Árið 1703 hélt Þorleifur Halldórsson, tvítugur drengur frá Dysjum á Álftanesi, til Kaupmannahafnar í nám. Siglingin tók langan tíma þar sem skipið hafði villst af leið og endaði í Noregi. En meðan á siglingunni stóð ritaði Þorleifur Lof lyginnar. Verkið var ritað á latínu enda var það ætlun höfundar með verkinu að æfa sig í latínunni áður en hann kæmi til náms í Kaupmannahöfn. Sjálfur sneri hann því svo yfir á íslensku er hann var kominn aftur heim til Íslands.

Kveikjan að Lofi lyginnar er rit Desideriusar Erasmusar frá Rotterdam (1469-1536), Lof heimskunnar (Moriae encomium) sem kom fyrst út árið 1511. Þar gerir Erasmus gys að heimsku mannanna með því að persónugera heimskuna og halda svo uppi málsvörn fyrir hana. Á sama hátt gerir Þorleifur grín að lyginni. Lygin fær orðið og hún reynir hvað hún getur til að sannfæra lesandann um ágæti sitt. Hún bendir til að mynda á ættgöfgi sína en faðir hennar er enginn annar en Lúsífer og móðir hennar er Öfundin sjálf. Hún bendir líka á gagnsemi sína og velgjörðir og að menn geti naumast án hennar verið.<br>
“Langt er það nú frá mér að ég lasti þessa góðu og frómu menn heldur hrósa ég þeim fyrir þessi sín klókindi og álykta af þeirra dæmum að lygin sé ekki svo ill sem almenningur segir heldur þörf og nauðsynleg og jafnvel lofleg sé hún rétt og hentuglega brúkuð” (bls. 58).

Röksemdafærslur lyginnar eru misjafnar. Sumar eru ósannfærandi en aðrar eru sniðugar. En mælskulistina kann hún þó. Og úr verður mikill skemmtilestur.

Þorleifur sýnir nokkurn lærdóm í málsvörn sinni fyrir lygina. Á einum stað hefur þó villa slæðst inn en fyrir þeirri villu hefur myndast hefð. Hann vitnar í grísku goðsögurnar og segir að Saturnus (sem er latnesk hliðstæða Krónosar í grísku goðsögunum) hafi gleypt börn sín en þurft að spýja þeim upp aftur. Hvað geti það merkt annað en það að tíminn eyði öllu sem í tímanum fæðist en annað fæðist í staðinn? (bls. 47). En vandinn er sá að gríski guðinn Krónos er ekki persónugervingur tímans. Í grísku er Krónos skrifaður með kappa en tíminn, khronos, með . En þegar í fornöld voru menn farnir að slá þessum tveimur saman, Krónosi og tímanum, enda voru orðin lík. Kannski er lína 179 í leikriti Sófóklesar Elektru til marks um þetta: “Tíminn er mildur guð sem græðir”.

Mál Þorleifs og stíll er eilítið framandi lesendum á 21. öld. Þorleifur notar stöku sinnum orð sem lesandinn þekkir ef til vill ekki og stíllinn er á köflum heldur dönskuskotinn. En það verður að hafa í huga að þýðingin er tæplega þrjúhundruð ára gömul. Á blaðsíðum 97-98 er að finna orðalista þar sem helstu orð eru skýrð sem kunna að vera lesandanum ókunn.

Lof lyginnar er gefin út af Hinu íslenzka bókemnntafélagi í hinni vönduðu ritröð lærdómsritanna. Allur frágangur er til fyrirmyndar. Halldór Hermannsson ritar inngang sem þýddur er af Þorsteini Antonssyni og aftanmáls eru skýringar á fjölmörgum atriðum meginmálsins. Hér um eigulegt rit að ræða, eins og raunar öll lærdómsritin eru.

Bókfræðilegar upplýsingar:

Höfundur: Þorleifur Halldórsson (1683-1713)
Titill: Lof lyginnar
Titill á frummáli: Mendacii encomium
Kom fyrst út: 1703 á latínu, 1711 á íslensku
Þýðandi: Þorleifur Halldórsson
Útgefandi: Hið íslenzka bókmenntafélag
Útgáfustaður: Reykjavík
Útgáfuár: 1988
Blaðsíðufjöldi: 103 bls.
___________________________________