Alþjóðlegur dagur bókarinnar er í dag þann 23. apríl. Af því tilefni langar mig að setja á blað nokkur orð um hinn merka spænska rithöfund, Miguel de Cervantes Saavedra, sem þekktastur er fyrir að hafa ritað söguna um riddarann hugprúða Don Kíkóta.

Miguel de Cervantes Saavedra var fæddur í bænum Alcalá de Henares, í nágrenni við Madrid á Spáni árið 1547. Faðir hans var af lægri aðalsættum, þeim stigum þjóðfélagsins sem áttu ágætt ættarnafn en áttu ekki fyrir salti í grautinn. Töluvert basl var á fjármálum fjölskyldunnar og eyddu þau drjúgum tíma í að fela sig fyrir lánadrottnum. Fjölskyldufaðirinn lenti meðal annars í fangelsi vegna skulda en tókst að fá sig lausan af því hann gat sannað með ættfærslum að um hans hárfínu æðar rynni blátt blóð. Þannig var það nú í denn.

Ekkert er vitað um námsferil Cervantes, en þó er talið ólíklegt að hann hafi nokkurntíma stundað háskólanám. Cervantes lenti oft í útistöðum við yfirvöld vegna ýmissa óknytta, hafði gaman af því að berja mann og annan. Árið 1570 gekk Cervantes í herinn og barðist gegn tyrkjum í orrustunni við Lepanto árið 1571. Í þeirri orrustu særðist hann á vinstri hendi og hafði aldrei gagn af henni síðan. (Heppilegt að það var ekki sú hægri með tilliti til þess að hann átti eftir að helga sig ritstörfum). Hann gengdi áfram herþjónustu þrátt fyrir fötlunina og var tekinn til fanga af márum ásamt bróður sínum Rodrigo árið 1575 í Argel í N-Afríku. (Og nú þekki ég staðhætti ekkert sérlega vel, ég hef ekki hugmynd um hvar sá staður er. Segjum bara Marokkó) Í Argel sat hann sat í fangabúðum í fimm ár. Cervantes gerði fjórar flóttatilraunir sem allar misheppnuðust. Hann hefur verið mikill bjartsýnismaður því að ein flóttaáætlunin gekk út á að fara niður að strönd, stela árabát og róa yfir til Spánar. (Þið munið að hann hafði ekkert gagn af vinstri hendinni, það hefði verið gaman að sjá þetta).

Á meðan gerði fjölskylda bræðranna á Spáni allt sem í hennar valdi stóð til að fá bræðurna lausa, sendu bænaskjöl til kóngs og prests til að fá þá til að beita áhrifum sínum. Rodrigo var látinn laus en lausnargjalds var krafist fyrir Cervantes. Að fimm árum liðnum hafði þeim þó tekist að betla saman þeirri upphæð sem krafist var í lausnargjald, 500 escudos og var hann látinn laus í september árið 1580. Þegar hann sneri aftur til Spánar, þrjátíu og þriggja ára að aldri var fjölskyldan stórskuldug. Allir kraftar og fjármunir fjölskyldunnar höfðu farið í að endurheimta glataða soninn.

Cervantes hafði ávallt sýnt ritstörfum áhuga og vildi helga sig þeim, en fjárhagurinn krafðist þess að hann aflaði tekna á áhættuminni vegu. Þrátt fyrir að vera handlama, gekk hann aftur í herinn. Hann sóttist eftir því að komast með hernum til Indlands (Ameríku) til að byrja nýtt líf en var alltaf hafnað þar sem þekking hans nýttist best á málefnum hersins í N-Afríku. (Ameríski draumurinn er jafngamall Ameríku. Spánverjar voru mjög lengi að taka það í sátt að Kólumbus hefði fundið nýja heimsálfu. Allan tímann sem Spánverjar áttu nýlendur í Ameríku var hún kölluð Indland.) Veru Cervantes í hernum lauk með skömm eftir að hafa verið sakaður um þjófnað. Hann var fangelsaður og á endanum sýknaður, en gert að yfirgefa herþjónustu.

Þá stofnaði hann fjölskyldu og hóf ritstörf. Fyrsta bók hans, La Galatea kom út 1584 en hlaut ekki athygli. (Hjarðsaga, smalar eigra um haga og engjast í platónskri ást). Nafn Cervantes fjölskyldunnar hafði beðið álitshnekki vegna fjárhagsvandræða þeirra og þeirra úrræða sem fjölskyldan hafði þurft að grípa til í þeim tilgangi að ráða bót á þeim vanda. Eldri systir Cervantes var nafntoguð vændiskona og sú yngri var upp á miskun samborgara sinna kominn með ölmusu. Cervantes naut því ekki sannmælis sem rithöfundur þar sem hann þótti ekki nógu merkilegur maður.

Á þessum tíma var siður rithöfunda að fá aðra rithöfunda til að skrifa ljóð til að lofsama verkið áður en það var formlega gefið út, væntanlega til að gera verkin seljanlegri. Auglýsingaskrum er ekki bara okkar tíma vandamál. Árið 1604 gekk Cervantes manna á milli með Don Kíkóta til að fá einhvern til að mæra það í kvæði. Sú umleitan bar engan árangur þar sem ekki nokkur maður með snefil af sjálfsvirðingu var tilbúinn til að leggja nafn sitt við verk Cervantes, auk þess sem menntasnobbum þótti bókin lágkúruleg. Þrátt fyrir það naut bókin gífurlegra vinsælda meðal almennings er hún kom út.

Árið 1605 var maður myrtur á útidyratröppum Cervantes fjölskyldunnar. Cervantes var strax grunaður um morðið, en ekkert var sannað né afsannað. Cervantes neitaði alltaf staðfastlega, en almannarómur hafði þegar dæmt hann. Slæmt orð fór af því kvenfólki sem hjá honum bjó, og þar sem Cervantes var eini karlmaðurinn í húsinu þótti líklegast að hann hefði framið verknaðinn.

Þó að Cervantes væri ekki í miklum metum hjá bókmenntaelítunni á þessum tíma, varð ekki litið fram hjá því að Don Kíkóti var orðinn of vinsæll til að hægt væri að hundsa hann lengur. Fyrri verk hans voru nú endurútgefin og seldust jafnóðum upp, elítunni til mikillar armæðu (þau verk voru líka misgóð, sérstaklega var Cervantes slakt ljóðskáld.) Þrátt fyrir þessar miklu vinsældir komst Cervantes aldrei í góðar álnir og dó í sárri fátækt þann 23. apríl 1616, á þeim degi sem síðar varð alþjóðlegur dagur bókarinnar.

Sama dag árið 1616 geyspaði William nokkur Shakespeare golunni þar sem hann var staddur nokkur þúsund kílómetrum norðar. Shakespeare hafði reyndar líka fæðst á þessum degi árið 1564. Nokkur hundruð árum síðar og mörg þúsund kílómetrum norðar fæðist svo Halldór Laxness. Á þessum sama degi. Skondin tilviljun það.

Kveðja,
Dulcinea