Ég var að skoða David Eddings bækurnar áðan (er ekki farin að lesa þær ennþá) og rak þá augun í að það er kort fremst í öllum bókunum. Það minnti mig á bækurnar um Blíðfinn eftir Þorvald Þorsteinsson. Þorvaldur hefur sjálfur sagt að fyrri bókina hafi hann m.a. skrifað með það í huga að skrifa bók eins og hann hefði sjálfur viljað lesa sem barn. Og þá var toppurinn að hafa kort fremst. Og mikið er ég sammála honum - fannst alltaf frábært ef það var kort í bókum þannig að hægt var að fylgjast enn betur með ferðum söguhetjanna og lifa sig enn meira inn í söguþráðinn.

Ég las báðar Blíðfinns bækurnar í vetur og fannst þær alveg frábærar. Sú fyrri fannst mér reyndar vera fyrir eldri börn en sú seinni. Fyrri bókin er nefnilega svo sorgleg. Ég hef það eftir vinkonu minni að dóttir hennar, sem var held ég 6 ára þegar fyrri bókin kom út, hafi ekki getað hlustað á hana til enda, hún hafi verið of sorgleg. Seinni bókin er meira spennandi og fjörugri en sú fyrri. Ég mæli með þeim - listavel skrifaðar bækur.