Lúkíanos frá Samosata: Höfundur háðsádeilna Mikið er fjallað um nútímahöfunda hér á Huga.is og bækur þeirra. Um það hef ég auðvitað ekkert nema gott eitt að segja. Aftur á móti langar mig að kynna eldri höfund og mæla með honum, því auðvitað eru bókmenntaverk ekki verri þótt þau séu eldri. Höfundurinn er Lúkíanos frá Samosata, bráðsnjall og hnyttinn höfundur satíra eða háðsádeilna.

I.

Um Lúkíanos sjálfan, ævi hans, æsku og menntun, er fátt vitað með vissu.(1) Samtímaheimildir segja okkur afar lítið um hann. Hann er sjálfur helsta heimild okkar um sig en margt er óljóst eða vafasamt. Hann var fæddur í borginni Samosata, höfuðborg Kommagena, sem liggur við vesturbakka fljótsins Efrat. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær hann fæddist en líklega hefur það verið á bilinu 120-125 eftir okkar tímatali. Samosata tilheyrði þá Rómarveldi. Þessi verslunarborg var á útjaðri ríkisins og flestir íbúar hennar voru Semítar sem töluðu aramaísku en ekki grísku eða latínu. Flestir ættmenn Lúkíanosar voru steinhöggvarar og var honum ungum komið í nám hjá frænda sínum. En Lúkíanos hafði enga löngun til þess að verða steinhöggvari. Hann mun hafa farið frá Samosata til þess að nema mælskulist en ekki er vitað með vissu hvert hann fór. Líklega hefur hann ekki átt efni á bestu skólunum en með einhverjum hætti náði hann að mennta sig. Í verkinu “Kærður tvisvar” er svo að finna mikilvægan vitnisburð um síðari hluta ævi hans.(2) Þar er hann kærður af frú Mælskulist fyrir að yfirgefa sig, en af fröken Samræðu fyrir að misnota sig. Lúkíanos hafði fengist við lagastörf í Antíokkíu en síðar ferðast til Rómar og Gallíu þar sem hann vann fyrir sér sem fyrirlesari. Að lokum mun hann hafa sest að í Aþenu ásamt fjölskyldu sinni. Líklega hefur það verið um árið 165. Þá er talið að Lúkíanos hafi hætt að fást við mælskulist og snúið sér að ritstörfum. En hann tók upp á því að skrifa satírískar samræður. Ekki mun hann þó hafa auðgast mikið af ritstörfum sínum þótt hann hlyti fyrir þau nokkra frægð. Síðar var honum veitt embætti í Egyptalandi af keisaranum Commodusi. Ekki er vitað hvenær Lúkíanos lést en sagt er að hann hafi lifað Markús Árelíus.(3)

Móðurmál Lúkíanosar var eins og áður sagði ekki gríska, heldur aramaíska. Hann lærði grískuna þó vel og varð einn besti rithöfundur sem skrifaði á grísku á hans tíma. Lúkíanos telst til svonefndra attisista, en þeir lögðu sig fram um að skrifa grískan stíl sem allra líkastan klassískri attískri grísku, eins og Þúkídídes og Platon, Lýsías og Demosþenes höfðu skrifað.(4) Annar attisisti var Plútarkos, sem er uppi einni kynslóð á undan Lúkíanosi. Bent hefur verið á muninn á stíl þessara tveggja attisita. Plútarkos var Grikki og gríska var móðurmál hans. Hann hlaut góða menntun og sótti aftur í höfunda klassíska tímans en engu að síður er ljóst að stíllinn sem hann skrifaði er afkomandi klassískrar attískrar grísku sem hefur lifað af helleníska tímann. Stíll Lúkíanosar er á hinn bóginn hrein eftiröpun klassískrar attísku.(5)

Að minnsta kosti 82 verk eignuð Lúkíanosi hafa varðveist en flest þeirra munu raunverulega vera eftir hann. Sex þeirra eru ranglega eignuð honum en um önnur 28 verk ríkir ekki samkomulag.

II.

Helstu viðfangsefni Lúkíanosar eru trúarbrögð og heimspeki og hann gerir óspart gys að hvoru tveggja. Gömlu grísku trúarbrögðin eru einfaldlega of fráleit til þess að þau séu tekin alvarlega.(6) Þau eru mótsagnakennd og ganga engan veginn upp. Í “Prómeþeifi” er Prómeþeifur til að mynda látinn þræta við Hermes og Hefæstos sem eru önnum kafnir við að fjötra hann við klett uppi í Kákasusfjöllum eins og Seifur hafði skipað fyrir. Prómeþeifur hafði, að því er goðsagan segir, skapað mannkyn með því að móta það úr leir og hafði fengið Aþenu til þess að gefa því líf. Síðan stal hann eldinum af himnum og gaf mönnum og, þegar ósætti varð um hvaða hluta fórnardýrs skyldi fornað til guðanna, gabbaði hann Seif til að velja lakari part fórnardýrs, bein og fitu, sér til handa. Nú skyldi örn nokkur plokka úr honum lifrina á hverjum degi, þar sem hann var fjötraður við klettinn, en um nóttina myndi hún gróa að nýju.(7) Lúkíanos lætur Prómeþeif aftur á móti halda uppi vörnum fyrir það sem hann hafði gert og virðist hann hafa betri rök fyrir sínu máli. Hvers vegna ætti einhver bein að skipta sjálfan Seif svona miklu máli? Var hann búinn að gleyma því hvernig Prómeþeifur barðist með Seifi gegn Títönunum? Og hvers vegna skyldi Prómeþeifur ekki gæta mannanna sem hann hafði skapað? Ef engir menn væru til væri enginn til þess að tilbiðja Seif. Og hafa guðirnir tapað eldinum með því að menn hafa fengið hann? Nei, það er nægur eldur handa öllum. Hvers vegna myndi nokkur maður trúa á aðra eins guði?

En trúarbrögðin eru ekki einungis skotspónn Lúkíanosar, þau eru einnig eins konar rammi utan um umfjöllun hans um önnur efni eins og til dæmis heimspeki eða mannlífið almennt. Guðirnir koma oftar við sögu en þar sem snúið er út úr trúarbrögðunum. Í ”Karoni eða áhorfendum” ræðast þeir Hermes og Karon ferjumaður við dag einn þegar Karon bregður sér upp til uppheima til að sjá hvað það er sem menn sakna svo gífurlega þegar þeir deyja og fara til undirheima.(8) Karon og Hermes sjá hvernig mennirnir hamast við að verða sér úti um gull og önnur auðævi en vita ekki sjálfir að þeir muni deyja næsta dag. Þeir sjá líka þræði sem festir eru við mennina, líkt og þeir væru strengjabrúður. Þessir þræðir eru hluti örlagavefjarins sem örlaganornirnar spinna. Sumir hanga í þræði sínum hátt yfir öðrum en þeim mun hærra sem þeir hanga, þeim mun meira verður fallið.

III.

Eins og áður sagði verður heimspekin oft fyrir barðinu á Lúkíanosi.(9) Í ”Sölu heimspekinganna” halda Seifur og Hermes uppboð á heimspekingum. Kaupendur fá tækifæri til að spyrja heimspekingana hvað þeir viti og hvað þeir hafi að kenna og oftar en ekki eru svör þeirra kjánaleg og hlægileg. Samræðan er nokkurs konar reductio ad absurdum, eða niðursöllun í fáránleika, á mörgum af hugmyndum þeirra.

En hvers vegna er Lúkíanosi svona í nöp við heimspekina? Prima facie virðist sem honum hafi verið mjög í nöp við alla heimspeki en svo var þó ekki. Honum var fyrst og fremst í nöp við tiltekna heimspekinga, þá sem hann taldi vera loddara og hræsnara. Í verkinu ”Dauðir lifna við eða Veiðimaðurinn” hafa allir frægustu heimspekingarnir lifnað við og elta Lúkíanos á röndum um götur Aþenuborgar og ætla sér að grýta hann til dauða. Þeir hafa heyrt frá mönnum sem koma til Hadesar að Lúkíanos hæðist að þeim í ritum sínum. En Lúkíanos ver sig og segist alls ekki hafa hæðst að þeim, öðru nær, hann beri mikla virðingu fyrir þeim öllum. Hann hafi aftur á móti ráðist gegn þeim svindlurum og hræsnurum sem stunda heimspeki á hans dögum og kenni sig við Platon eða Epikúros eða einhvern hinna. Svo sannar hann mál sitt með því að fara upp á Akrópólishæð, setja pening á öngul og veiða upp heimspekinga. Þetta kemur ekki alveg heim og saman við ”Sölu heimspekinganna” því þar er margt sagt sem getur einungis átt við um einhvern hinna gömlu heimspekinga.

Heimspekingarnir fá misjafna útreið hjá Lúkíanosi og það getur verið freistandi að reyna að lesa á milli línanna hver raunveruleg skoðun Lúkíanosar var eða hvort hann hafi aðhyllst einhverja af þeim stefnum sem hann fjallar um. Epikúringar virðast fá besta umfjöllun hjá honum en andstæðingar þeirra, stóumenn, ásamt hundingjum þá verstu. Í ”Sölu heimspekinganna” fær Epikúros ekki að kenna á því eins og Krýsippos stóumaður. Hann er sagður eilítið vitrari en Demókrítos og Herakleitos og það er athyglisvert að tekið er fram að það felist í því að hann trúi síður á guðina en hinir. Síðan er hann keyptur strax án þess að þurfa að sitja fyrir svörum. Krýsippos aftur á móti fær skelfilega útreið. Hann kemur fyrir sem bullukollur sem snýr út úr fyrir manni með rökbrellum og þverstæðum af öllu mögulegu tagi. Og hundingjar eru hræsnarar upp til hópa. Í fljótu bragði virðist því sem Lúkíanos hafi átt nokkra samleið með epikúringum. En það væri óvarlegt að ætla að þar sem stóumenn og hundingjar fái verri útreið hljóti Lúkíanos að hafa verið epikúringur. Aristóteles er til dæmis annar heimspekingur sem ekki þarf að svara spurningum forvitins kaupanda í ”Sölu heimspekinganna”. Og hann er dýr miðað við hina heimspekingana, seldur á tuttugu mínur; Epikúros seldist á tvær. Lúkíanos er ekki þar með orðinn perípatetingur, fylgismaður Aristótelesar. En það virðist helst sem Lúkíanosi hafi fundist fræði Aristótelesar fánýt. Hann er til dæmis sagður vita hve lengi mýfluga lifir. Og hver þarf að vita það, annar en vísindamaðurinn Aristóteles? Annars fá perípatetingar að öllum líkindum minnsta athygli í ritum Lúkíanosar.

Þegar öllu er á botninn hvolft segir Lúkíanos hvergi að hann aðhyllist neina heimspekistefnu eða kenningu. Og allir heimspekingarnir sem koma fyrir í ritum hans eru hafðir að háði og spotti með einum eða öðrum hætti. Þess vegna er óráðlegt að kenna hann við eina stefnu fremur en aðra. Hann kann að hafa valið úr það sem honum þótti best úr hverri stefnu. Og ef til vill valdi hann úr það sem honum líkaði best án þess þó að reyna að steypa hugmyndunum saman í eitthvert kerfi. Þannig má vera að afstaða hans til heimspekinnar hafi ekki verið óáþekk afstöðu Hórasar.(10)

IV.

Selected Satires of Lucian er að mínu mati eitt besta safnið af verkum Lúkíanosar. Þýðingarnar eru í senn nákvæmar og læsilegar og skýringargreinar aftanmáls eru lesendum gagnlegar. En auk þess hefur verið vandað til við valið á verkunum, svo að segja má að hér sé nokkurn veginn allt það besta í einu bindi: “Sönn saga”, “Draumurinn”, “Prómeþeifur”, “Karon eða áheyrendurnir”, “Sala heimspekinganna” og “Dauðir lifna við eða Veiðimaðurinn” svo fátt eitt sé nefnt. Hér er gullmoli handa þeim sem hafa gaman af forngrískri goðafræði, húmor og heimspekingum fornaldar. Ef þið höfðuð gaman af Birtíngi Voltaires, Lofi lyginnar eftir Þorleif Halldórsson eða Lofi heimskunnar eftir Desiderius Erasmus frá Rotterdam þá kynni Lúkíanos að verðskulda athygli ykkar.

_______________________
Aftanmálsgreinar:
( 1) Um ævi Lúkíanosar, sjá Allinson, Francis G., Lucian, Satirist and Artist (New York: Cooper Square Publishers, 1963) 24-36. Í Allinson er afar góð alhliða umfjöllun um Lúkíanos. Einnig er að finna góða umfjöllun um Lúkíanos hjá Jones, C.P., Culture and Society in Lucian (Cambridge: Harvard UP, 1986).
(2) Sumir efast um gildi þess sem Lúkíanos segir í verkum sínum um eigin líf og benda á margar hliðstæður. Sókrates var t.d. steinhöggvari og Elegían og Tragedían þræta um Ovidius í Ástunum (= Amores) III.1. Sjá Russell, Donald, “The Arts of Prose: The Early Empire”, John Boardman, Jasper Griffin, Oswyn Murray (ritstj.), The Oxford History of the Classical World (Oxford: Oxford UP, 1986) 671. Ekkert virðist þó benda til þess að Lúkíanos hafi kunnað latínu mjög vel eða hafi lesið mikið af latneskum bókmenntum.
(3) Markús Árelíus dó árið 180 e.Kr.
(4) Platon (428-347 f.Kr.) er frægastur heimspekinga fornaldar, ásamt kennara sínum Sókratesi (469-399 f.Kr.) og nemanda sínum Aristótelesi (384-322 f.Kr.). Þúkýdídes (um 460-400 f.Kr.) er merkastur sagnfræðinga fornaldar. Hann er helsta heimild okkar fyrir Pelópsskagastríðinu. Lýsías (um 459-380 f.Kr.) var frægur ræðuhöfundur í Aþenu og Demosþenes (384-322 f.Kr.) er frægasti mælskumaður fornaldar. Allir fjórir skrifuðu attískan stíl þar sem þeir voru Aþeningar en Aþena liggur á Attíkuskaganum.
(5) Russell, op.cit. 670.
(6) Almennt um afstöðu Lúkíanosar til trúarbragða, sjá Allinson, op.cit. 65-99, Jones, op.cit. 33-45, Branham, R. Bracht, Unruly Eloquence: Lucian and the Comedy of Traditions (Cambridge: Harvard UP, 1989) 127-177. Um Lúkíanos sem höfund satíra, sjá Branham, op.cit. 11-123, um meðferð Lúkíanosar á samræðuforminu sjá Branham, op.cit. 81-104.
(7) Sjá t.d. Hesíódos, Goðakyn 501-570.
(8) Karon eða áhorfendur er til í íslenskri þýðingu Steingríms Thorsteinssonar og birtist í Skírni 119. árg. (1945) 111-130.
(9) Almennt um afstöðu Lúkíanosar til heimspekinnar, sjá Allinson, op.cit. 47-64 og Jones, op.cit. 24-32.
(10) Quintus Horatius Flaccus, eða Hóras (65 f.Kr.-8 e.Kr.) var eitt merkasta skáld gullaldarlatínunnar.
___________________________________