Mig langar til að segja ykkur frá bandarískum höfundi, og einni aðalsöguhetjunni hennar. Höfundurinn er Laurell K. Hamilton, og söguhetjan er Anita Blake. Fyrir þá sem hafa gaman af fantasíum og ævintýrum, þrátt fyrir að vera komnir til vits og ára, þá er þetta ágætur staður til að vera á. Þetta eru engar barnabækur, og þær eru ekki fáanlegar á íslensku (ég skal þýða- hver vill borga mér og fyrir útgáfuna :)
Anita Blake er ung, kristin kona, sem er dávaldur dauðra (e. necromancer). Þetta er meðfæddur eiginleiki hennar, svona svipað og að vera örvhentur, og ef hún notar hann ekki þá minnkar hann, en ekki vandræðalaust. Í einni bókinni er útskýrt að þegar hún var lítil stelpa þá hafi hundurinn hennar dáið eftir að hafa orðið fyrir bíl. Barnið Anita var ekki alveg sátt við það, og eina nóttina skreið hundurinn því dauður upp úr gröfinni sinni og inn til hennar. Þessi hæfileiki gerir það einnig að verkum að Anita er tilvalinn vampýrubani, þar sem vampýrurnar geta ekki dáleitt hana eins og annað fólk.
Bækurnar gerast í náinni framtíð í Bandaríkjunum, í St.Louis, í svona hliðarveröld (e. parallel universe), þar sem vampýrur, álfar, tröll, varskepnur af ýmsum toga, og önnur skrímsli leika lausum hala. Vampýrur hafa t.d. hlotið skv. hæstaréttardómi úrskurð um ákveðin grundvallarmannréttindi, og því er það morð að drepa vampýru án dómsúrskurðar um það. Vampýrur reyna því að vera virðulegt viðskiptafólk, eiga mennska maka, og vera bara gott fólk. Vampýrurnar eiga sína eigin kirkju þar sem eilíft líf er fúlasta alvara, og lítið mál að áorka.
Allt þetta gerir líf Anitu æ flóknara, en hún berst samt enn við samvisku sína, vúdúmeistara, leigumorðingja, varúlfa, vampýrur og hvers konar skrímsli, mennsk sem ómennsk.
Bækurnar eru ágætlega skrifaðar, með mikinn gálgahúmor, uppfullar af blóði, ofbeldi, kynlífi og ást. Þar sem þetta eru ekki barnabækur er ástin sjaldnast lukkuleg, ofbeldið er gróft og húmorinn er frekar kaldhæðnislegur. Ég er nú búin að vara ykkur við, og þeir sem hafa áhuga mega því ekki flame-a mig ef þetta slær ykkur sem subbulegar bókmenntir.
bóka-orma-lestrar-hesta kveðja…
-oink oink flop flop-