er 396 ci (6489 cc). Mest framleidda vél í heimi er Chevy small block en hún var notuð í báta, fólksbíla, pallbíla, sendibíla og jeppa. Þetta er mjög hentugt því hvaða small block sem er getur leyst aðra af hólmi. Því er án vandkvæða hægt að auka rúmtak verulega, svo framarlega að bíllin sé ekki þegar kominn með 400 :)

Rat Motor er sletta fyrir big block frá Chevrolet. Chevy big block fékkst frá 396 ci (6489 cc) til 454 ci (7440). Einnig er hægt að kaupa crate vél frá GM sem er 502 ci (8226 cc).

Crate vél (kassa vél) er vél sem hægt er að kaupa nýja frá framleiðanda (og þeir senda þér í trékassa). GM, Ford og Chrysler bjóða allir upp á að crate vélar sem eru allt frá venjulegum skiptivélum upp í aflmiklar vélar sem eru í raun performance vélar með verksmiðju ábyrgð.

Hemi er nafn á bílvél sem er af mörgum talin besta V8 vél Musclecar tímabilsins. Fyrsta Hemi vélin kom frá Chrysler árið 1951 en datt úr framleiðslu á sjötta áratugnum. Hún kom aftur fram árið 1964 sem keppnisvél í Nascar og kvartmílukeppnum og var hún þá 426 ci (6980 cc) að rúmtaki. Sú vél (eflaust niðurtjúnuð) fór síðan í götubíla að miðlungsstærð frá Dodge og Plymouth árið 1966. Síðasta árgerðin sem hún var notuð á Muscle tímabilinu var árgerð 1971. Hemi nafnið skýrist af lögun sprengirýmisins en lögun þess er hálfkúlulaga (hemispherical shape). Hemi var stundum kölluð Elephant eða Fíll.

ZL1 var ál útgáfa af Big block vél General Motors (GM) og skilaði hún 430 hestöflum. Hún var skráð undir COPO 9560 (meira um það síðar) í 69 Camaro af árgerð 1969 til að gera kvartmílugoðsögn.

LS6 hefur komið tvisvar fram. Margir hafa heyrt um nýju vélina sem GM notar í Corvettuna og ber nafnið LS6 (meistaraverk). Hin upprunalega LS6 var hins vegar 454 ci (7440 cc) big block vél sem var notuð í Chevelle SS. Hún var skráð 450 hestöfl en það er talið að GM hafi gefið upp of lága tölu.

LT-1 var öflugasta small block frá Chevrolet en hún var 350 ci (5735 cc) og skilaði 360-370 hestöflum. Þegar GM kom með aðra kynslóð af small block sinni (snemma á níundaáratugnum) þá fengu þær vélar þetta nafn. Sú vél skilaði 275-300 hestöflum.

L72 var 425 hestafla útgáfa af 427 ci (6997 cc) big block frá Chevy. Þessar vélar fóru m.a. í 1969 módel af Camaro seldir af Yenko.

L88 er af sumum kölluð “Chevy´s ultimate big-block 427”. Hún var skráð 430 hestöfl sem er mikið vanmat.

L98 er Chevy small block sem kom fyrst fram seint á níunda áratug síðustu aldar. Hún var með rúlluknastás og ofan á henni var TPI innspýting. Hún skilaði upp að 240 hestöflum og mjög góðu togi.

DZ302 var 302 ci (4949) Chevy small block. Hún varð til þannig að Chevy setti sveifarás úr 283 ci (4638) í block með sömu borun og 327 ci (5359). Úr því varð vél sem hægt var að setja á mjög háann snúning og skilaði 290 hestöflum. Einnig gerði hún Chevy kleift að taka þátt í keppnum sem takmörkuðu rúmtak við 305 ci. Þessi vél sýndi að Muscle var ekki alltaf tengt miklu rúmtaki.

455 HO og 455 SD voru mjög þekktar vélar og voru þær notaðar í Pontiac Firebird Transam. HO stóð fyrir High Output en SD stóð fyrir Super Duty. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá voru Pontiac, Buick og Oldsmobile hver með sína 455 ci vélar (ekki allir með þá sömu).

Tveggja bungu hedd eru high performance hedd af chevy small block. Þau eru auðþekkt á tveimur bungum. Heddin voru með stóra ventla og þóttu flæða vel. Einnig gerðu þau sitt til að halda þjöppunni hárri (lítið sprengirúm).

Single plane millihedd (eitt stórt op) geta flætt vel en vinna ekki sérstaklega vel á lægri snúning. Þau eru oft gefin upp fyrir 2500 snúninga og uppúr.

Dual plane millihedd (tvískipt op) eru duglegri að blanda lofti og bensíni saman og skilar vélin því oft meira afli neðar á snúningsvæginu. Dual plane millihedd flæða hinsvegar ekki eins vel og single plane þannig að þau eru oft uppgefin frá lausagangi upp að 5500 snúningum.

**********

Gírkassar og sjálfskiptingar:

Muncie er notaði yfir margar tegundir af gírkössum sem GM gerði í verksmiðju sinni í Muncie í Indiana.

Þekktustu sjálfskiptingar GM eru Powerglide (tveggja þrepa), TH350 og TH400 (báðar þriggja þrepa) og TH200R4, TH700R4, 4L60 og 4L80 (allar með yfirgír). Nú er reyndar komin ný fimm þrepa skipting frá þeim. TH stendur fyrir Turbo Hydra-matic.

Þekktustu skiptingar Ford eru líklegast C4 og C6 (þriggja þrepa) og AOD/AODE og E4OD/R4100 (með yfirgír).

Þekktasta Chrysler skiptingin er 727 en ég er ekki nógu vel að mér í þeirra málum.

Hurst Shifter er skiptir sem margir setja í beinskipta og sjálfskipta bíla. Hann er nákvæmari en skiptar í flestum bílum og yfirleitt töluvert meira áberandi.

Stall speed er sá snúningur sem túrbínan í sjálfskiptingunni tekur. Oft hægt að komast nærri honum með því að standa á bremsunni og gefa inn. Ef búið er að tjúna relluna eitthvað þá getur þurft að skipta um túrbínu og setja aðra sem grípur á hærri snúning (þar sem að afl vélarinnar hefur færst til).

**********

Hásingar:

Dana er aðallega í framleiðslu hásinga (má vera að framleiðsla þeirra sé umfangsmeiri). Þekktust er líklegast Dana 44 hásingin sem kom orginal undir fjöldanum öllum af amerískum jeppum. Framleiða einnig stærri og minni hásingar, m.a. Dana 60 og 70.

Aðrar þekktar hásingar eru t.d. GM 10, 12 og 14 bolti, og 9” Ford.

Posi Traction er nafn sem GM gaf driflæsingu sinni.

Hlutföll, t.d. 4,88:1, þíðir að drifskaftið snýst 4,88 sinnum á móti einum snúning hjóls. Lægri tala þýðir því hærri hlutföll.

**********

Ýmislegt:

Yenko Don Yenko gerði sína eigin línu af aflmiklum bílum á seinni hluta sjöunda áratugarins. Þeir bílar eru nú mjög eftirsóttir af söfnurum.

Heater Delete Þegar bílar voru pantaðir með keppni í huga þá voru þeir oft pantaðir strípaðir og var þá miðstöðinni gjarnan sleppt.

Ram Air er hugtak sem Pontiac notar yfir vélar sem draga loft sitt í gegnum stórt skóp á húddinu. Ram Air er auðkennt með rómversku tölunum I til IV.

Shaker hood er notað yfir húdd sem eru með gat sem plast skóp stendur uppúr. Plastskópið er tengt við vélina og er lofthreinsarinn oft geymdur þar.

COPO stendur fyrir kóða sem GM notaðist við þegar sérstakir bílar voru pantaðir hjá þeim. Yfirleitt voru það lögreglubílar eða sjúkrabílar sem voru með COPO númer en nokkrir “performance” bílar voru einnig með þannig númer. Ekki eru menn á eitt sáttir hvort COPO standi fyrir “corporate office production option” eða “central office purchaser order”.

**********

Ég vona að þið séuð einhverju nærri eftir þessa langloku (þ.e. þeir sem gáfust ekki upp á leiðinni). Hér er hellingur af upplýsingum sem óhætt er að gleyma en sumt af þessu eru upplýsingar sem allir bílaáhugamenn ættu að vita. Eflaust hef ég gleymt einhverjum mikilvægum upplýsingum eða ekki skýrt þau nógu vel og þá er bara að koma með viðbót.

Greinin er að hluta unnin upp úr CAR CRAFT en svo hef ég bætt ýmsu við sem mér fannst vanta og sleppt öðru sem mér fannst ekki skipta máli (ritskoðað ;).

JHG

Heimildir:

CAR CRAFT, Primedia Specialty Group, Inc, 2002, 12 tbl. bls. 32-39