Ekki fer á milli mála að Q. Horatius Flaccus, eða Hóras, teljist til höfuðskálda Rómverja á fyrstu öld f.Kr. Hóras fæddist 8. desember árið 65 f.Kr. í bænum Venúsía á S-Ítalíu. Hann var ekki af tignum ættum heldur sonur leysingja en faðir hans hafði þó efnast og gat leyft sér að senda son sinn til Rómar í nám. Síðar fór Hóras til Aþenu þar sem hann kynntist Brútusi, einum banamanna Caesars, og gekk hann til liðs við banamenn Caesars gegn andstæðingum þeirra í þremenningasambandinu síðara, það er að segja þeim Octavíanusi (síðar Ágústusi), Markúsi Antóníusi og Lepídusi. Eftir að banamenn Caesars höfðu verið sigraðir fór Hóras aftur til Rómar. Þar kynntist hann Virgli og í gegnum Virgil auðmanninum Maecenasi og sjálfum Octavíanusi. Hóras lést 27. nóvember árið 8 f.Kr.

Hóras er tvímælalaust eitt fjölhæfasta skáld Rómverja. Hann orti meðal annars ljóð undir jambískum og hætti, hexametri (sexliðahætti sem oft er nefnt hetjulag á íslensku), og ýmsum lýrískum háttum t.d. saffískum hætti, en einnig satírur og bréf (í bundnu máli). Ljóð hans eru oftar en ekki jarðbundin; hann yrkir um daglegt líf, ólíkt til dæmis Virgli sem er í Eneasarkviðu býsna háfleygur. Hann deilir á græðgi, metorða- og hégómagirnd en hvetur okkur til að njóta dagsins (Carpe diem!). Ljóð Hórasar eiga því ekki síður erindi til manna í dag en á tímum Hórasar.

Þau þrjátíu ljóð sem þýdd eru í Í skugga lárviðar eru öll úr verkinu Carmina (á ensku Epods) sem er í fjórum bókum og kom út í tvennu lagi, bækur I-III árið 23 f.Kr. en bók IV árið 13 f.Kr. Alls eru þetta 103 lýrísk ljóð.

Helgi Hálfdanarson hefur þýtt æði margt bæði af bókmenntum klassískrar fornaldar og öðrum bókmenntum. Það veit hver sem lesið hefur einhverja af þýðingum Helga að Helgi er málsnjall með eindæmum og það kemst ekki hver sem er jafnvel að orði og Helgi. Þó mætti nefna sérvisku Helga en eins og kunnugt er ritar Helgi ekki ufsilon í erlendum orðum. Ennfremur virðist undirrituðum óþarft að víkja um of frá frummálinu í meðferð eiginnafna. Hvers vegna þarf til að mynda Maecenas að heita Mesenas? Þá þykir undirritðum óþarfi að nefna Caesar Sesar. Nöfn fornmanna geta stundum verið vandmeðfarin; hefðin hefur tekið sum þeirra föstum tökum. Nafn Hórasar sjálfs er dæmi um það; Virgill er annað dæmi (Virgill hét í raun Publius Vergilius Maro). En það þykir undirrituðum skynsamleg stefna og smekklegt að umrita nöfn þeirra, sem hefðin hefur ekki tekið trautu taki, sem næst frummálinu. Ekki segir í bókinni hvaða texti liggur til grundvallar þýðingu Helga en þýðingin virðist við fyrstu sýn ekki ýkja ónákvæm, þótt ekki sé hún heldur ýkja nákvæm. Enda er hér ekki um fræðilega þýðingu að ræða.

Enginn inngangur er að ljóðunum, aðeins tveggja blaðsíðna formáli undir yfirskriftinni “Örlítið um Hóras”. Á eftir ljóðunum (bls. 64 o.áfr.) er svo að finna örfáar skýringar, þá er nafnalisti (bls. 68 o.áfr.) þar sem sögð eru deili á helstu persónum sem koma fyrir í ljóðunum, og svo útskýringar á bragarháttunum (74 o.áfr.). Efnisyfirlit er að finna á blaðsíðu 77, en þægilegra hefði verið að hafa það á undan ljóðunum og virðist engin sérstök ástæða vera til þess að hafa það aftast í bókinni. Loks er á bls. 79 halakleppur, sem er nokkur konar eftirmáli þýðanda þar sem hann verst ásökunum um að hann hafi óbeit á nútímaljóðlist þar sem hann kýs að þýða fremur forn ljóð.

Bókin er skemmtileg aflestrar. Bæði er það að Helgi kemst oft meistaralega vel að orði og verður enginn sem kann að meta málsnilld hans svikin af þessum þýðingum; en bókin er einnig áhugaverð sökum þess að ljóð Hórasar tala ekki síður til okkar nútímamanna. Látum Hóras, í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, eiga síðasta orðið.

Til auðugs vinar (Carmina II.16)

Aldrei rak neinn ríkidómur eða þjónar
ræðismanns úr huganum sáran kvíða
né það angur allt, sem í kringum rjáfur
eirðarlaust flögrar

Bókfræðilegar upplýsingar:

Höfundur: Hóras (Quintus Horatius Flaccus) (65-8 f.Kr.)
Titill: Í skugga lárviðar: Þrjátíu ljóð eftir Hóras
Þýðandi: Helgi Hálfdanarson
Útgefandi: Vaka-Helgafell
Útgáfustaður: Reykjavík
Útgáfuár: 1991
Blaðsíðufjöldi: 79 bls.
___________________________________