Tómur, tvöfaldur bílskúr Einfaldlega: Hvaða tvo bíla myndir þú velja ef þú ættir tóman tvöfaldan bílskúr? Þetta yrði þinn eini bílskúr, og þínir einu bílar.
Við verðum eiginlega að setja okkur eitthvað þak á verðið til að hafa smá pælingu í ‘essu. Það er ekkert gaman að telja upp einhverja skrilljón króna ofurbíla, Lambo þetta og Ferrari hitt, því það er einfaldlega of auðvelt og óraunhæft.
Hægt er að hugsa þetta í mismunandi verðflokkum; ~1 millj., ~2 millj., ~4 millj., og svo framvegis, bara eins mikið og menn treysta sér til. ~20 millj. gæti verið spennandi, en mikið hærri tölum en það nenni ég ekki að spá í.

~1 milljón kr. flokkurinn er svolítið trikkí, en jafnframt mjög svo skemmtilegur. Er þetta ekki ca. verðið á nýjum bog-standard Toyota Yaris 1.0? Það er oft gaman að taka verð á nýjum bílum og telja til eitthvað sem hægt er að fá í staðin.

*Hugljómun*

Ókei. Gerum það. Miðum verðflokkana við verð á nýjum bílum. Það gefur skemmtilega viðmiðun, og kennir okkur kannski að kaupa ekki glænýja bíla …

Ég hugsa valið útfrá tveimur atriðum; skemmtanagildi og praktísku gildi. Þegar maður á tvo bíla er t.d. hægt að eiga mjög fókuseraðan og ópraktískan akstursbíl sem leikfang, og svo einhvern praktískari til daglegs brúks. Við verðum auðvitað að gera ráð fyrir veðri og vindum, og þá sérstaklega vetrinum, sem er ríkjandi árstíð hér á skítklakanum.


Hyundai Accent Lsi 1.3 3d – 1.160.000 kr.

Fyrir rúman 1100þús. kall er hægt að fá margt skemmtilegra en Hyundai Accent 1.3.(heh) Það er hægt að fá ýmsa mjög boðlega sportara fyrir rúma milljón, en ég er að leita að tveimur bílum svo að einhverjar málamiðlanir þarf víst að gera.
Fyrir þetta verð held ég að besti kosturinn sé að finna einn praktískan og áreiðanlegan, en jafnframt svolítið sportlegan bíl fyrir megnið af peningnum, og svo einhvern hræódýran, gamlan sportara sem leikfang. Ca. 800-900þús kr. í þann praktíska og svo restina í leikfangið.
Byrjum á leikfanginu. Fyrir 200-300þús. er hægt að fá alveg þrælfínan ‘banger’, og hann þarf sko alls ekki að vera bilanagjarn eða illa farinn fyrir þennan pening. Ég myndi vilja eitthvað afturdrifið, og fyrst ég þarf ekki að reiða mig á hann dags daglega má hann vera ansi háskalegur. Gamlan BMW e30 með 6cyl vél og beinskiptum kassa er auðveldlega hægt að fá fyrir ca. 200 þúsund kall í fínu standi. E21 323i er líka spennandi kostur, en mun sjaldgæfari.
Tveggja dyra 325i e30; ég myndi strippa hann niður, fjarlægja aftursæti og hljóðeinangrun, setja í hann veltibúr, körfustóla og eitthvað gott stýrishjól. Hrár og öflugur afturdrifsbíll sem ætti að þola töluvert harðan akstur.
Toyota Supra 3.0 eða 3.0 turbo (ca. ’88-’90) með beinskiptum kassa gæti hæglega fittað í 300þús. króna verðflokkinn, þó að menn setji oft mun meira á þá. 300-400þús væri kannski raunhæft.
Gömul Mazda RX-7 af annarri kynslóð kæmi líka vel til greina. Hún er ekki eins öflug og Supran, en mun léttari.
Gamall niðurstrippaður 325i er samt eiginlega meira spennandi en hinir tveir, því að hann er algengari og viðráðanlegri ef eitthvað bilar, hrárri, og einfaldlega mjög ákjósanlegur ‘banger’.

Þá á ég eftir ca. 800-900þús. kr. fyrir ‘daily driver’ bíl, og er ekki úr ýkja mörgu að velja sýnist mér ef hann á að uppfylla öll skilyrði. Hann verður að vera áreiðanlegur, skemmtilegur og praktískur. Það er nóg af áreiðanlegum og praktískum bílum í þessum verðflokki, en þegar ‘skemmtilegur’ er bætt við verður leitin aðeins erfiðari.
Honda Prelude 2.2i ca. ’92-’95 er svona rétt nægilega praktískur, og stenst kröfurnar nokkuð vel. Aðal málið væri að finna gott eintak.
Það kæmi kannski helst til greina að fá sér eitt stykki heitan hlaðbak fyrir þetta verð. Mk3 VW Golf Gti 16v, Renault Mégane Williams, Honda Civic Vti etc.
Eða gamlan og góðan skriðdreka frá Þýskalandi, BMW 325i e34 eða Merc. 300E w124. Það yrði jafnvel ágætis tilbreyting frá niður strippaða 325i-inum að setjast upp í eitthvað rólegra.

Niðurstaða: Í staðinn fyrir Hyundai Accent 1.3 myndi ég fá mér gamlan BMW 325i og svo einhvern ofannefndra. W124 Benz eða e34 5-lína kæmu sterklega til greina, báðir með beinskiptum kassa og inline sexu auðvitað.


BMW 318i 4d sjálfsk. – 3.490.000 kr.

Nú get ég aldeilis núið saman loðnum lófunum og verslað eitthvað almennilegt. Fyrir 3.240þús. kall er hægt að uppfylla öll skilyrði nokkuð örugglega án þess að gera miklar málamiðlanir. Þetta er mun auðveldari verðflokkur en sá fyrsti, og ég er eiginlega strax kominn með það á hreint hvaða bíla ég myndi velja.
Sem ‘daily driver’ myndi ég velja mér notaðan Subaru Impreza Turbo MY99-00, sem er í senn praktískur, áreiðanlegur og skemmtilegur bíll fyrir ca. 1700-1800þús. kr.
Alfa Romeo 156 2.0ts og fleiri eru verðugir keppinautar, en með tilliti til vetrarnotkunar er fátt sem kemst nálægt Imprezunni í sniðugleika.
Leikfang fyrir ca. 1700-1800þús. kr.? Yum.
Mazda MX-5 eða Toyota MR2? Það er svosem alveg heill hellingur af skemmtilegum bílum í þessum verðflokki, en þessir tveir standa uppúr sem virkilega fókuseraðir akstursbílar.
Hvorn myndi ég velja? Það eina sem MX-5 hefur í raun framyfir MR2 er praktíkin, svo að MR2 yrði fyrir valinu sem hreint og beint leikfang.
Það er samt hægt að fá svo margt skemmtilegt fyrir 1700þús. kr., það eru t.d. margir alvöru sportbílar í eldri kanntinum fáanlegir fyrir þennan pening.
Að flytja inn notaðan Caterham væri t.d. afskaplega spennandi.

Niðurstaða: Í staðinn fyrir BMW 318i myndi ég fá mér Subaru Impreza Turbo MY99-00 sem ‘daily driver’ og svo Toyota MR2 sem leikfang.


Land Cruiser 100 VX 4.2 diesel – 6.990.000 kr.

Þeir eru úti um allt þessir Land Cruiserar, og ég er alltaf að velta því fyrir mér hvað ég myndi fá mér í staðin. 7 milljónir er töluverður peningur, og ég gæti örugglega eytt heilum degi í að telja upp eftirsóknarverða bíla fyrir þennan pening.
Fyrir 6 milljónir er hægt að fá nýjan BMW M3 e46, sem hægt er að nota bæði sem leikfang og ‘daily driver’ allt árið um kring, þó að hann sé örugglega ekkert sérlega duglegur í verstu ófærðinni.
En þar sem ég hef pláss fyrir tvo bíla verð ég eiginlega að kaupa ópraktískara leikfang en BMW M3.
Sem leikfang myndi ég fá mér Porsche Boxster 2.7. Hann kostar nýr um 5.2 milljónir, sem þýðir að ég á nóg fyrir notaðri MY99-00 Imprezu Turbo til að nota á veturna.
Það er hægt að púsla saman ansi skemmtilegum tvíeykjum fyrir 7 milljónir króna, en þetta er það sem mér dettur fyrst í hug. Hægt væri t.d. að flytja inn eitthvað notað, og fyrir þennan pening væri hægt að velja úr stórfenglegum sportbílum.

Niðurstaða: Í staðinn fyrir Toyota Land Cruiser 100 myndi ég fá mér Porsche Boxster 2.7 og Subaru Impreza MY99-00 … Eða kannski eitthvað eldra og svakalegra í staðinn fyrir Boxsterinn?


Ég þarf að þjóta, komiði nú með eitthvað djúsí!