The Hunting of the Snark eftir Lewis Carroll The Hunting of the Snark, sem ef til vill mætti nefna Snákarlaveiðina á íslensku, hefur þótt einna best lýst sem þvælu. Eða ef til vill eiga orðin bull og vitleysa betur við, eða kannski della. Enginn virðist vita almennilega hvað þetta fyrirbæri snark, eða snákarl, er. Og það var ekki mikil hjálp í þeim upplýsingum höfundar að snákarl sé í raun boojum. Hvað í ósköpunum er boojum? Það veit enginn heldur. En þrátt fyrir það hafa menn haft mikla ánægju af því að lesa þetta kvæði Lewis Carrolls.

Carroll er sjálfur þekktari fyrir sögu sína um Lísu í Undralandi en fyrir þetta dellukvæði um snákarlaveiðar. Engu að síður hefur The Hunting of the Snark notið fádæma vinsælda allt frá því það kom fyrst út árið 1876. Þess eru jafnvel dæmi að í Oxford og Cambridge hafi sprottið upp snark-samfélög, sem hittast reglulega og lesa saman upp úr verkinu.

Í kvæðinu segir frá tíu persónum sem halda saman til snákarlaveiða, en snákarl mun víst vera einhver ógurleg skepna. Þessa skaðræðisskepnu elta þær með göfflum og hlutabréfum í járnbrautarfyrirtæki og reyna að heilla hana með sápu og brosi á vör. Og í leit sinni að snákarli sigla þær út í óvissuna með fullkomið kort til að vísa sér leið, autt blað.

Það vekur athygli að heiti allra persónanna byrjar á stafnum B (the Banker, the Butcher, the Baker o.s.frv.). Menn hafa lengi velt vöngum yfir þessu og fjölmörgum smáatriðum af sama tagi. Hvernig ber að skýra þetta? Þá hafa margar kenningar verið settar fram um hvað kvæðið allt eigi að merkja. Eftir einni kenningunni er Carroll að tala um hamingjuna eftir annarri kenningu er kvæðið háðsádeila á heim viðskiptanna. Heimspekingurinn Ferdinand Channing Scott Schiller taldi að snákarl væri hið algilda, til dæmis í kenningum þýska heimspekingsins G.W.F. Hegels (1770-1831). Einhverjar þessara hugmynda útlistar Gardner í inngangi sínum en túlkun Schillers, sem birtist upphaflega í tímaritinu Mind! árið 1901, fylgir í þessari útgáfu í viðauka á eftir kvæðinu.

Kvæðið sjálft skiptist í átta kafla og hver kafli í nokkur fjögurra lína erindi. Textinn er ekki alltof erfiður en þegar gömlum orðum eða sjaldgæfum bregður fyrir eru þau skýrð neðanmáls, en þessi útgáfa er aukin verulega af skýringum sem lesandinn nýtur góðs af. Upphafleg útgáfa verksins var skreytt níu myndum eftir Henry Holiday og eru þær hafðar með hér. Útgáfan er öll til fyrirmyndar, en auk inngangs og viðaukans er einnig formáli, ritaskrá þar sem annarra útgáfa textans er getið ásamt ritum um Lewis Carroll og Henry Holiday, og aukalegur kafli sem skrifaður var af J.A. Lindon um ævintýri tíumenninganna. Ef eitthvað er að útgáfunni að finna er það helst að inngangur Gardners er of augljóslega barn síns tíma (upphaflega skrifaður 1962) og tengir kvæðið óþarflega mikið ákveðnum tískustraumum eins og tilvistarstefnu (existentialisma). Kvæðið sjálft er aftur á móti hreinn skemmtilestur. Það vekur mann auk þess til umhugsunar og er fullt visku sem er sett fram á afar hnyttinn hátt eins og Carroll einum er lagið.

Bókfræðilegar upplýsingar:

Höfundur: Lewis Carroll (1832-1898)
Titill: The Hunting of the Snark
Kom fyrst út: 1876
Inngangur eftir: Martin Gardner
Útgefandi: Penguin Books
Útgáfustaður: London
Útgáfuár: 1995
Blaðsíðufjöldi: 126 bls.
___________________________________