Sagan um Grænu míluna er ekki hefðbundin saga eftir Stephen King. Um ræðir framhaldssögu sem gefin var út árið 1996 og skiptist í sex hluta. Stephen King hefur ekki áður gefið út sögu í þessu formi en sjálfur segir hann að fyrirmyndin sé sótt til rithöfunda eins og Charles Dickens sem gjarnan höfðu þennan háttinn á.

Þegar fyrsti hlutinn var gefinn út hafði King enn ekki lokið við söguna. Sjálfur segist hann aldrei hafa hugsað söguna til enda þegar hann hóf að rita hana. Í upphafi hafi hann aðeins ætlað að athuga hvort hægt væri að gefa út sögu með þessu formi. Það reyndist vera þar sem sagan fékk gríðarlega góðar viðtökur hjá lesendum.

Sagan fjallar um gamlan mann, Paul Edgecombe, sem rifjar upp sérkennilegan atburð úr lífi sínu þegar hann starfaði sem fangavörður á dauðadeild fangelsis í Bandaríkjunum á kreppuárunum. Dauðadeildin ber heitið Græna mílan.

Þessi atburður á eftir að hafa mikil áhrif á Paul og aðra fangaverði sem þar starfa. Upphaf þessa er að blökkumaður að nafni John Coffey er færður á Grænu míluna og bíður dauðadóms vegna morðs á tveimur hvítum stúlkum. John þessi er afar sérkennilegur; er gríðarmikill vexti en virðist hafa mjög lítið hjarta og er ekki gæddur miklum gáfum. Fljótlega eftir komu hans uppgötva Paul og hinir fangaverðirnir að John er ekki líklegur að hafa myrt stúlkurnar enda einstaklega góðlyndur maður. Þeir uppgötva einnig að John hefur yfirnáttúrulega hæfileika, einhvers konar læknamátt.

Græna mílan er einstaklega skemmtilega saga sem ætti að hrífa hvern þann sem hana les. Sagan hefur komið út í íslenskri þýðingu hjá bókaútgáfunni Fróða. Fyrir ekki margt löngu síðan var sagan kvikmynduð með mjög góðum árangri. Kvikmyndin er ótrúlega lík þræði bókarinnar og eru ekki miklar breytingar gerðar eins og oft vill verða, enda handritshöfundur kvikmyndarinnar Stephen King sjálfur.

Ég hvet hvern þann sem áhuga hefur á skemmtilegum bókum að lesa þessa sögu og að sjálfsögðu að sjá kvikmyndina líka.

Birgir J.