Votlendi eftir Charlotte Roche Ég hef aldrei áður þurft að velta fyrir mér á hvaða áhugamál ég ætti að senda grein. Ég held, að helst hefði ég viljað senda hana inn á Kynlíf 18+ en ákvað svo að grein um bók á heima á áhugamálinu Bækur. Þrátt fyrir að mig hafi langað að senda þessa grein inn á áhugamál bannað innan 18 ára er greinin leyfð öllum aldurshópum. Ég er samt ekki viss um að bókin ætti að vera leyfð fyrir yngri en 16 ára og enginn ætti að kvelja sig í gegnum hana.

Votlendi eftir hina þýsku Charlotte Roche er ógeðslegasta bók sem ég hef lesið.

Stóra spurningin er: Af hverju? Umfjöllunarefnið ætti ekki að vera ógeðslegt þar sem meginþemað er kvenlíkaminn og starfsemi hans. Líklega var það eitt af markmiðum höfundarins með bókinni að fá fólk til umhugsunar um tepruskap samtímans og þær körfur sem gerðrar eru til kvenna um útlit og hreinlæti. Af hverju sést til dæmis aldrei neitt sem minnt gæti á blóð í dömubindaauglýsingum? Þar er allt hvítt eða heiðblátt.

Í Votlendi segir frá Helen Memel sem er 18 ára gömul og á leið í aðgerð á sjúkrahúsi vegna ígerðar í skurði sem hún fékk þegar hún var að raka sig á milli rasskinnanna. Frásögn bókarinnar nær yfir þá daga sem Helen dvelur á sjúkrahúsinu þar sem hún hefur lítið annað að gera en að pæla í tilverunni á sinn einstaka hátt. Það sem liggur helst á Helen þessa daga (og að því er virðist, flesta daga) er líkami hennar, kynlíf og fjölskyldan.

Helen er engin tepra þegar kemur að líkama sínum, hreinlæti og kynlífi. Meðal umhugsunarefna hennar um líkamann eru gyllinæð, tár, munnvatn, hægðir o.fl. Þegar kemur að hreinlæti veltir hún meðal annars fyrir sér handþvotti eftir klósettferðir, þvotti kynfæra og túrtappaiðnaðinum og í tengslum við kynlífi er minnst á sjálfsfróun, endaþarmsmök, avókadókjarna og fleira.

Það sem vakti athygli mína á bókinni voru Bókatíðindi 2009 þar sem segir „Votlendi varð mikil metsölubók í Þýskalandi þegar hún kom út árið 2008 og hefur verið gefin út um allan heim. Höfundurinn, Charlotte Roche, hefur ýmist verið kölluð kvenfrelsishetja eða ódýr klámhöfundur.“ (bls. 118).

Ég hefði haldið að markmið klámhöfunda væri að örva lesendur sína kynferðislega. Ég skal viðurkenna eigin perraskap og játa að það er spennandi að lesa um það sem ekki má eða litið er hornauga. Ég get þó ekki séð að kynferðisleg örvun lesenda sé markmið Roche í Votlendi. Ég veit hinsvegar ekki hvort ég sé tilbúin að útnefna Roche kvenfrelsishetju en mér finnst hún komast nær því en klámhöfundinum. Vissulega eru sumar þeirra krafna sem gerðar er til útlits og hreinlætis fáránlegar en hér er farið út í öfgar hinum megin. Það þjónar því sem ég myndi segja að væri meginmarkmið bókarinnar: að hneyksla fólk.

Ég tel mig ekki alveg fædda í gær hvað lesefni varðar en á köflum var mér nóg boðið. Þrátt fyrir allt ógeðið hélt ég samt áfram að lesa. Þótt mér væri óglatt hélt ég áfram, þetta var eins og bílslysið sem maður getur ekki haft augun af þótt það sé hræðilegt.

Var nauðsynlegt að ganga svona langt? Líklega ekki. Skilaboðunum „stelpur kúka líka“ hefði mátt koma áleiðis á mildari hátt. En það hefði líkega ekki vakið nærri því jafn mikla athygli. Þegar frá líður, og ég er að mestu búin að ná mér eftir lesturinn, fer ég að velta því meira fyrir mér af hverju þetta er jafn hneykslanlegt og það er. Við erum að tala um mannslíkamann ekki geislavirkan kjarnorkuúrgang. Til að koma þeim boðskap á framfæri þarf líklega að ganga jafn langt og gert er.

Í hnotskurn: Votlendi segir frá nokkrum dögum í lífi ráðvilltrar ungrar stúlku og veltir upp spurningum um hvað er eðlilegt og óeðlilegt, sérstaklega hvað varðar okkar eigin líkama, með því að fara út á ystu nöf.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.