Peel P50 Það kannast kannski ekki margir við Peel P50 en þó eru það heimsfrægir bílar. Þeir eru nefnilega minnstu bílar sem hafa verið framleiddir. Ekki amalegt met það…

Peel bílarnir voru fyrst kynntir á London bílasýningunni árið 1962, en það var heil lína af þriggja hjóla bílum. Bílarnir voru framleiddir af Peel Engineering Company sem framleiddi báta og ferjur úr trefjaplasti.

Peel P50 var aðeins 134cm langur og 99cm breiður og er talinn minnsti bíll sem hefur verið framleiddur. Þriggjahjóla-bíllinn var knúinn áfram af 49cc vél sem gaf honum rúmlega 60 km/klst hámarkshraða en hann var hugsaður sem borgarbíll fyrir einn farþega og búðarpoka.

Bíllinn hafði engan bakkgír en þar sem hann vó aðeins 59kg þá var hægt að leggja honum með handafli, þar sem hann hafði þar til gert handfang til að lyfta honum upp og ýta í stæði. Þetta var vægast sagt hagkvæmur bíll því eyðslan var gefin 100 mílur á galloninu eða um 2.8 l/100km og bíllinn kostaði aðeins 199 pund.

Tveggja manna útgáfa var einnig framleidd sem hét Peel Trident og var sá bíll með glerkúlu sem þak. Um 100 bílar af hvorri útgáfu voru framleiddir þar til framleiðslu var hætt 1965.
I WAS BORN FOR DYING!