Það mætti ef til vill segja að eilítil þáttaskil hafi orðið í bókaútgáfu landsins árið 1990. En á haustdögum þess árs kom út hjá Erni og Örlygi fyrsta alfræðiorðabók þjóðarinnar, Íslenska alfræðiorðabókin. Hugsa sér að ekki sé lengra síðan Íslendingar eignuðust sína fyrstu alfræðiorðabók. Og það sem er jafnmerkilegt er að hún er enn – að því er ég best veit - eina alfræðiorðabókin á íslensku ef frá er talin Alfræði unga fólksins. En það hlýtur að teljast mikilvægt íslenskri menningu að til sé uppflettirit af þessu tagi á íslensku. Þetta er því fyrir margar sakir merkileg bók og því hef ég ákveðið að skrifa niður nokkrar hugleiðingar um hana. En sökum þess hvers konar bók er hér á ferðinni verður ekki gerð nein tilraun til þess að gera efni hennar nein tæmandi skil.

Íslenska alfræðiorðabókin kom út árið 1990 eins og áður sagði en unnið hafði verið að henni samfellt frá árinu 1985 undir ritstjórn Dóru Hafsteinsdóttur og Sigríðar Harðardóttur. Bókin er í þremur bindum, rúmlega átjánhundruð tölusettar blaðsíður en blaðsíðutal er ekki samfellt. Yfir 35 þúsund uppflettiorð eru í bókinni auk um 4500 ljósmynda, teikninga, korta og taflna. Bókin byggir á danskri alfræðiorðabók, FAKTA, sem kom út hjá Gyldendalske Boghandel, Nordisk Forlag A/S 1988, en ýmsir sérfræðingar voru fengnir til þess að semja greinar um séríslensk efni í bókina.

Einn kostur við íslenska alfræðiorðabók er sá að hún kemur ýmsum nýyrðum á framfæri og stuðlar að samræmdum rithætti og notkun fræðiorða. En þetta hefur ekki alltaf tekist. Ég nefni umritun rómverskra og forngrískra nafna sem dæmi. Alröng ákvörðun var tekin um að nöfnin Cato og Catullus, Cicero og Caesar skyldu breytast í Kató og Katúllus, Síseró og Sesar. Gríski sagnfræðingurinn Heródótos heitir allt í einu Heródót, heimspekingurinn Pyrrhon heitir Pyrrón o.s.frv. Hér hefur ekki verið leitað ráða hjá sérfræðingi en íslenskir fornfræðingar vinna nú að gerð lista yfir samræmdan rithátt nafna fornmanna.

En bókin er líka barn síns tíma. Ýmislegt hefur breyst í landafræði og stjórnmálum síðan 1990 og tækninni hefur fleygt áfram. Nú er engin leið að taka saman alfræðiorðabók sem stenst tímans tönn með tilliti til breytinga af þessu tagi. En alfræðiorðabók verður aldrei fullunnin ef vel á að vera, frekar en aðrar orðabækur. Og því þarf að vinna að nýrri, endurskoðaðri og beturumbættri útgáfu bókarinnar sem er að mínu mati orðin tímabær. Í nýrri útgáfu þyrfti því að staðfæra greinar þar sem breytingar hafa orðið (t.d. í landafræði, stjórnmálum og tækni og vísindum) en einnig mætti auka við fjölda uppflettiorða og lengja nánast allar greinar þannig að umfjöllunin yrði ítarlegri, en oft er alfræðiorðabókin alls ekki nógu ítarleg. Niðurstaða mín er því þessi: Íslenska alfræðiorðabókin er brautryðjendaverk. En brautryðjendur ryðja veginn fyrir þá sem á eftir koma og það er tímabært að útgáfu bókarinnar verði nú fylgt eftir með nýrri útgáfu. Því bókin er að úreldast og brátt verður ekkert íslenskt alfræðirit sem mark er á takandi.

Hins vegar er lítill markaður fyrir alfræðiorðabók á Íslandi. Ný útgáfa bókarinnar myndi kosta töluvert sem kæmi fram í verði bókarinnar og ég efast um að hún myndi seljast mikið. Aftur á móti er Íslenska alfræðiorðabókin það mikilvægt verk að það væri vel þess virði að styrkja aðra útgáfu þess. Það hljóta að vera til sjóðir til þess eða hvað? Í það minnsta hefur fé landsmanna farið í margt vitlausara.
___________________________________