Orðin eru björgunarsveitir

Í þessari grein ætla ég að fjalla um rithöfundinn Jón Kalman Stefánsson en hann var einmitt umfangsefnið í heimildaritgerð sem ég skrifaði fyrir ÍSL503 í vor. Hér er brot úr henni, enda er aldrei nóg talað um frábæran höfund.
 
Í febrúar las ég Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson og sú bók hreif mig meira en ég hafði gert mér í hugarlund að hún gæti. Jón skrifaði þar á fallegri íslensku um sjómenn sem veiddu í Djúpinu fyrir meira en hundrað árum, en það sem heillaði mig mest var notkun hans á líkingum.
 
Orðin okkar eru einskonar björgunarsveitir í þrotlausu útkalli, þær eiga að bjarga liðnum atburðum og slokknuðum lífum undan svartholi gleymskunnar og það er alls ekki smátt hlutverk, en þær mega í leiðinni gjarnan finna einhver svör, og síðan bjarga okkur héðan áður en það verður um seinan.

 
Í þessu textabroti úr Himnaríki og helvíti er augljóst hversu mikið vald Jón Kalman hefur á myndmáli og líkingum, semsagt sjálfum orðunum. Það sem er mikilvægast er þó hvað hann nær að draga upp fallega lýsingu og beygja orðin nákvæmlega eftir vilja sínum. Þessi eiginleiki hans hefur laðað að sér fjölda íslenskra lesenda, einnig fyrir utan landsteinanna þar sem bækur hans hafa verið þýddar á fjölda tungumála.
 
Verk Jóns Kalmans eru rituð og gefin út í enda 20. aldarinnar og í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu undir stefnu póstmódernismans. Hrærigrautsstefnu líðandi stundar.
 

En látum þetta duga í bili, við sendum orðin áfram til þín, þessar ráðvilltu, tvístruðu björgunarsveitir, þær eru óvissar um hlutverk sitt, allir áttavitar bilaðir, landakortin rifin eða úrelt, en taktu samt á móti þeim. Svo sjáum við til hvað gerist.


 
Skáldið sem fangar fortíðina: um höfundinn


Jón Kalman Stefánsson er fæddur 17. desember árið 1963. Fyrstu tólf árin bjó hann í höfuðborginni en flutti svo til Keflavíkur þar sem hann útskrifaðist ungur maður frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Eftir það lá leið hans aftur til Reykjavíkur en næstu sjö árin flakkaði hann á milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar þar sem hann vann til dæmis í sláturhúsinu í Búðardal og átti svo við ýmis störf í þrjú ár, t.d. í saltfiskvinnslu og múrverki. Þessi sveitastörf hafa eflaust komið hugmyndaflugi hans af stað, þar sem hann hefur skrifað margar bækur sem fjalla einmitt um lífið í íslenskri sveit.
 
Það var árið 1986 sem hann hóf nám í Háskóla Íslands í bókmenntafræði. Hann kláraði aldrei námið og hætti 1991. Það var á þessum árum sem hann gaf út sína fyrstu ljóðabók, Með byssuleyfi á eilífðina, árið 1988. Þar með hóf hann feril sinn sem ljóðskáld. Hann reyndi sig svo áfram sem kennari og kenndi bókmenntir á framhaldsskólastigi en entist ekki lengur en eitt ár. Á þessum árum byrjaði hann að skrifa greinar og ritdóma fyrir Morgunblaðið. Árið 1992 flutti Jón Kalman til Kaupmannahafnar þar sem hann eyddi tíma í lestur, skúringarstörf og að telja strætisvagna til ársins 1995.
Tíminn sem hann eyddi í Danmörku hefur greinilega verið frjósamur þar sem hann gaf út sitt fyrsta smásagnasafn, Skurðir í rigningu, árið 1996 hjá bókaforlaginu Bjarti. Þar með hófst ferill hans sem rithöfundur sem átti eftir að blómstra á næstu árum og halda sér á stanslausri uppleið til dagsins í dag. Til ársins 2000 vann hann sem bókavörður við Héraðsbókasafnið í Mosfellsbæ en hefur síðan starfað sem rithöfundur og gefur út prósaverk á tveggja ára fresti frá dvalarstað sínum í Mosfellssveit.

Jón Kalman hefur unnið og verið tilnefndur til margra verðlauna bæði hér á landi og í löndunum í kring.  Árið 2005 fékk hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna sína Sumarljós, og svo kemur nóttin. Hann hefur einnig þrisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bækurnar Sumarið bakvið brekkuna, Ýmislegt um risafurur og tímann og Sumarljós, og svo kemur nóttin.

Augljóst er í verkum Jóns að hann hefur dálæti á að skrifa sögur um liðinn tíma og minningar sem ekki mega gleymast. Í fyrstu þremur skáldsögunum hans er sögumaðurinn að rifja upp fortíðina. Nostalgía eða fortíðarþrá einkennir mikið skáldverk Jóns Kalmans. Tvíræðini gætir í skáldskap hans þar sem efnið er stundum viljandi klisjukennt og gætu sögur hans verið kallaðar „skrumskælingar á íslenskum sveitasögum og náttúrurómantík.” Tvíræðnin felst þó í því að sögumaðurinn er, þrátt fyrir þetta, haldinn saklausri kaldhæðni og háði í fortíðarþrá sinni sem felur þó í sér einlægan söknuð. Jón virðist þá vera fullkomlega meðvitaður um það að fortíðin er liðin og verður ekki endurheimt nema í gegnum skáldskapinn. Hann áttar sig líka á því að fortíðin getur stundum verið algjör uppspuni hugans og kemur það skýrt í fram, enda er skáldskapur ekkert annað en minningar sem minnið hefur umbreytt og spunnið upp úr.
 
,,Helvíti er að vita ekki hvort maður er lifandi eða dáinn."
 
Þau verk Jón Kalmans sem hafa verið vinsælust er bókaflokkurinn um strákinn í plássinu, bækurnar Himnaríki og Helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins. Himnaríki og helvíti kom út árið 2007 og fylgdu Harmur englanna og Hjarta mannsins eftir á árunum 2009 og 2011 sem sjálfstæð framhöld. Hér skal aðeins fjallað um Himnaríki og helvíti.
 
Himnaríki og helvíti fjallar um sjómenn sem sigla um Djúpið á Vestfjörðum á sexæringi fyrir hundrað árum síðan, eða eins og sögumaðurinn lýsir í bókinni: „Sjórinn hélt þeim uppi, hann heldur okkur öllum uppi sem búum hér við endimörk veraldar.”  Í veruleika sögupersónanna er munurinn á milli lífs og dauða aðeins einn stakkur og það er sjórinn sem hefur mesta valdið. Það er skýrt í þessari tilvitnun:
 

Sjórinn er kuldablár og aldrei kyrr, risaskepna sem dregur andann, umber okkur oftast, en stundum ekki og þá drukknum við; saga mannsins er ekki ýkja flókin.

Fortíðarþráin sem hefur einkennt fyrri verk Jón Kalmans er skýr í Himnaríki og helvíti.  Inn á milli frásagnarinnar um strákinn, og Bárð besta vin hans, greinir sögumaðurinn frá fortíð stráksins. Mjög sterk lýsing af missi er að finna í bókinni þegar rifjaður er upp föðurmissir stráksins:
 

...en móðir hans stóð og horfði eitthvað burt, hendurnar héngu niður með síðum, eins og dánar, helvíti er að hafa handleggi en engan til að faðma.

 
Það eru semsagt áhrif einstakra setninga og líkinga sem gera bókina að meistaraverkinu sem hún er. Það má jafnvel segja að sumar setningarnar líkist frekar ljóðlistinni en prósa. Eitt ráðandi þema er í bókinni, en það er endurtekningin á því hvað himnaríki og helvíti er. Til dæmis:
 

Helvíti er að vita ekki hvort maður er lifandi eða dáinn.
Helvíti er að vera dáinn og átta sig á því að þú sinntir ekki lífinu meðan þú hafðir tækifæri til þess.
„...kannski er helvíti bókasafn og þú ert blindur.”

Ég komst þó að þeirri niðurstöðu að mun meira er um helvíti í bókinni en himnaríki, enda gat ég ekki fundið til vísun í himnaríki þrátt fyrir mikla leit.

Fortíðarþráin og liðin tíð

Það er augljóst að Jón Kalman er hrifinn af því að rita um fortíðina og grafnar minningar sem verða túlkaðar að nýju í skáldsagnaformi. Verk hans fjalla flest um liðna tíma, annað hvort um bernskuminningar eða líf Íslendinga um aldamótin 1900. Fortíðarþráin er augljós þráður í gegnum skáldverk hans og má segja að það sé eitt af hans megin þemum. Annað einkenni við skáldskap hans eru undursamlegu líkingarnar sem hann galdrar endalaust upp rétt eins og það sé honum í blóð borið.
 
Það er augljóst að hann fellur undir stefnu póstmódernismans þar sem skáldskapur Jóns Kalmans brýtur hefðbundnar reglur, hann beitir ekki þessari hefðbundu skáldsagna uppsetningu heldur brýtur sögurnar upp í senur og stemmingslýsingar sem hjálpa mikið við að bera fram fortíðarþrána sem hann matreiðir svo vel fyrir lesandann.
 
Ég mæli eindregið með bókinni Himnaríki og helvíti og í sumar ætla ég dýfa mér í lestur á Harmi englanna og Hjarta mannsins. Ég vona að greinin hafi verið fróðleg og hvet ykkur til að kíkja á verk hans.
 
 Heimildir:

  1. Brynja Baldursdóttir og Hallfríður Ingimundardóttir. 2007. Tíminn er eins og vatnið. IÐNÚ, Reykjavík.
  2. Jón Kalman Stefánsson. 2007. Himnaríki og helvíti. Bjartur, Reykjavík.
  3. Sölvi Björn Sigurðsson. 2002. Um höfundinn. http://www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3903/6066_read-18702/RSkra-78
  4. [Án höfundar] 2011. Jón Kalman Stefánsson. http://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Kalman_Stef%C3%A1nsson
  5. [Án höfundar] Jón Kalman Stefánsson. http://www.bjartur.is/?i=6&f=4&o=711
  6. [Án höfundar] Jón Kalman Stefánsson. http://www.sagenhaftes-island.is/islenskar-bokmenntir/hofundar/nr/136
  7. [Án höfundar] Verðlaun og viðurkenningar. http://www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3949/6069_read-19044/RSkra-78
"Reading is one form of escape. Running for your life is another."