Það var loks núna um helgina að ég kom mér til að lesa Óvinafagnað eftir Einar Kárason. Ég hef lengi ætlað mér að gera það en einhvern veginn hefur alltaf eitthvað komið í veg fyrir það. Kannski vegna þess að Einar K. er ekki einn af mínum uppáhaldsrithöfundum, en hann hefur samt verið að vinna á. Sem dæmi þá fannst mér Norðurljós virkilega góð.

En Óvinafagnaður kom mér algerlega í opna skjöldu. Bókin er virkilega vel gerð í alla staði og það er langt síðan; eiginlega síðan ég las Englar alheimsins fyrst; ég hef verið jafn dolfallinn yfir nýrri skáldsögu. Það er ekki nóg með að sagan er frábærlega útfærð heldur er hún öll svo skemmtileg, þrátt fyrir að verið sé að lýsa einu ömurlegasta skeði Íslandssögunnar.

Frásagnarháttur bókarinnar er svo sem ekki nýr af nálinni en Einari tekst virkilega vel til. Hann skiptir frásögninni niður á persónur sögunnar, þannig að oftar en eki fær maður á tilfinninguna að verið sé að klippa saman söguna úr réttarskýrslum og yfirheyrsluskýrlsum lögreglunnar. Allt kemur þetta undarlega flott út og lesandinn fær nýja og skemmtilega sýn á Sturlungaöldina.

Það sem mér fannst merkilegast samt var hvernig Einar notaði nútímatalmál og málkæki á mismunandi persónur. Það liggur við að maður heyrði hvernig raddir sumra persónanna hljómuðu og maður kannaðist við tón og málfar annarra, svo að á stundum lá mér við hlátri. Sérstaklega varð ég var við þetta hjá Dufgusbræðrum og Tuma Sighvatssyni.

Mér finnst að Einar K. hafi þroskast mikið síðan hann var að skrifa ,,Eyju-bækurnar". Það er allt annar tónn og allt önnur frásagnargleði sem er í þessum nýju bókum hans. Eitthvað sem er undir niðri, kitlandi háð en jafnframt djúpstæð virðing á sögu Íslands….eða hvað finnst ykkur?