Hvað er sportbíll? Hvað er sportbíll?


Íslendingar hafa ekki fengið að venjast bílamenningu á því stigi sem gengur og gerist víða erlendis. Áhugamannaklúbbar eru mjög fáir á landinu, akstursíþróttir hafa bara verið stundaðar af þeim allra hörðustu og ekki hafa tollareglur ýtt undir innflutning nýrra eða notaðra sportbíla.

Á meginlandi Evrópu eru klúbbar áhugamanna um einstakar tegundir bíla mjög algengir og menn safnast saman á góðvirðisdögum til að njóta þessa að sýna sig og sjá aðra, jafnvel fara nokkra hringi á kappakstursbrautum og reyna fyrir sér í spyrnu og fleiru sem hleypir lífi í bíladellumenn og konur. Erlendis má gjarnan sjá samkomur áhángendaklúbba Ferrari, Porsche og Mini svo dæmi séu nefnd og eru þessar samkomur hinar ánægjulegustu fyrir alla sem hafa minnsta snefil af bíladellu. Þessir klúbbar eiga þó flestir eitt sameiginlegt; þeir eru stofnaðir í kringum sportbíla, ekki venjulega fólksbíla.

Það sem kallað er sportbíll á meginlandi Evrópu virðist hinsvegar ekki vera það sama og það sem við köllum sportbíl hér á klakanum. Hér á landi getur sportbíll verið allt með tvær hurðir og álfelgur. Þetta má glögglega sjá þegar skoðaðir eru leitarvefir notaðra bíla á veraldarvefnum. Í heimsókn á eina slíka síðu var meiningin að forvitnast hvaða sportbílar væru til á bílasölum bæjarins, og viti menn! Það fundust eitthvað u.þ.b. tvöhundruð stykki af svokölluðum sportbílum. Sem sagt gott úrval sportbíla í Reykjavík.

Við nánari skoðun kom hinsvegar allt annað í ljós, slatti af HyundaiCoupé 137 hestöfl, annað eins af BMW 3-línunni allt frá 118 hestölflum til 192 hestafla, og hann er þó afturhjóladrifinn. Einnig var þarna að finna Golf Gti og aðra 140 “ekki” sportbíla. Einu sportbílarnir sem ég sá þarna sem án mikils vafa geta kallast sportbílar voru tveir Porsche 911 sc. Það virðist því ástæða til að leiða hugann að því hvað sportbíll er í raun og veru.

Það er nokkuð ljóst að 4 dyra bílar geta varla kallast sportbílar, margir þeirra eru nú reyndar hálfgerðir kappakstursbílar eins og BMW M3 og M5, en sportbílar eru þeir ekki. Afhverju ekki? Jú þessir bílar eru fyrst og fremst fólksbílar með góða aksturseiginleika og yfirdrifinn kraft, þeir voru upprunalega hannaðir til að flytja fjölskyldu og farangur frá einum stað til annars, þeir verða að vera hagnýtir og þægilegir í umgengni. Þá ættum við að geta slegið því föstu að sportbílar eru tveggja dyra. Varla er hægt að kalla framhjóladrifna bíla sportbíla, framhjóladrifnir bílar hafa ekki nógu góða aksturseiginleika þegar aflið er orðið mjög mikið. Það er því mögulega hægt að segja að sportbílar séu afturhjóladrifnir. Með þessu móti var búið að útiloka 95% af bílunum sem á vefsíðunni voru flokkaðir sem sportbílar.

Hvað er það þá sem við getum tínt til sem gerir bíl örugglega að sportbíl? Það er nefnilega eitt mjög mikilvægt atriði sem greinir sportbíla frá öðrum bílum, sem er að sportbíll er hannaður með ákveðið atriði í huga sem er það að vera sem fljótastur frá punkti A til B. Til að ná þessu markmiði er ökumaðurinn settur í öndvegi svo að hann geti náð góðum tökum á bílnum. Þetta þýðir að farþegar og farangur sitja oft algjörlega á hakanum. Þessi áhersla kemur hvergi betur fram en í McLaren F1 sem er þriggja sæta ofurbíll þar sem ökumaðurinn situr í miðju bílsins og farþegarnir tveir sitthvoru megin og aðeins aftan við ökumanninn. Farangursrýmið er einnig mjög takmarkað! En það þarf nú kannski ekki alltaf að ganga svona langt í skilgreiningunni á sportbíl. Þeir eiga það sameiginlegt að þeir eru skapaðir til að veita ökumanninum ánægju við aksturinn, ánægju sem kemur með fullvissu þess að bíllinn hefur það sem þarf til að vera verulega snöggur á milli staða og ef maður vill vera alveg viss, þá er hann líklegast líka með blæju!

Það sem einkennir sportbíla virðist þá vera eftirfarandi: aflmikil vél miðað við þyngd bílsins, afturhjóladrif eða fjórhjóladrif, reynt er að hafa bílinn sem léttastan, stífari fjöðrun, fullkomnari fjöðrunarbúnaður, sport innrétting og mögulega blæja svo eitthvað sé nefnt. Það er því ekki réttnefni að nefna venjulega framhjóladrifna fólksbíla sportbíla bara vegna þess að þeir líta vel út…

Leiðum t.d. hugann að Audi TT, er það sportbíll? Hann er óneitanlega sportlegur að sjá! Samkvæmt fyrrnefndri útilokunaraðferð þá er Audi TT ekki sportbíll. Og þegar litið er í erlend bílablöð einsog EVO þá er þetta staðfest, þar er Audi TT flokkaður sem “small coupe”. Það kemur þá líka í ljós við
nánari skoðun að Porsche 911 er ekki flokkaður sem “sportscar” heldur sem “GT”. GT bílarnir svokölluðu eru svo efni í allt annan kafla. Sportbílarnir frá Porsche væru þá samkvæmt þessari skilgreiningu aðeins PorscheBoxter, enda er það blæjubíll, sem fellur að öllu leyti við fyrrnefnda skilgreiningu.
Gaman væri að sjá á spjallinu hér fyrir neðan hvaða skoðun bílaáhugamenn hafa á því hvað er sportbíll og hvað ekki……………..