Fyrst þegar ég uppgötvaði hvað það er að vera Commander í BF2, hugsaði ég með mér að það yrðu endalaus slagsmál um það hver ætti að vera Commander. Hinsvegar virðist BF2 vera jafn vel hannaður að þessu leyti og öllu hinu, en þó er mikilvægt að hafa einstaka hluti í huga.

Ég ætla aðeins að blaðra um það hvernig ég tel Commander eiga að haga sér á almenningsnetþjónum. Þetta eru bara mínar vangaveltur sem hafa enn ekki fengið neina gagnrýni, enda hef ég hvergi fundið á netinu ennþá skjal sem fjallar ítarlega um þetta, og hvað þá á íslensku.

Margir fítusar eru notaðir bara vegna þess að það er hægt að nota þá, þó yfirleitt eingöngu af nýliðum. Leikurinn er nú samt svo ungur að við verðum eiginlega öll að kallast nýliðar.

Fyrst ætla ég að útskýra hvað ég á við með hvaða orði. Sumir vilja hreinlega segja fáránlega hluti eins og “eru engin squads þarna?”, og þó að slettan “squad” sé í fína lagi í minni bók, þá er fleirtöluending úr ensku í íslenskri setningu hreinlega pirrandi. Allavega. Nóg af rausi.

Commander: Leiðtogi
Squad leader: Liðþjálfi
Squad member: Liðsmeðlimur
Squad: Hópur (Myndi segja “lið” en þá gæti ég verið að meina allt öll SQUADS í liðinu.)

1. Ekki gefa skipanir til hópa nema þú hafir ástæðu til. T.a.m., ef þú sérð fána sem er tiltölulega óvarinn, er sniðugara að finna hóp þar sem liðþjálfinn er nálægt fánanum og ekki þegar að berjast við hóp andstæðinga. Að senda bara einhvern hóp á einhvern fána gerir ekkert raunverulegt gagn, og gerir reyndar lítið annað en að minnka trú hópanna á leiðtoganum og þvælast fyrir.

2. Ef hópur virðist ekki hafa áhuga á því að hlýða þér, hættu bara að reyna við hann og reyndu að finna hóp sem er að spila fyrir leiðtogann. Sumir fara saman í hóp bara til þess að geta talað betur saman eða gefið skipanir sín á milli, séð hvorn annan á kortinu o.s.frv., og eru ekki að spila fyrir leiðtogann, enda bara hið besta mál á meðan leiðtoginn er ekki í egókasti og krefst þess einfaldlega að allir spili eins og hann vill að þeir spili. Þegar hópur virðist vera að gera eins og honum er sagt, er hann eins og ég þegar ég rekst á góða leiðtoga, og spilar fyrir liðið. M.ö.o., ekki reyna að fá fólk til að spila sem vill það ekki, en spilaðu með þeim sem vilja það. Ekki setja kröfurnar hátt; það borguðu allir peninga fyrir þennan leik og hafa rétt á að spila hann eins og þeim sýnist. :)

3. Ekki einblína á að nota UAV á fána. Oft er betra að staðsetja UAV einhvers staðar á milli tveggja fána, t.d. þegar liðið manns er með einn en óvinurinn annan skammt frá. Það er nánast eingöngu svæðið þar á milli sem skiptir leikmenn verulegu máli, sem og að það er mun auðveldara að sjá óvini með UAV þegar þeir eru í ytri kanti radarsins en ekki í miðjunni. Flestir kannast eflaust við það að vera að taka fána og heyra að radarinn skynjar óvin einhvers staðar, en þá þarf maður að ýta á ‘N’ og skoða mjög vel til þess að fá að vita nákvæma staðsetningu. Ef miðpunktur radarsins er annars staðar, er auðveldara að koma auga á óvininn á radarnum.

4. EKKI BERJAST Á MEÐAN ÞÚ ERT LEIÐTOGI. Leiðtogi hentar ekki liði mjög vel ef hann er alltaf að pæla í einhverju öðru. Leiðtogi hefur aldrei nóg að gera þegar hann er bara leiðtogi. Í fyrsta lagi færðu engin stig fyrir að ná fánum, og í öðru lagi færðu engin stig fyrir að laga t.d. stórskotabyssurnar, radarinn eða radarhúsið. Ég hef ekki enn staðfest hvort maður fái stig fyrir að laga tæki sem aðrir eru í eða fyrir að plástra aðra leikmenn, en þar sem maður fær venjulega stig fyrir að laga radar og þvíumlíkt, geri ég ráð fyrir að svo sé ekki. Auðvitað er leikurinn jafn vel hannaður í þessu atriði og flestum atriðum; þú færð helling af stigum fyrir að vera góður leiðtogi. Það borgar sig ekki að vera bæði leiðtogi og leikmaður í einu upp á stigin, heldur þvert á móti.

5. Ekki sprengja stöðvar án þess að vita fyrir víst að fórnarkostnaðurinn sé viðsættanlegur. Þetta ætti að vera augljóst, en það er líka augljóst að margir eru að fá mörg mínusstig fyrir að nota stórskotaliðið á röngum tíma.

6. Vanmettu ekki hversu lengi stórskotaliðið er að skjóta. Það líða vel meira en nógu margar sekúndur á milli þess að maður hleypi af og þess að sprengjunum fari að rigna, til þess að her af óvinum á fánanum sem er verið að sprengja, sé kominn út í buska. Á þeim tíma er líka alveg jafn líklegt að vinur sé kominn á svæðið, þannig að stórskotaliðið ber að nota með nokkrum lítrum af varkárni.

7. Notaðu ‘Scan’ fyrst, og notaðu síðan UAV á þeim stað þar sem þú telur það best koma að gagni. Það er ekki endilega gott að vera með UAV ofboðslega lengi á sama staðnum.

8. Vertu engineer og farðu í felur til að geta lagfært stórskotabyssurnar, radarinn og radarhúsið. Þegar eitthvað af þessum hlutum er hætt að virka, verður það gult á kortinu, og það er mun auðveldara að laga bara sjálfur heldur en að reyna að fá hóp í miðri orrustu til þess að gera það fyrir mann. Fyrir að laga allt þrennt frá rótum fær maður líka ekki nema 2-4 stig, þannig að hóparnir nenna yfirleitt ekki að sinna kallinu hvort sem er.

9. Fylgstu með. Ekki “speisa út”. Þegar ekkert er að gerast, er það yfirleitt bara lognið á undan storminum.

Ég vona að þetta hjálpi einhverjum. Endilega bætið við eða gagnrýnið ef þið sjáið færi til. Enn og aftur er þetta bara það sem ég hef komist að sjálfur og alls ekki heilagur sannleikur.