Ákveðið hefur verið að halda smásagnakeppni Rithringsins og er þemað að þessu sinni hryllingur. Samkeppnin er öllum opin.


Hrollvekja er að sjálfsögðu afar teygjanlegt hugtak, það sem hryllir einn finnst öðrum hversdagslegt eða fyndið svo við búumst við afar fjölbreyttum sögum.

Fyrirkomulag keppninnar verður þannig að fyrri skilafrestur er mánudagurinn 2. febrúar. Þá fara sögurnar í sérstaka biðröð, nafnlausar, og verða þar í 2 vikur (þetta þýðir að aðrir notendur hafa hafa 2 vikur til að gefa sögunni umsögn). Að rýnitímabilinu loknu gefst höfundum tækifæri til að laga sögur sínar til og hafa þeir til þess viku þannig að lokaskilafrestur er 23. febrúar.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt eru beðnir að skrá sig á forsíðu Rithringsins milli 24. og 31. janúar.
Þeir munu þá fá tímabundinn séraðgang og senda söguna inn í gegnum hann.

Sögurnar skulu vera milli 1.000 og 5.000 orð.

Mun dómnefnd velja úr þrjár bestu sögurnar og verða þær sendar Kristjáni B. hjá Forlaginu. Mun hann velja bestu söguna og verður það hluti af fyrstu verðlaunum að hann rýnir þá sögu.

Verðlaunin eru af ýmsum toga. Eins og kemur fram hér að ofan mun Kristján hjá Forlaginu rýna vinningssöguna. Að auki mun vinningshafa standa til boða að sagan verði send út í fréttabréfi Rithringsins og bærist hún þannig til 450 manns, þ.á.m nokkurra útgefenda. Rithringurinn mun einnig verðlauna vinningshafann með skemmtilegri gjöf.

Að auki verður vinningssögum að sjálfsögðu hampað á Rithringnum.

Við vonumst til að sem flestir taki þátt.