Hvað getur einhleypan mann af sæmilegum efnum á ákveðnum aldri vantað annað en góða konu? Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða hr. Darcy í Hroka og hleypidómum eða Jakob Jónsson hrepsstjóra á Nautaflötum í Hrútadal.

Dalalíf Guðrúnar Árnadóttur frá Lundi er rúmlega 2,000 blaðsíðna verk og kom fyrst út í fimm bindum á árunum 1946-1951. Sagan gerði Guðrúnu eina af ástælustu rithöfundum landsins á þeim tíma. Bókmenntafræðingarnir þá skrifuðu sveitarómantíkina og kaffiþambið ekki hátt en almenningur sýndi hug sinn með bókakaupum og útlánum á bókasöfnum.

Fólkið í Hrútadal heldur því fram að hvergi sé fegurra og hvergi betra að vera en nákvæmlega þar. En lesandinn fær ekki bara að sjá náttúrufegurðina heldur upplifa samfélagið með sínum Gróusögum, hjá- og forlagatrú, lífsbaráttu, stéttskiptingu og vonbrigðum lífsins.

Sjarmörinn Jón Jakobsson, hin engilfríða Anna, dugnaðarforkurinn Þóra, skörungurinn Lísibet, vinnukonan Lína og hinn trausti Þórður eru fólk sem er vel þess vert að kynna sér. Þótt ekki væri nema fyrir persónurnar þá er þetta stórmerkilegt verk í íslenskri bókmenntasögu og merkileg heimild um lifnaðar- og búskaparhætti fólks á Íslandi á 19. öld.

P.S.: Fyrsta bindið er ekki nema 236 blaðsíður, fyrir þá sem vilja kanna málið.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.