Keppni - Ég get séð um mig sjálf Ég sendi þessa grein í auglýsta greinarkeppni. Enn er tími til stefnu og ég hvet sem flesta til að taka þátt og skrifa um uppáhalds bókina sína. Mér finnst að a.m.k. þrjár greinar (og helst fleiri) þurfi til að halda keppni.

Eins mikið og ég vildi nefna einhvert bókmenntalegt meistarastykki eftir Nóbelsverðlaunahöfund sem uppáhalds bókina mína, get ég það ekki með góðri samvisku.

Þegar ég kafa djúpt ofan í sálarfylgsni mín og hugsa um uppáhaldsbók, bók sem ég hef lesið oftar en einu sinni, oftar en tvisvar, oftar en þrisvar o.s.frv. er ein bók sem sækir fastar á mig en flestar aðrar og hún er ekki stórkostlegt bókmenntaverk eftir Nóbelsskáld.

Um er að ræða unglingabók með öskubuskusögu sem heitir Ég get séð um mig sjálf. Hún er eftir breskan höfund að nafni Liz Berry, sem ekki einu sinni er til Wikipedia-síða um!
Tvær aðrar bækur eftir Berry komu út í íslenskri þýðingu á 9. áratug síðustu aldar, Er þetta ást? og Frjáls eða fjötruð þar sem svipað þema ræður ríkjum. Mér finnst þær líka æðislegar (þótt mér ætti ekki að finnast það) en ég las Ég get séð um mig sjálf fyrst af þeim og held mest upp á hana.

Bókin segir frá hinni 17 ára Mel Calder sem býr í niðurnýddu fátækrahverfi með alvarlega þunglyndri móður sinni. Þegar mamma hennar fær áfall og þarf að leggjast inn á sjúkrahús og félagsmálayfirvöld ætla að fara að ráðskast með Mel segir hún stopp og ætlar að sjá um sig sjálf. Hún fær leyfi til að flytja inn til nágrannafjölskyldu sinnar og ákveður að reyna að flikka upp á húsið sem hún og mamma hennar búa í, í þeirri von að mömmu hennar muni líða betur þar þegar hún kemur aftur. Endurbótaverkefni Mel virðist kveikja í fleiri íbúum á svæðinu sem bjóða henni aðstoð sína og fara jafnvel að fordæmi hennar og vilja bæta umhverfi sitt. Hún kynnist nýju fólki, nágrönnunum, skransalanum Lou og dóttursyni hans, Mitch, sem Mel finnst furðulega vel til hafður af atvinnulausum slæpingja sem segist vera í hljómsveit. Svo hefur ungi myndarlegi myndmenntakennarinn Keith Edwards, lofað að hafa auga með henni og aðstoða hana. Endurbæturnar á húsinu ganga vel en þegar Mitch vill að Mel endurgreiði honum fyrir þá aðstoð sem hann hefur veitt henni, með því að fylgja sér á verðlaunaafhendingu til heiðurs hljómsveitinni hans (sem er ein vinsælasta hljómsveit heims) renna á hana tvær grímur.

Reyndar er kaflinn þar sem Mitch og Mel fara í verðlaunaafhendinguna sem breytist í allsherjar sirkus og endar í matarslag og eltingarleik púðluhunds og kattar, einn sá fyndasti sem ég man eftir að hafa lesið.

Ég veit ekki ekki hvort öskubuskuþema sé rétta orðið fyrir þessa klassísku sögu um fátæka stelpu sem hittir ríka rokkstjörnu, sem er samt bara litli strákurinn úr hverfinu.

Klassíkst þema eða klisja? Kannski ætti ég að vera vaxin upp úr þessum ævintýrum en raunin er að ég er það ekki. Ég veit ekki hvort ég mun nokkurn tíma gera það. Ég vona að ég muni alltaf geta notið skemmtilegrar ástarsögu sem sögð er í gegnum athylisverðar, sterkar og viðkunnanlegar persónur.

Ég vil líka meina að hér sé sögð saga um von. Mel lætur ekki bugast þótt hún þurfi að standa á eigin fótum og aðstæður hennar séu erfiðar. Hún nær að framkvæma það sem hún ætlaði sér, leggja grunn að því að bæta aðstæður sínar enn frekar (og það ekki í gegnum Mitch) og finnur ástina.

Það er hægt að lesa Ég get séð um mig sjálf sem sögu um hvað manneskjan getur gert þrátt fyrir slæmmar aðstæður, að ekki eigi að gefast upp og ekki gefa upp vonina. Það finnst mér gera hana að verðugri uppáhalds bók.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.